„Ég átti sko transvin“

avatar
Óli Gneisti

Dave Chappelle er grínisti sem fór að mestu framhjá mér. Aðallega af því að ég var ekki með sjónvarpsstöðvarnar sem sýndu þáttinn hans og af því að ég forðast lélegar gamanmyndir. Ég hef reyndar séð Robin Hood Men in Tights en samt bara einu sinni. Slakasta Mel Brooks myndin að mínu mati. En ég vissi að hann hafði hætt með fyrrnefnda þætti þrátt fyrir boð um gull og græna skóga.

Eftir langt hlé poppaði Dave Chappelle upp á Netflix með uppistand árið 2019. Ég ákvað að horfa og gafst upp þegar hann eyddi of miklum tíma í að tala um transfólk. Fyrir utan ömurleg efnistök voru brandararnir bara lélegir. Ef húmor þinn byggir á fáfræði þinni og áheyrenda þinna ertu kannski ekki fyndinn.

Það er rétt að taka fram að ég hef heyrt marga góða brandara um transfólk. Aðallega eftir að ég fór að fylgjast með transfólki á Twitter. Hægt og rólega fékk ég innsýn í líf þeirra og samfélag. Í kjölfarið fylgdi að ég byrjaði að fatta brandarana sem transfólk var að segja um sjálft sig og annað transfólk. Ég er ekki bara að tala um einhverja góðlátlega brandara enda hefur fullt af transfólki mjög beittan húmor.

Ég slökkti á Chappelle og sagði Netflix að uppstandið hans væri „ekki fyrir mig“. Mér brá því þegar nýtt uppistand með honum birtist árið 2021 og Netflix setti það endalaust efst á skjáinn minn. Það pirraði mig eiginlega meira en að Chappelle væri að gera annað uppistand fyrir Netflix. Miðað við hve mikið af efni er falið fyrir okkur á Netflix og fátt sem er sett í forgrunn er þetta voðalega skrýtið. Ég hefði haldið að sjálfvirka kerfið væri þannig að ef ég segi að mér líki ekki við eitt uppistand með grínista muni það ekki sýna mér næsta uppistand hans.

Það eru tvær skýringar sem mér dettur í hug á því að Netflix ákvað að troða þessu uppistandi framan í mig. Sú fyrri er einfaldlega sú að fyrirtækið borgaði Dave Chappelle ógeðslega mikla peninga fyrir uppistandið. Sú seinni er ekki endilega óháð hinni fyrri. Netflix gæti einfaldalega hafa tekið þá ákvörðun að benda á okkur sem líkaði ekki við fyrra uppistandið á hið seinna í von um að græða á umræðunni. Það er ekki ólíklegt að ef við hefðum aðgang að tölum Netflix myndum við sjá að áhorf á upprunalega uppistandið hafi tekið kipp þegar umræða skapaðist um það á Twitter.

Það hvernig Netflix kemur fram í málefnum transfólks beinir ljósi að því hvernig fyrirtæki hegða sér almennt í slíkum málum. Það var nefnilega Netflix sem framleiddi heimildarmyndina Disclosure sem fjallar um birtingarmynd transfólks í dægurmenningu. Málið er að Netflix hefur enga hugmyndafræði. Bara Excelskjal. Ef það myndi græða peninga á að segja að transfólk séu einhvers konar englar af himnum komið myndi Netflix framleiða dýrar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir um það. Ef Netflix myndi græða meira á að segja okkur að transfólk borði smábörn myndi fyrirtækið framleiða efni með slíku þema. Á þessum tímapunkti er fyrirtækið að reyna að segja bæði í einu til að græða sem mest.

Um leið og seinna uppistand Chappelle var birt var það gagnrýnt. Vörnin var, í þessu tilfelli, að gagnrýnendurnir hefðu algjörlega rangt fyrir og að allir sem hefðu horft á uppistandið vissu að það væri ekkert transfóbískt við það.

Það sem þessir verjendur töldu að sýndi að Chappelle væri enginn transfóbi er að í þessu nýrra uppistandi segir hann sögu af “vinkonu” sinni sem var trans. Reyndar kallaði hann hana ekki alltaf konu sem sýnir ágætlega að hann var ekki frábær vinur.

Áheyrendur mínir heyra vonandi gæsalappirnar sem ég set utan um orðið vinkona hérna. Það væri slæmt ef ég þyrfti að taka upp myndbönd til að koma slíkum blæbrigðum á framfæri. Réttast er að kalla hana sínu rétt nafni, Daphne Dorman.

Saga Chappelle af Daphne var í stuttu máli sú að henni hafi þótt grín hans um transfólk rosalega fyndið. Síðan hafi hún vogað sér að verja hann á Twitter og lent í endalausum árásum transaktivista sem töldu hana svikara. Í kjölfarið hafi hún framið sjálfsmorð. Tengingin var skýr þó áheyrendur hafi þurft að finna hana sjálfir. Transfólk lagði hana í einelti og það var svo hræðilegt að hún gat ekki lifað með því. Að lokum sagði Chappelle að Daphne hafi ekki verið „trans“ heldur grínisti. Það er nógu slæmt að stimpla suma meðlimi jaðarhópa sem „einn af þeim góðum“. Það er töluvert verra að segja að manneskjan hafi í raun ekki tilheyrt þeim hópi.

Þetta töldu aðdáendur Chappelle alveg rosalega vel heppnað svar við gagnrýni á hann. Ég sá söguna í töluvert öðru ljósi.

Frá mínu sjónarhorni var þetta saga af manneskju sem dáðist að Dave Chappelle og sá grín hans í því ljósi. Minnir á þegar prestar tala um að lesa ógeðfellda kafla Biblíunnar „í ljósi Krists“. Ef við gefum okkur að Jesús hafi verið bestur þá er ekkert að marka ljótu orðin. Sama má segja um þetta vinasamband. Hún túlkaði grín hans á besta mögulega hátt. Það er erfitt að sætta sig við að hetjan þín, sérstaklega þegar hún er góð við þig persónulega, sé fordómafullt fífl.

En Chappelle greip hana og notaði sem skjöld. Það er ótrúlegt hve fáir sjá í gegnum þetta. Rasistar nota þessa afsökun endalaust. „Ég á sko svartan vin“ segja þeir. Chappelle átti sko transvin. En fæstir sem segjast eiga svartan vin eru svo skyni skroppnir að þeir bæti við að svarti vinur þeirra sé ekki í alvörunni svartur heldur frekar, sem dæmi, bara grínisti.

Það ljótasta er samt hvernig Chappelle túlkar dauða Daphne þannig að hún hafi verið svo miður sín yfir árásum annars transfólks og nefnir sérstaklega viðbrögð á Twitter. Hann vandar sig við að segja það ekki nákvæmlega en það er augljóst hvernig hann vill að það sé túlkað.

Ég fletti upp umræddri færslu Daphne Dorman. Þar voru ótrúlega mörg komment. Glæný. Frá aðdáendum Chappelle og margir þeirra voru að halda því fram að það hafi örugglega allir verið búnir að eyða andstyggilegu svörunum sem urðu til þess að grey konan framdi sjálfsmorð. Ólíkt þeim ákvað ég að rannsaka málið og fann afrit af færslunni með upprunalegum svörum. Þau voru mjög fá svör og satt best að segja virtist þessi vörn hennar ekki hafa vakið mikil viðbrögð. Fæstir tóku eftir því sem hún sagði.

Það var samt fleira ógeðfellt við málflutning Chappelle. Þegar hann talaði um sjálfsmorð „vinkonu“ sinnar nefndi hann að hún hafi átt dóttur. Chappelle tekur sig um leið til og montar sig af því að hafa stofnað styrktarsjóð fyrir stúlkuna.

Þegar ég las ummæli Chappelle varð mér hugsað til Jesú. Það er sagan af tollheimtumanninum og faríseanum. Þið þekkið þetta kannski. Faríseinn var voða montinn yfir að vera rosalega góð manneskja og Jesús sagði að það væri skítlegt viðhorf. Sama má segja um Chappelle. Hann fer ekki einu sinni fínt í þetta.

Fyrir löngu síðan vann ég fyrir Aðföng sem dreifði vörum í verslanir Baugs. Við tókum reglulega til vörur sem voru að nálgast síðasta söludag og síðan var hjálparsamtökum boðið að hirða þetta. Enginn sagði hjálparsamtökunum að þau ættu að segja frá þessum gjöfum. Jóhannes heitinn í Bónus var ekki að heimta hrós. En það var auðvitað undirliggjandi að það væru meiri líkur á gjöfum til framtíðar ef hjálparsamtökin myndu vekja athygli á góðmennsku fyrirtækisins almennt og Jóhannesar sérstaklega. Þannig að í besta falli get ég túlkað framkomu Chappelle sem heiðarlega auglýsingu um eigin „góðmennsku“.

En ég sé samt annan þráð. Þegar Chappelle ákvað að nota Daphne Dorman sem skjöld þurfti hann að tryggja að sem fæstir myndu mótmæla því sem hann sagði. Hann gat auðvitað ekki keypt sér velþóknun transsamfélagsins en hann gat friðað fjölskylduna. Hvað er auðveldara fyrir ríkan mann en að gefa brotabrot af auðæfum sínum til að reyna að bjarga orðspori sínu? Ég er kannski óhóflega að vísa mikið í Jesú en ég man líka eftir sögunni um eyri ekkjunnar.

Þrátt fyrir umræddan styrktarsjóð sá ég ekkert frá fjölskyldu Daphne um að þau teldu að dylgjur Chappelle um ástæður sjálfsmorðsins væru á rökum reistar.

Ég nefndi áðan að Chappelle ekki keypt sér velþóknun transsamfélagsins. Hann fékk hana ekki heldur. Þeir vinir sem Daphne átti innan þess samfélags. Fólk sem raunverulega þekkti hennar daglega líf gáfu lítið fyrir skýringar grínistans. Þeir vinir nefndu sérstaklega þá andlega erfiðleika sem hún var að glíma við, að hún hafi misst forræði yfir dóttur sinni og að hún hafi þurft að þola endalaust áreiti transfóba, ekki bara á netinu heldur í sínu daglega lífi.

Aðdáendur Chappelle hunsuðu þetta flestir í þeim samskiptum sem ég tók þátt í eða fylgdist með. Þeir hafa fengið alveg stórfenglega afsökun. Hetjan þeirra er góð manneskja en transsamfélagið uppfullt af ömurlegu fólk.

Þegar Dave Chappelle ákvað á sínum tíma að hætta með gamanþætti sína voru væntanlega ýmsar ástæður þar að baki. En í viðtali við nafna sinn Letterman nefndi hann sérstaklega að honum þótti óþægilegt að sjá fólk hlæja vitlaust að bröndurunum hans. Rasistar gátu nefnilega hlegið að honum, en ekki með. Þeir hlustuðu á brandarana og fengu heimsmynd sína staðfesta.

Þannig að ég held að það sé alls ekkert ósanngjarnt að velta fyrir sér hverjir hlæja að bröndurum Dave um transfólk og hvers vegna? Hvaða áhrif ætli það muni hafa á framkomu þeirra í garð transfólks til framtíðar? Er ekki einfaldlega verið að búa til her af fólki sem telur í fínasta lagi að ráðast á transfólk af því að það er ógeðslegt fólk sem tilheyrir andstyggilegu samfélagi?

Verjendur Chappelle láta eins og sagan um Daphne sé fjarvistarsönnun hans. Hann er góði gaurinn. Ég er því gjörsamlega ósammála. Ég held að sagan af Daphne sé eiginlega það versta sem ég Chappelle hefur sagt um transfólk. Það að nota dauða konu til að ráðast á samfélag hennar og bera það röngum sökum er hrikalega ógeðfellt.

Það er langt frá því að vera fjarvistarsönnun, þetta er glæpur.

Fyrir utan Chappelle og aðdáendur hans var ýmislegt undarlegt á seyði hjá Netflix. Forstjóri, eða öllu heldur „meðforstjóri“, hjá fyrirtækinu gaf út yfirlýsingu um að þau teldu að brandarar Chappelle hefðu ekki slæm áhrif á transfólk í raunveruleikanum. Ég tel það einfeldningshátt ef það er einlæg skoðun. Auðvitað mun Chappelle eitra út frá sér. Aðdáendur hans hafa fengið eigin fjarvistarsönnun. Transfólk er jafnvel verra en þeir héldu fyrir.

Transfólk og bandamenn þess innan Netflix var merkilegt nokk sammála mér að mestu. Það reyndi að ræða málin. Viðbrögðin voru undarleg. Ein transkona var sett í leyfi fyrir upplognar sakir. Það var dregið til baka þegar bent var á að þetta væri rugl en hún endaði með segja upp sjálf, skiljanlega. Önnur manneskja var sökuð um að hafa lekið upplýsingum og var rekin fyrir það. Ég á erfitt með að sjá það öðruvísi en refsingu fyrir að skipuleggja mótmæli innanhúss. Enda valdi Netflix að semja um kvartanir þeirra frekar en að láta þær verða að dómsmálið.

Þið hugsið kannski. Það er bannað að banna hluti. En ég sá engan tala um að banna eitt eða neitt. Það var reynt að taka upplýsta umræðu og Netflix fríkaði út. Aðdáendur Chappelle fríkuðu út.

Ég ákvað að segja upp áskriftinni af Netflix. Til framtíðar eða ekki. Svo fyrirtækið viti að það sé ekki bara gróði í að ráðast á transfólk. Það er eina sem fyrirtækið skilur. En við lifum á undarlegum tímum þar sem ákvörðun einstaklinga um að versla ekki við fyrirtæki sem dreifa hatri er kallað aðför að tjáningarfrelsi. En ég er ekki einu sinni að segja að Chappelle eigi að þegja. Ég er að segja að, þar sem ég tel að áróður hans gegn transfólki muni án efa leiða til haturs og líklega ofbeldis í garð þeirra, vilji ég ekki að peningar mínir séu notaðir í slíkt. Einfalt reikningsdæmi fyrir þá sem byggja siðferðisviðmið sín á Excelskjölum.

Látið ykkur líða vel og gleðileg jól til þeirra sem vilja slíkar kveðjur. Þið megið öll taka til ykkar ósk um að þið látið ykkur líða vel nema mögulega ef þið eruð að reyna að gera líf fólks sem tilheyrir jaðarhópum erfitt. Þá megið þið (muna að setja píp til að láta eins og ég hafi ritskoðað eitthvað).