Twitter, Trump og tjáningarfrelsi

Í sjálfu sér hef ég ekki miklar áhyggjur af því að Twitter (ásamt fleirum) sparkaði Donald Trump. Það var engin árás á tjáningarfrelsið. Maðurinn er með ótrúlega öfluga maskínu á bak við sig sem getur komið boðskap hans á framfæri.

En Trump virðist ekki kunna að koma sér öðruvísi á framfæri. Það er áhugavert. Hann lærði á Twitter. Hann náði að auglýsa sig þar. En hann hafði fjögur ár til að finna sér betri sápukassa til að standa á en gerði það ekki. Mig grunar að hann hafi tengt töluvert af persónulegri vellíðan sinni við lækin sem hann fékk þar.

Það sem við höfum séð gerast síðasta áratug eða svo er að samfélagsmiðlarnir hafa náð að koma sér í þá stöðu að vera gátt margra að vefnum. Fólk sem fór fyrst að stunda netið á þessum árum þekkir varla annað en að nálgast efni á þennan hátt. Það hafa margir varað við þessari þróun.

Frá banni Trump hefur umræðan mikið verið um tjáningarfrelsi og ritskoðun. Því hefur verið haldið fram að einkafyrirtæki svo sem Twitter og Facebook geti ekki stundað ritskoðun enda sé ekki um ríkisvald að ræða. Ég held að það sé í raun rétt en að málið sé samt ekki svo einfalt. Þessi fyrirtæki hafa komist í þá stöðu að stjórna aðgangi að samfélagslegri umræðu.

Þegar ég segi að ég hafi ekki áhyggjur af banni Trump þá er það vegna þess að samfélagsmiðlar hafa alltaf verið að sparka fólki út. En það hefur almennt verið valdalítið fólk sem missir nær alveg sína rödd þegar það missir aðgang sinn af samfélagsmiðlum.

En hvaða kröfur getum við gert til samfélagsmiðla þegar þeir eru í raun miðstöð tjáningar? Mér finnst mikilvægast að reglur séu skýrar og gildi jafnt fyrir alla. Donald Trump hafði margoft brotið reglur Twitter og Facebook. Hann var ekki bannaður vegna þess að fyrirtækin voru að græða á honum. Reglurnar gengu ekki jafnt yfir alla.

Það segir annars sitt hvenær Twitter og Facebook fóru að taka á Trump. Þá á ég ekki bara við árásina á þinghúsið í Washington DC. Ég á við að það gerðist á þeim tímapunkti að ljóst var að hann hefði tapað. Þegar við vissum að Demókratar væru að taka við völdum.

Það er auðvelt að giska á útreikning fyrirtækjanna. Trump varð minna virði. Margir Demókratar hafa líka talað um að setja harðara lög um samfélagsmiðla. Þannig má vissulega sjá bann Trump sem tilraun til að friðþægja nýja valdhafa. Það er ekki falleg tilhugsun.

Á sama tíma og Trump var bannaður var gerð atlaga að samfélagsmiðlinum Parler. Ég syrgi ekki Parler. Þar fengu nýnasistar að vaða uppi með hótunum um ofbeldi. En það að Google, Apple og Amazon gátu í samvinnu drepið samskiptamiðil er vægast sagt áhugavert. Það eru allar líkur á að skilmálar fyrirtækjanna hafi verið með þeim hætti að þetta hafi allt verið samkvæmt reglum sem Parler hafi gengist undir. Mig grunar samt að Parler hafi fyrir löngu brotið umrædda skilmála. Þarna er það sama, reglurnar eru endilega skýrar og ganga ekki jafnt yfir alla.

Ég held að við hefðum getað komist hjá þeirri stöðu sem við erum í dag þar sem örfá stórfyrirtæki hafa gríðarleg völd yfir samskiptum og tjáningu. Við eigum tólin, það eru samkeppnislög sem voru bókstaflega sett til að koma í veg fyrir einokunina sem við sjáum í dag. En síðustu 40-50 ár hefur frjálshyggjan gert atlögu að þessum lögum.

Í dag er túlkun á einokun og samkeppnishömlunum mjög þröng. Það er einblínt á verð til neytandans. Auðvitað er hagur almennings ekki einskorðaður við slíkt. Amazon, Apple, Google, Facebook og Twitter hafa öll hamlað valfrelsi og nýsköpun. Þessi fyrirtæki hafa öll keypt eða kæft ótal samkeppnisaðila með markaðsráðandi stöðu sinni.

Í þessu ljósi er óneitanlega fyndið að sjá frjálshyggjufólk kvarta yfir banninu á Trump. Hugmyndafræðilega gjaldþrota í kjölfar bankahrunsins náði það að sjá loddarann sem lausnara sinn og snerist gegn eigin arfleifð.

Til framtíðar vona ég að andstæðingar Trump falli ekki fyrir því að þessi stórfyrirtæki séu núna allt í einu samfélagslega ábyrg. Þau eru það ekki. Þau mega ekki hafa þessi völd. Ég vona að það sé hægt að vinda ofan af þeim. Alls ekki með því að ríkisvæða þessar „veitur“. Það er voðaleg hugmynd. Netið sjálft er eins og vatnið í krananum en einstaka netfyrirtæki eru það ekki. Ætti allavega ekki að vera það.

Það væri betri hugmynd að kljúfa Facebook og Twitter í minni einingar og neyða fyrirtækin til að opna á tengingar við aðra samfélagsmiðla. Fyrirtækin mættu þá auðvitað hafa skýrar reglur, sem gilda jafnt fyrir alla, sem myndu koma í veg fyrir tengingar við fyrirbæri á við Parler.

Ekki það að ég hafi endalausar lausnir. En þetta eru nokkrar hugmyndir sem ég tel rétt að hafa í huga til framtíðar.