Eitt af því sem fer mest í taugarnar á mér á Facebook, og það er margt sem pirrar mig við Facebook, er hvernig vefurinn misþyrmir myndum. Ég veit að mörgum finnst JPG myndir sjálfgefið form á myndum í öllum tilfellum. En það er bara ekki svo einfalt. Augljósa dæmið er að JPG myndir bjóða ekki upp á jafn mikla möguleika og t.d. PNG.
Ein helsta ástæðan fyrir því að maður notar PNG myndir er að það er hægt að gera bakgrunninn ósýnilegan.
Ef maður tekur sömu mynd og vistar sem JPG þá er hún….
Ég vona að þið sjáið einhvern mun. En JPG verður ekkert mikið betra en þetta af því að bakgrunnurinn á myndinni passar ágætlega við síðuna hérna. Ef maður breytir litnum á síðunni verður þetta verra.
Þannig að JPG myndin treystir á að þú setjir inn bakgrunn sem er nákvæmlega eins og bakgrunnur vefsíðunnar. PNG-myndin getur alltaf aðlagast nær öllu – nema að meginefni hennar sé samlitað bakgrunninum.
Þegar kemur að Facebook þá breytir kerfið öllum myndum í JPG þannig að það skiptir ekki máli ef þú hefur búið til fallega PNG mynd með ósýnilegum bakgrunni. Facebook bara breytir því einhvern veginn.
Síðustu daga hefur Krambúðin verið að auglýsa grimmt hjá mér á Facebook og með henni fylgir þessi mynd.
Skjáskot af auglýsingunni.
Væntanlega skilja fæstir hvers vegna Krambúðin er að nota svona asnalega mynd í auglýsingum. En málið er að á vef Krambúðarinnar finnur maður myndina í upprunalegri PNG útgáfu.
Þessi mynd er notuð á gulum bakgrunni á síðunni og þó ég hafi séð betri klippimyndir þá er þetta alveg þolanlegt. Vandinn er að þegar Facebook fær myndina þá tekur kerfið sig til og breytir í JPG. Af einhverjum ástæðum notar Facebook ekki sjálfkrafa hvítan bakgrunn sem passar við þeirra vef. Nei, þeir setja inn svartan bakgrunn sem skemmir allt. Myndin er líka klippt og skorin einhvern veginn.
Ég veit ekki til þess að hægt sé að stjórna hvernig Facebook breytir PNG myndum en það á að vera hægt að stjórna því hvaða mynd Facebook velur. Þannig að Krambúðin gæti tekið PNG myndina, sett á hana hvítan bakgrunn, vista sem JPG og skrá Open Graph lýsigögn þannig að Facebook velji hana en ekki PNG myndina.
Það þyrfti líklega líka að skera hana til af því að Facebook misþyrmir líka JPG myndum sem kerfið hleður upp. Lexían er kannski aðallega, notið PNG myndir en ekki Facebook.