Gervikjötætan ég

Ég er kjötæta. Mér finnst kjöt gott en margt grænmeti vont á bragðið (mér finnst laukur reyndar oft góður en hann var alveg skelfilega illa í mig ef hann er ekki afskaplega vel steiktur). Ég er ekki á leiðinni að hætta að borða kjöt … alveg.

En ég hef lengi verið áhugasamur um gervikjöt af ýmsu tagi. Lengi vel var það rannsóknarstofukjötið sem heillaði mig en síðan tók ég eftir því að allskonar kjötlíki urðu meira áberandi í umræðunni.

Ég man reyndar sérstaklega eftir umræðu um kjötlíki tengdri frétt frá Guardian. Þar voru gagnrýnendur úr tveimur hópum mjög reiðir. Annars vegar grænmetisætur sem töldu að það væri rangt að líkja eftir kjötbragði og hins vegar kjötætur sem töldu það aðför að sjálfsmynd sinni að bjóða upp á svona gervidót. Ég þoli illa þegar fólk reynir að staðsetja sig á hinum gullna meðalvegi en þetta var svo galið í tvær áttir að ég gat varla annað en tekið afstöðu gegn þessum öfgavitleysum.

Málið er auðvitað að flest kjöt sem maður borðar er ekki gott nema rétt kryddað og/eða með sósum. Það segir sig sjálft að kjötið sjálft er ekki endilega nauðsynlegt.

Í upphafi árs tókum við ákvörðun á heimilinu að prufa jurtakjötið kerfisbundið. Við vorum nokkuð samstíga um þetta. Þetta er blanda af öllum þessum ástæðum sem þið þekkið. Loftslagsmál og heilsa auðvitað. En líka það að þó ég sé kjötæta þá tel ég að okkur beri skylda bæði til að koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum og að leita annarra leiða til að sækja næringu.

Þannig að við höfum prufað hitt og þetta. Það sem hefur helst hitt í mark hjá mér Oumph! hamborgarinn. Hann er alveg frábær á bragðið. Ég tek fram að ég er ennþá að nota alvöru ost ennþá. Þegar ég er að elda kjöt þá er ég allur á nálum og „gæti fyllsta hreinlætis“ af því að ég er að hugsa um sýkla. En maður getur andað rólega með gervikjötið. Það er þá bara eins og meðhöndla brauð.

Ég hef líka fundið veganhakk sem ég er ánægður með. Það er frá Anamma og fæst í Bónus. Ég hef prufað það í lasagna, með spaghetti og á pizzur. Auðvitað getur maður ekki komið fram við þetta nákvæmlega eins og kjöt en munurinn er hverfandi. Það er líka alveg hræódýrt.

Eftir að hafa borðað gervihakkið nokkrum sinnum í röð og síðan skipt aftur yfir í kjöt þá finn ég fyrir því að það fer verr í líkamanum. Hálfgerð ónot í maganum hafa oft fylgt kjötáti en verður miklu meira áberandi þegar maður finnur ekki fyrir neinu slíku eftir kjötlíkið. Það sama gildir um hamborgarana. Manni líður bara betur að sleppa kjötinu.

Þannig að ég geri ráð fyrir að gervikjöt af ýmsum gerðum verði sífellt meira áberandi á okkar matarborðum næstu árin. Við verðum ekki grænmetisætur eða vegan á einni nóttu en við hver veit hvað gerist með áframhaldandi þróun.