Ég byrjaði að blogga reglulega í febrúar 2002. Ég var ekki einn af þeim fyrstu en ég var töluvert á undan stóru bylgjunum sem komu þegar íslenskir aðilar fóru að bjóða upp á bloggkerfi, Blogg Central og Blog punktur Is. Hérna er brandari sem ég þarf að útskýra fyrir lesendum. Ég ber Blog punktur Is þannig að það rímar við flog. Ég geri þetta af því það hefur alltaf verið hallærislegt að sleppa seinna géinu sem einkennir íslenska orðið blogg.
Bloggsamfélagið árið 2002 var lítið. Til þess að geta bloggað þurfti fólk annað hvort að vera mjög tæknivætt eða þekkja einhvern slíkan. Ég var sæmilega tæknivæddur og gat sett upp blogg með vefhönnunarforritinu Frontpage. Það var ekki besta kerfið en virkaði.
Þegar ég byrjaði voru kommentakerfi sjaldgæf. Ef þú vildi taka þátt í umræðum vísaðir þú á skrif annarra í þinni eigin færslu. Sömuleiðis vorum við flest með tengla á okkar uppáhalds bloggara sem okkar lesendur gátu séð. Þannig gátu þeir fundið nýja bloggara. Bloggarar grínuðust með hugtakið skjallbandalag um þá sem vísuðu gjarnan á hver aðra.
Það var samt þreytandi að þurfa sífellt að opna síður til að athuga hvort fólk væri komið með nýjar færslur. Hjálpin barst í formi nýrrar veftækni. Ég myndi segja að sú tækni sé sú merkilegasta sem hefur bæst við vefinn frá því að ég byrjaði að stunda netið reglulega. Ég er að tala um RSS strauma. Þó þið þekkið ekki orðið ættuð þið samt að kannast við táknmyndina, það er appelsínugulur ferningur með tveimur bylgjum sem streyma frá punkti í horninu.
Skammstöfunin RSS hefur ekki bara eina meiningu en mér líka alltaf best við „Really Simple Syndication“ sem gæti íslenskast sem „afar einföld dreifing“. Þessi staðall var fyrst þróaður af fólki tengdist Netscape vafranum en seinna tóku við aðrir hópar. Af þeim sem bjuggu til þennan staðal myndi ég vilja nefna Aaron Schwartz, ekki af því að hann hafi verið mikilvægastur heldur af því að saga hans er bæði sorgleg og táknræn fyrir þá hugmyndafræði sem RSS tilheyrir. En ég fer ekki í þá sögu í dag.
Sú afar einfalda dreifing sem RSS býður upp á er tiltölulega einfalt skjal sem er tengt til dæmis bloggsíðum eða fréttavef. Í hvert skipti sem nýtt blogg eða frétt birtist uppfærðist þetta skjal. Í því kom fram, hið minnsta, titill hinnar nýju færslu og tengill á hana. Þróuð skjöl bjóða upp á meiri upplýsingar, svo sem útdrátt úr færslunni, tímastimplun og svo framvegis. Það er hægt að kalla lýsigagnayfirlit.
Þessi skjöl, eða straumar, eru ekki hönnuð til þess það að manneskjur lesi þau. Þau eru gerð fyrir tól sem opna skjölin reglulega og láta síðan manneskjur vita þegar eitthvað nýtt hefur birst. Ástæðan fyrir því að þetta er betra en sækja bara upplýsingar um uppfærslur beint á síðurnar er sú að þetta er stöðluð, kerfisbundin aðferð til að dreifa þessum gögnum. Um leið skipti miklu máli á sínum tíma að þessir straumar kröfðust ekki mikillar bandvíddar.
Tólin sem sóttu og birtu strauma íslenskra blogga á formi sem hentaði mannfólki voru svokallaðar RSS-sveitur. RSS Molar var ekki fyrsta bloggveitan. En hún var sú mikilvægasta þegar ég stundaði bloggheima sem mest. Umsjónarmaður hennar var Bjarni Rúnar Einarsson (sem ég hugsa enn um sem BRE þar sem hann notaði skammstöfunina reglulega á þessum tíma). Hann hefur þó nýlega tekið upp viðurnefnið „er ekki á Facebook“ sem sýnir ágætlega hvernig hann er í mínum huga líka táknmynd þeirrar hugmyndafræði sem ég er að lýsa hér.
Þegar við heimsóttum RSS Mola fengum við lista með allra nýjustu bloggfærslunum í öfugri tímaröð. Fyrirsagnir þeirra leiddu okkur beint á þessar færslur. Fljótlega buðu RSS Molarnir upp á þann möguleika að notendur gætu búið til lista með sínum uppáhalds bloggurum.
Það er engin tilviljun að þetta minnir okkur á flesta samfélagsmiðla dagsins í dag. Tímalína þín er útgáfa af þessu, bara miklu verri. Félagsmiðlarnir byggja ekki á neinu jafnrétti. Þú færð ekki að sjá bara nýjasta efnið sem fólkið sem þú fylgir er að skrifa eða deila. Algóryþminn ákveður þetta fyrir þig. Fyrirtækin vilja að þú sýnir viðbrögð, að þú smellir og kommentir. Besta leiðin til þess er að gera fólk reitt. Þessi eitraða útgáfa af blogg- og fréttaveitum er stór ástæða fyrir stöðu samfélagslegrar umræðu í dag.
Önnur útgáfa af RSS-veitum voru þær þjónustur sem söfnuðu og birtu bara strauma sem þú valdir. Af þeim er Google Reader frægust enda var hún eiginlega allsráðandi á tímabili. Árið 2013 ákvað Google að loka veitunni í augljósri von um að allir myndu hópast á Google Plus í staðinn. Eruð þið ekki öll á Google Plus? Góð áminning um að við ættum aldrei að treysta á að þjónusta Google verði til staðar til lengri tíma.
Þegar Google Reader lokaði markaði það endalok ákveðins tímabils í sögu RSS strauma. Upp til hópa gafst fólk upp á að fylgja þessum straumum. Í staðinn er það tímalínan á samfélagsmiðlunum. Sem er ekki gott.
Við sem dreifum efni okkar á vefnum lítum samfélagsmiðlega töluvert öðru ljósi en almennir notendur. Facebook er auðvitað verst, enda stærst. Þegar Facebook byrjaði að lokka okkur bloggara til sín var það með loforð um gull og græna skóga. Við byrjuðum að deila efni okkar á Facebook og ýttum um leið undir að fólk hætti að nota þessar gömlu veitur. Engin þörf á slíku þegar hlekkirnir bara birtast á tímalínunni þinni.
Það kom auðvitað í ljós að við sem sköffuðum efni vorum ekki að njóta þess að eyða tíma okkar í grænum skógi, við vorum skógurinn og Zuckerberg var fljótur að höggva okkur niður. Við fengum auðvitað ekkert gull, þvert á móti áttum við að nota eigið gull til að fá Facebook til þess að sýna notendum sínum efnið sem við vorum að dreifa.
Grófasta dæmið um fyrirlitlega framkomu Facebook í garð þeirra sem skapa efni var hið svokallaða „pivot to video“. Á einhverjum tímapunkti ákvað Facebook að myndbönd væru framtíð þess. Fyrirtækið fór að herja á vefi sem höfðu til þessa fyrst og fremst gefið út efni á textaformi og sannfærði þá um að byrja að framleiða myndbönd. Þegar það fór á fullt voru allir rosalega glaðir. Áhorfið á þetta efni í gegnum Facebook var ótrúlegt. Bókstaflega ekki trúlegt í ljósi þess að það var verið að ljúga um áhorfstölur. Ótrúleg svikamylla sem Facebook hefur aldrei þurft að gjalda fyrir.
Ég tók bara óljóst eftir þessu á sínum tíma. Ég sá að skemmtilegir vefir sem ég fylgdi fóru að birta fleiri myndbönd en ég nennti eiginlega aldrei að horfa og las bara greinarnar áfram. Gott dæmi um þetta er vefurinn Cracked. Að mínu viti besti „lista vefurinn“. Sumsé, vefur sem bauð upp á lista en ekki list. Topp fimm hitt og þetta. Cracked var frábært.
Ég fylgdi Cracked í gegnum Facebook. Annað hvort tenglar frá þeim sjálfum eða vinum og kunningjum. Fáar smellibeitur en mikið um frumlegt og skemmtilegt efni. Eins og ég sagði tók ég lítið eftir myndböndunum. En allt í einu byrjaði Cracked að deila efni með misvísandi titlum. Eldri greinar fengu nýja titla. Ég varð fljótt þreyttur á þessu og hætti að nenna að fylgjast með.
Ég áttaði mig ekki á að það var myndbandsbyltingin setti Cracked eiginlega á hausinn. Það hafði verið fjárfest gríðarlega í þessum markaði sem Facebook sagði að væri risastór. Tapið varð ógurlegt og klárir höfundar misstu vinnuna í tugavís.
En hér fer að koma að punktinum með þessum pistli. Ég veit að þið eruð steinhissa að komast að því að þetta sé ekki bara handahófskennt röfl frá fúlum gömlum bloggara. Auðvitað er þetta röfl fúls gamals bloggara, bara ekki alveg handahófskennt.
Höfundarnir sem misstu vinnuna hjá Cracked, og sömu sögu er að segja um marga aðra slíka, byrjuðu að skapa efni á mörgum vígstöðvum. En áberandi flestir þeirra færðu sig yfir í hlaðvörpin.
Hvað er það sem gerir hlaðvörpin góðan kost fyrir klárt og hugmyndaríkt fólk? Það er straumurinn. Hlaðvörp eru í dag eini miðillinn sem byggir fyrst og fremst á RSS straumum. Þú veist það kannski ekki. Þú notar bara app til að hlusta. En hlaðvörpum er ekki dreift miðlægt. Umrædd forrit eru kannski miðlæg í huga þínum þar sem þau safna saman þessum straumum. Þú segir forritinu hvaða straumum þú vilt fylgjast með og það birtir lista yfir þau, oft í öfugri tímaröð eins og RSS-veitur gerðu fyrir blogg.
Það er frekar sorglegt að fæstir átta sig á því að RSS straumar eru grunnur hlaðvarpsins. Ég sé endalaust marga hlaðvarpara sem skilja ekki að straumurinn er grunnpunkturinn sem miðill þeirra byggir á. Þetta fólk veit varla hvað þú ert að tala um þegar þú spyrð það um strauminn.
Við erum að sjá tilraunir stórfyrirtækja til að kæfa þennan grunnpunkt hlaðvarpsins. Þegar Spotify keypti þátt Joe Rogan var það ekki bara til að styrkja mann sem dreifir vafasömum upplýsingum um heilapillur og ormalyf. Markmiðið er að gera Spotify að miðstöð hlaðvarpa. Það á að gera kerfið miðlægt og ef það tekst hverfur straumurinn.
Hugsið um YouTube. Berið saman við hlaðvörp. Annars vegar er miðlægt apparat sem er nær sjálfgefið að nota til að dreifa myndböndum. Hins vegar er dreift kerfi sem allir geta notað til að miðla efni eða nálgast það efni sem það kýs. Hlaðvarpsforrit byrja ekki allt í einu að fela nýja þætti frá sumum og birta í staðinn þætti frá fólki sem er því þóknanlegt. Þannig að það yrði martröð ef Spotify tækist að verða YouTube hlaðvarpsins.
Þegar fólk hætti að nota RSS strauma til að fylgjast með bloggum minnkaði lestur á mitt eigið blogg auðvitað um leið. Ég fór frá því að fá reglulega þúsundir lesenda á sólarhring yfir að fá tugi eða hundruði nema í þeim undantekningartilfellum þegar færslan fór á flug á samfélagsmiðlum. Þá fæ ég þúsundir lesenda en þessir gestir verða ekki tryggir lesendur. Enginn er að nota þau góðu tól sem gerðu okkur kleift að fylgjast með bloggum og fá tilkynningar þegar þau voru uppfærð.
Þannig að hinsta andvarp bloggarans er að prufa að lesa færslurnar sínar í hlaðvarpi. Ef enginn hlustar veit ég að það er bara því að kenna að ég er ekki spennandi. Það er ekkert kerfi að hunsa mig bara af því að ég kem ekki af stað réttu hegðunarminnstri hjá notendum.
Ég mun áfram birta þessa pistla á blogginu mínu og það eru allar líkur til þess að ég muni stundum skrifa eitthvað sem ég tel ekki henta hlaðvarpsforminu. Ef þið viljið kíkja á bloggið getið þið fundið það á truflun punktur net skástrik oligneisti í einu orði án sér íslenskra stafa.
Ef þið viljið styðja mig ættuð þið að kíkja eftir spilunum mínum til dæmis í Nexus eða Heimkaup. Það er #Kommentakerfið II, Stafavíxl og Hver myndi?. Látbragð og #Kommentakerfið upprunlega eru því miður löngu uppseld.