Gagnleg og góð forrit í Linux

Ef þú ætlar að nota tölvuna þína í fleira en að vafra um veraldarvefinn þá er nauðsynlegt að þekkja forrit sem eru í boði á Linux. Það gæti verið að sum forrit nái ekki að leysa öll verk sem þú vinnur núna í einu forriti. En það getur alveg eins verið á hinn veginn.

Það eru til Windows útgáfur af mörgum þessara forrita þannig að það er hægt að prufa þau áður en skipt er alveg yfir í Linux.

Öll þessi forrit eru ókeypis en það er alltaf gaman að gefa forriturunum smá peninga ef maður getur og sérstaklega þegar maður er að nota svona forrit í rekstri líkt og ég geri.

WPS Office

Ég nota ekki WPS Office en það er mjög vinsælt hjá þeim sem vilja halda sig við svipað umhverfi og Microsoft er með í dag. Það er líka lögð sérstök áhersla á að geta unnið með skjöl frá MS Office.

LibreOffice

Ég nota LibreOffice frekar en WPS Office af því að mér líkaði aldrei sérstaklega vel við þær útlitsbreytingar sem urðu á MS Office fyrir rúmum áratug síðan. LibreOffice virkar örugglega gamaldags ef fólk er of vant nýja MS Office en það getur unnið flest verkefni jafn vel. LibreOffice getur líka unnið með nær öll skjöl frá Microsoft.

Audacity

Audacity er hljóðvinnsluforritið. Útlitslega er það ekki fallegast en það getur gert flest sem manni dettur í hug.

Kdenlive

Kdenlive er klippiforritið sem ég nota þegar ég er að vinna myndbönd. Það tekur kannski tíma að breyta vinnuferli sínu og læra á forritið en það getur ótal margt.

OBS – Open Broadcaster Software

Ef þig langar til að verða Youtube-stjarna þá er OBS tólið fyrir þig. Það er hægt að blanda saman skjölum, skjáupptöku, vefmyndavélum, öðrum myndavélum, mismunandi hljóðrásum og nota flýtihnappa til að skipta á milli. Það er líka ákaflega auðvelt að læra á það. Kerfið getur ekki bara tekið upp myndbönd heldur er hægt að nota það til að streyma í beinni útsendingu á netið.

Gimp

Gimp hefur verið staðlaða myndvinnsluforritið í frjálsa/opna hugbúnaðarheiminum mjög lengi. Ef þú vilt laga til myndir, fjarlægja bakgrunna, setja saman myndir og flest sem þér dettur í hug þá getur Gimp gert það. Ég breyti útlitinu alltaf strax þannig að allt sé fast saman í einum glugga.

Krita

Krita er til að kríta, næstum því. Ef þú átt t.d. teiknispjald og ætlar að teikna eða mála þá er Krita fyrir þig. Það eru samt hægt að gera fleira í Krita og margir eru frekar farnir að nota það meira en Gimp. En saman eru þessi forrit mjög öflugur pakki.

MyPaint

Þetta er til að mála og teikna, einfalt að læra á það en um leið miklu færri fídusar en í Krita. Flott fyrir krakka.

Inkscape

Ef þú vilt breyta myndum í vektormyndir (svg) eða vinna með slíkar myndir þá þarftu Inkscape. Ef þú veist ekki hvað ég er að tala um þá er alveg rosalega gaman að fikta í Inkscape.

Karbon

Ef þú ert, eins og ég, með óstöðugar hendur eða óvanur teiknari þá er Karbon skemmtilegt tól til að vinna með það litla sem þú hefur og búa til línuteikningar. Forritið er líka með allskonar fídusa fyrir ákveðnar sérþarfir. Síðan er hægt að vinna myndirnar meira í Inkscape eða öðrum forritum sem ég nefndi hér að ofan.

Digikam

Í dag eiga nær allir tugþúsundir stafrænna mynda en enga leið til að halda utan um safnið sitt. Digikam er forritið sem þig vantar. Myndasafnið þitt verður dýrmætara með að skrá upplýsingar um það. Hér, eins og í öllum öðrum myndumsjónarkerfum, þá er best að skrá þessar upplýsingar í myndirnar sjálfar þannig að þær lifi áfram þó þú skiptir um kerfi (en passa auðvitað upp á persónuverndarmál ef myndirnar þínar eru að fara í almenna dreifingu).

Darktable

Darktable er ljósmyndavinnsla fyrir lengra komna.

Musescore

Þarftu að skrifa upp nótur eða búa til midi-skrár? Þá er Musescore fínt tól. Ég kann ekki nótnalestur en með því að skrá nóturnar í Musescore (og með smá kennslu frá Telmu kláru) þá gat ég látið forritið spila fyrir mig þjóðlög úr bók Bjarna Þorsteinssonar.

VLC

Ef þú vilt spila myndbönd þá notar þú VLC. Ekkert flóknara en það.

Handbrake

Ef þú þarft að breyta myndbandi úr einni tegund í aðra eða „rippa“ DVD safnið þitt þá notarðu Handbrake.

Steam/Proton

Steam hefur sífellt verið að auka stuðninginn við Linux. Með Proton, sem er sérsniðin leikjaútgáfa af Wine, þá eru margir tölvuleikjaspilarar farnir að skipta yfir.

PlayOnLinux

PlayOnLinux er notað til að setja upp Windows leiki, og margt fleira, á Linux. Það byggir á Wine, líkt og Proton, og hefur misst stöðu sína nokkuð undanfarið.

Thunderbird

Ef þú vilt nota tölvupóstforrit þá er Thunderbird best, getur flest en er alræmt fyrir að vera ljótt.

Scribus

Ég hef notað Scribus þegar ég er að búa til prentskjöl fyrir spilin mín. Það er smá kúrva (ekki pólskusletta) að læra á það en það getur ótrúlega margt. Það er hægt að vinna bækur, veggspjöld og flest önnur prentskjöl í Scribus.

VirtualBox

Settu upp sýndarvélar til að prufa eða keyra stýrikerfi eða forrit sem virka bara í þeim stýrikerfum.

WineHQ

Ef þig langar að keyra Windows forrit í Linux þá er alltaf hægt að prufa WineHQ. Það virkar oft en ekki alltaf. En það er haldið ágætt bókhald yfir hvað virkar og hvað ekki.

Firefox

Já, það er hægt að fá Chrome í Linux en maður sleppur ekki undan Microsoft til þess að fara beint í klærnar á Google. Firefox er með ótal viðbótum, t.d. stuðning við stafssetningarvilluleitarviðbót á íslensku.

Pale Moon

Frjálsari „útgáfa“ af Firefox. Færri viðbætur samt.

Brave

Ef þú hefur áhyggjur af persónulegum upplýsingum þá er Brave kannski fyrir þig. Vafrinn getur keyrt upp Tor í sérglugga þegar þú vilt algjört næði.

Opera

Gamall vafri og góður. Ennþá skemmtilegur.

Vivaldi

Arftaki Opera að mörgu leyti þó sá fyrrnefndi sé enn í fullu fjöri.

One thought on “Gagnleg og góð forrit í Linux”

  1. Dosbox til að spila gömlu leikina (ok, hægt að spila flesta þeirra í vafra í dag…).

Lokað er á athugasemdir.