Ég er búinn að vera mikið á Twitter síðastliðið ár. Allavega meira en fyrri ár. Ég hafði lengi grínast með það að ég notaði Twitter aðallega til að reyna að fá fræga fólkið til að taka eftir mér. Ég játa alveg að það er smá sannleikur í því. Mér fannst skemmtilegt þegar Neil Gaiman “endurtísti” mig nýlega.
En mig langar stundum að ræða einhver mál á Twitter og þá fer allt til fjandans. Sjálft formið er auðvitað hræðilegt. Maður getur ekki komið almennilegum hugsunum til skila í örfáum orðum. Þannig að ég lendi ítrekað í því að fólk svarar mér með því að benda á eitthvað sem ég hefði tekið fram ef ég hefði fleiri stafabil.
Það er auðvitað til ákveðin lausn sem er Twitterþráður. Mörg tíst í röð sem mynda eina heild. En ég nenni slíku almennt ekki. Ég myndi frekar blogga en að skrifa mörg tíst.
Stundum dreymir mig um að verða hálfgerður Sókrates á Twitter. Ég er reyndar svolítið að ýkja eigin sjálfsálit hérna. En ég hugsa oft um hvernig samræður í verkum Platóns virka. Það eru leiddir fram punktar með spurningum og svörum sem eru ekki augljósir í fyrstu.
En ef Sókrates hefði verið á Twitter þá hefði hann aldrei komist að kjarna málsins. Eða hann hefði kannski komist að kjarna málsins í djúpum samskiptum við einn tístara. Á sama tíma væri hann að fá endalausar athugasemdir við fyrri tíst frá fólki sem hefur ekki reynt að lesa umræðuna í heild sinni. Hann væri löngu búinn að útskýra og útfæra betur punktana sína. Samt væri alltaf eitthvað fólk að hamra á einstökum punktum sem virka vel í stóra samhengi þess sem hann var að segja.
Hér er vandamálið ekki bara leti fólks. Á Facebook getur fólk skoðað umræður í heild sinni á einfaldan hátt. En það nennir því bara ekki því það telur sínar hugsanir of merkilegar til að setja sig inn í samræðurnar. Twitter er hins vegar þannig að það er voðalega erfitt að sjá allt í samhengi. Maður sér svör í allskonar röð og maður veit varla hver er að svara hverjum nema að maður smelli aftur og aftur og þá missir maður alltaf stærra samhengið.
Þannig að ef málsvörn Sókratesar hefði farið fram á Twitter þá hefði hann líklega verið enn fljótari að drepa sig.
Andstæðan við Sókrates er Handan góðs og ills eftir Nietszsche. Þar skellir Nietzsche fram mörgum kjarnyrtum punktum. Margir þeirra eru bókstaflega á lengd við tíst. Nietzsche hefði getað komið sínum á framfæri á Twitter.
Þannig að ég hugsa stundum að ég þyrfti að vera meira eins og Nietzsche ef ég ætla að tjá mig á Twitter. En mér tekst það voðalega sjaldan. Ég er líka töluvert hrifnari af samræðuforminu þannig að ég reyni það enn þrátt fyrir slæma reynslu mína af því.
Síðustu viku hef ég nokkrum sinnum séð hve ólukkulegt þetta samræðuform er. Fyndnasta dæmið er að einhver kallaði mig frjálshyggjumann. Ég var svolítið hissa en giskaði síðan að sá hefði mislesið upplýsingaklausuna um mig á Twitter. Þar titla ég mig “librarian”. Þetta var mislesið sem “libertarian”.
Sá sem kallaði mig frjálshyggjumann bakkaði strax í næsta tísti. En það sem gerðist var að fólk hélt áfram að gefa “læk” á frjálshyggjukommentið. Það taldi að þarna hefði ég svoleiðis verið afhjúpaður.
Þetta sé ég ítrekað á Twitter. Twitter sýnir ekki samhengið í heild þannig að fólk heldur áfram að styðja staðhæfingar sem hafa verið dregnar til baka. Fólk hefur náð sátt um ákveðinn punkt en meirihlutinn sér það aldrei.
Þannig að mér finnst Twitter að mörgu leyti verri vettvangur en Facebook sem er alveg ótrúlegur árangur af því að ég hata Facebook svo innilega.