Ég er að dunda mér við að setja uppskriftirnar mínar inn í forrit sem er auðvelt að taka afrit af og senda uppskriftir úr. Það er samt ekki vandalaust.
Fyrsta vandamálið er, eins og alltaf, ég er búinn að breyta uppskriftunum og man ekki alltaf alveg hvað ég gerði síðast sem heppnaðist voðalega vel.
Í öðru lagi þá er góður fídus í þessu þar sem maður getur skráð uppruna uppskrifta. Það er stundum einfalt af því að þær koma beint frá Dagbjörtu, Helgu frænku eða Gulu matreiðslubókinni hennar mömmu. En ég hef breytt mörgum uppskriftum. Sumum smá og sumum mikið. Á hvaða tímapunkti er uppskrift ennþá nægilega lík upprunanum til þess að uppskriftin sé í raun ný?
Í þriðja lagi er valmöguleiki á að skrá matargerðarskóla. Hvað er til dæmis íslensk matargerð? Það segir ýmislegt um mig hvernig ég flokka það. Síðan grunar mig að ég yrði sekur fyrir glæpi gegn ítölskum matargerðararfi ef ég myndi flokka lasagnað mitt sem ítalskt.
Við getum auðvitað tekið dæmi af mexíkanska¹ kjúklingaréttinum okkar. Ég held að við höfum upphaflega fengið uppskriftina frá Hafdísi og Mumma en þau frá Árnýju. Uppskriftin hefur auðvitað gjörbreyst. Þetta er t.d. oftast ekki kjúklingaréttur af því að við erum eiginlega hætt að nota kjúkling og farin að nota baunir í staðinn. Síðan er ég auðvitað skíthræddur við að mexíkanskir matargerðarmenn hreyfi mótmælum ef ég voga mér að flokka þetta sem mexíkanskt.
Ég hef aldrei tekið orðin Mexíkói, mexíkósk eða önnur álíka í sátt.
Mér skilst að bæði sé hægt að skrifa Mexíkani eða Mexíkói. Kannski ertu undir áhrifum frá Kötlu Maríu; “lítill Mexíkani með som-sombrero.”