Myndskreytt af tölvu

Vegna umræðu um barnabækur þá hef ég verið að velta fyrir mér myndskreytingum. Í dag er hræódýrt að finna sér listamenn á netinu og láta þá sjá um að teikna myndir í bækur.

Ég held að myndir í barnabókum séu mikilvægar, alveg eins og sagan og textinn. Ef myndskreytingar í íslenskum barnabókum endurspegla ekki raunveruleika sem börnin geta tengt við þá er eiginlega alveg eins hægt að þýða og staðfæra bækurnar.

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé einfalt val í bókaútgáfu. Það eru ekki miklir peningar í að gefa út bækur, hvað þá barnabækur, og ef þú getur fengið ódýra myndskreytingu í útlöndum þá hækka launin allavega eitthvað.

En ef myndskreyting er bara útvistað verkefni til einhvers sem skilur ekki einu sinni textann þá verður listamaðurinn ekki slíkur meðhöfundur sem svona verkefni krefst.

Síðan er líka málið að ef þú borgar bara 15-25 dollara fyrir mynd þá ertu ekkert endilega að fá neitt annað en mynd sem er meira og minna búinn til af forriti sem býr til persónur á sama hátt og tölvuleikir. Það er bara valið um mismunandi hár, augu, húðlit, föt og svo framvegis og síðan skellt inn á staðlaðan bakgrunn. Það læðist að manni sá grunnur að slíkum dúkkulísuleik þá sé auðvelt að velja hjúkrunarkonubúning eins og voru víst algengir löngu fyrir mína tíð.

Ég held að í þessu gildi, eins og í flestu, að frjáls markaður sé ekki líklegastur til að gefa góðar lausnir heldur ódýrar lausnir. Við getum aldrei treyst frjálsum markaði að leysa nokkuð sem skiptir máli.

One thought on “Myndskreytt af tölvu”

  1. Já heyrðu, þetta er alveg rétt hjá þér. Frjálsi markaðurinn mun eyða út listafólki og list verður gerð í tölvum í staðinn. Nákvæmlega eins og við þurfum ekki bókasöfn lengur því að netið er til.

    Fyndið hvað allir sem geta ekki teiknað halda að það sé auðvelt. Og að þeir sem geta teiknað séu gráðugir því að þau vilja laun fyrir vinnuna sína. Pff, það er ekki eins og við séum fólk.

Lokað er á athugasemdir.