„Var myrtur“

Þegar Íslendingabók var í vinnslu var almenningi boðið að fá útprent af upplýsingum um forfeður sína. Ég stökk auðvitað til. Það vill svo til að í ættfræði er yfirleitt fljótlegast að klífa upp karllegginn.

Ætli upplýsingarnar ætli hafi ekki svipaðar þá og núna:

Stefán Jónsson
Fæddur 23. ágúst 1801 á Neðri-Vindheimum, Glæsibæjarhr., Eyj.
Látinn 11. ágúst 1852 í Glæsibæjarsókn, Eyj.
Bóndi á Áslákstöðum, Lögmannshlíðarsókn, Eyjafjarðarsýslu 1845 og 1850.
Var myrtur.

Ég var frekar hissa að sjá síðustu línuna. „Var myrtur“. Ég hafði aldrei heyrt á það minnst að langalangalangafi minn hefði verið myrtur. Ég talaði við Hafdísi systur og hún kannaðist ekkert við þetta.

Ég reyndi að leita að frekari upplýsingum en fann ekkert. Þannig að svo leið tíminn. Ég kíkti í bækur og fann lítið af upplýsingum. Fyrren 2008 að ég var í heimsókn hjá Dagbjörtu vinkonu minni og kíkti í bók um nítjándu öldina. Þar var grein um morðið: „Maðurinn með ljáinn“. Þetta kom mér á sporið.

Hægt og rólega safnaði ég greinum, grúskaði í kirkju- og dómabókum. Það fór saman að ég varð betri að leita að upplýsingum og að meira af upplýsingum kom á netið. Greinarnar voru oft ýktar og með smellibeitufyrirsögnum (þó þær hafi ekki verið skrifaðar fyrir netið).

Morðið var framið á Ásláksstöðum. Það er bær sem er skammt norðan við Akureyri. Þessi mynd sýnir staðsetninguna. Ég setti líka svartan punkt á Búðasíðu 1 þar sem ég bjó 1989-1991. Sumsé rétt hjá.

Hér á eftir fer uppritun mín úr dómabók (ég reyndi ekki að hafa þetta stafrétt):

Ár 1852 hinn 12 August á Bitru í Kræklingahlíð var pólitíréttur haldinn af sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu með vottum Stefáni Jónssyni bónda á Hraukbæ og Jóni bónda Stefánssyni á Mýrarlóni til að gjöra rannsókn áhrærandi sjálfsmorði Jónasar Sveinssonar frá Lögmannshlíð m.m.

Mætti fyrir réttinn Hermann bóndi Sigfússon á Bitrugerði og var brýnd fyrir honum skylda hans að segja satt frá öllu er hann yrði spurður um. Hann skýrir svo frá, að í fyrrakvöld hafi Ásláksstaðabörnin komið hlaupandi sunnan að og hafi það elsta af þeim, Soffía, er var fermd í vor, kallað til sín og beðið sig í guðs bænum að koma suðureftir, hann Jónas Sveinsson væri að drepa hann pabba sinn, kveðst hann svo eftir hafa hlaupið suðureftir, og séð Stefán Jónsson bónda á Ásláksstöðum liggja þar í slægjunni með blóðrás úr sári á bakinu neðantil, þó kveðst hann ekki hafa séð sárið sjálft, heldur skurð á fötunum og skamt þaðan Jónas Sveinsson frá Lögmannshlíð skorinn á háls, er þó með lífi, en ekki svo að gæti neitt talað. Stefán sagði og honum þá að Jónas hefði veitt honum þetta sár með ljá bundnum í orf er hann hefði haft með sér hafði Jónas komið til hans í slægjuna, og sagt ætla að Bitru til sláttar, höfðu þeir sest niður og talað meinlauslega [við hann] saman um veðrið og tíðina, hefði Jónas svo staðið upp og tekið orfið með ljáinn í og rekið sjáinn í sig og sagði: „Þetta ætlaði ég þér, bölvaður“. Kvaðst Stefán þá hafa náð í orfið og náð því af Jónasi og hafi þá gengið þangað sem hann lá og skorið sig á háls með hnífskuta er líka fannst við hliðina á honum blóðugur.

Pétur bóndi Guðmundsson á Bitru var líka kallaður fyrir og var hans vitnisburður „öldungis samhljóður undangangandi vitni“.

Bæði vitnin skíra frá, að Jónas Sveinsson hafi verið greindur maður og lesinn, en fremur undarlegur og ofsafenginn, þegar eitthvað bar út af eða honum þótti fyrir einkum ef hann hefði orðinn drukkinn. Þau neita að Jónasi, hafi neitt verið ráðinn hjá þeim til sláttar.

Kallað var á lækni og Stefán var borinn inn í hús. „[G]jörði hann þá ráð fyrir að hann mundi ekki verða heill af þessu, og vitnaði þá til guðs, að hann hefði verið saklaus við Jónas.“

Læknirinn hlúði líka að Jónasi, taldi hann dauðvona og lét bera hann heim að Lögmannshlíð þar sem hann lést um kvöldið. Stefán lifði um sólarhring lengur. Í kirkjubók kemur fram að amtsleyfi hafi fengist til að jarða Jónas í kirkjugarðinum.

Réttinum var haldið áfram í Lögmannshlíð þar sem Guðmundur Pétursson á Bitru var vottur. Jónas Jónsson bóndi þar á bæ vitnaði um samskipti sín við nafna sinn Sveinsson fyrr um daginn sem morðið var framið.

Jónas Sveinsson hafði komið heim til sín. Hann batt ljá sinn við orf og sagðist ætla að fara að hjálpa Hermanni í Bitrugerði við slátt. Húsbónda hans þótti skrýtið að hann væri að fara svona seint af stað í slíkan leiðangur. Hann sagði líka að Jónas hefði drukkið brennivín – þó ekki hefði séð á honum. SpurðPétur bóndi Guðmundsson á Bitru var líka kallaður fyrir og var hans vitnisburður „öldungis samhljóður undangangandi vitni“.ur um nafna sinn sagði hann að Jón hefði værið „örlyndur maður, en ekki sýndi hann neinn ofsa á þessu heimili“.

Jónas Sveinsson hafði verið að heiman um morguninn áður en morðið var framið. En við skulum fyrst fara aftur til 20. apríl sama árs. Þann dag var aukaþinghald að Ásláksstöðum.

Fyrirtekin sök er Guðmundur Pétursson á Bitru höfðar gegn konu hans Ásdísi Þorsteinsdóttur á Ásláksstöðum til hjónaskilnaðar.

Húsbóndi Ásdísar, Stefán Jónsson, var „svaramaður“ hennar í þessu máli.

Ásdís hafði árið 1850 fætt andvana barn. Hjónin höfðu ekki búið saman um nokkurn tíma og taldi Guðmundur barnið ekki sitt. Ásdís þvertók fyrir það og sagði mann sinn eiga barnið. Þá var kallað fyrir vitnið Jónas Sveinsson hafði líka unnið og búið að Ásláksstöðum.

Jónas vitnaði um að Ásdís hefði sagt sér að Stefán væri faðir hins andvana barns. Ásdís neitaði að hafa sagt honum nokkuð slíkt.

Í dómnum er það nefnt, næstum í framhjáhlaupi, að Ásdís hafi á þessum tímapunkti „auðsjáanlega verið barnsþunguð“ á ný. Reynt var að fá Guðmund til að samþykkja frestun á málinu en hann taldi að það hefði tafist nóg. Fallist var á það.

Hjónabandi þeirra er slitið og má Guðmundur giftast aftur er ekki Ásdís nema með konungsleyfi.

Þann 24. júlí fæddi Ásdís dóttur. Lögregluþing var haldið þann 10. ágúst.

Barnsfaðernislýsingarmál Ásdísar Þorsteinsdóttur vinnukonu á Kaupangi gegn [Jónasi] Sveinssyni giftum manni á Lögmannshlíð. Hann eftirlætur henni eið.

Ásdís kvað Jónas vera föðurinn. Jónas gekkst ekki beinlínis við því en ef hann hefði svarið neitunareið hefði þetta væntanlega verið hans orð gegn hennar. En hann lét það vera og eiður Ásdísar stóð. Jónas var úrskurðaður faðir barnsins.

Eftir þinghaldið fór Jónas aftur heim að Lögmannshlíð. Náði í ljáinn og reið að Ásláksstöðum til að myrða Stefán.

Það voru ekki mörg blöð á Íslandi á þessum árum og útgáfa þeirra ekki endilega mjög regluleg. En þann 12. september birti Þjóðólfur eftirfarandi grein um málið. Ég set ýmsar spurningar við innihald greinarinnar. Ég hef breytt letri þess sem er beinlínis á skjön við það sem kom fram fyrir rétti og/eða kirkjubókum.

Að norðan hefur oss borizt þessi hryggilegi atburður: Maður hjet Jónas, og annar Stefán og býji á Ásláksstöðum í Kræklingahlíð í Eyjafirði. Nú bar svo við, að stúlka ól barn á heimili Stefáns og kenndi Jónasi; en hana kvað skakka 5 vikum, ljet þó stúlkunni eptir eiðinn, svo hún sór á hannn barnið; en það var álit flestra, að Stefán væri hinn rjetti faðir. Þegar Jónas kom frá rjettinum, þar sem barnið var á hann svarið, var hann heima næstu nótt í Lögmannshlíð, þar sem hann átti heimili, en hann var lausamaður. Næsta morgun fór hann af stað þaðan með orf sitt og ljá eitthvað út á bæjina, þar sem hann var í kaupavinnu. Leið hans lá þar um engjar, er Stefán stóð að slætti, og barn hans nokkur hjá honum. Hann gengur til Stefáns og kveður hann; voru þeir gagnkunnugir frá barnsbeini og uppeldisbræðnr. Þeir setjast á þúfu og taka tal saman um hitt og þetta ; en er Jónas stendur upp, sem hann vildi fara leiðar sinnar og kveðja Stefin, sveiflar hana orfinu, og leggur með ljánum ofanvert við mjöðmina í hol í huppinn, og vildi þegar ljósta hann öðru lagi; en Stefán varð skjótari til bragðs, þreif um orfið og náði því. Jónas skundar þá þaðan fáa faðma, tók upp vasakníf sinn og skar sig á háls á barkann framanverðan. Menn voru þar nærri við heyskap af öðrum bæjinn. og sáu atburðinn, en börn Stefáns sögðu þegar til, og komu þá nokkrir þar að í fljótri svipan, til að stumra yfir hinum vegna og vegandanum. Nú var sent eptir lækni, og sá hann strax að báðir voru særðir til ólífis. Lifði Stefán sólarhring og sagði atburðinn allan, sem hjer er talið; en Jónas lifði 3 dægur mállaus, og ljet svo líf sitt. Það þóktust menn hafa fyrir satt, að Jónasi mundi hafa verið þetta í skapi, er hann fór að heiman um morguninn; því hann skildi eptir heima á vísum stað kistulykla sína, er hann aldrei var vanur að skilju við sig. Í prófi því, er sýslumaður hjelt, og vitnaleiðslu um atburð þennan, er mælt að vitni öll hali borið Jónasi vel söguna um æfi hans og hegðan að undanförnu, en Stefáni miður.

Þessi grein, sem er bókstaflega röng í mörgu sem er skjalfest annars staðar. Mikið er af nýjum upplýsingum, þar á meðal að fullyrða að Stefán væri faðir barnsins. Miðað við hve illa er farið með staðreyndir sem eru þekktar set ég stórt spurningarmerki við annað sem kemur þarna fram. Það læðist vissulega að manni sá grunur að einhver nákominn Jónasi hafi komið upplýsingum til Þjóðólfs þar sem reynt var að sverta mannorð Stefáns. Ef svo er þá virkaði það. Allar þær yngri greinar sem ég hef lesið um málið virðast byggja á þessari – þó sumar vísi líka á betri heimildir meðfram.

Nú veit ekkert hver faðerni barnsins umrædda var í raun. Hún hélt föðurnafni sínu Jónasdóttir alla ævi. En það þarf ekki að þýða neitt. Það sem mér finnst undarlegast er að Jónas skuli ekki bara hafa afneitað faðerninu við þinghaldið. Það er ekki eins og að það hafi verið í tísku að trúa konum á þessum árum.

Þar sem það er fátt hryllilegra en að myrða foreldri fyrir framan börn sín þá finnst mér ekki skipta máli hvort Stefán var góður maður eða ekki. Langa-langafi minn hann Kristján var ekki orðinn heils árs gamall þegar faðir hans var myrtur og fékk því aldrei að kynnast honum. Hver sem var faðir stúlkunnar nýfæddu skiptir ekki miklu máli enda ólst hún upp föðurlaus. Jónas tryggði það.

Úr dómabókum Eyjafjarðarsýslu

Skilnaðarmál 20. apríl 1852.

Faðernismál 10. ágúst 1852.

Morðmál 12. ágúst 1852.