Desmond Tutu (1931-2021)

avatar
Óli Gneisti

Hverju munu sagnfræðingar svara ef þeir verða spurðir: “Hver var mesti leiðtogi kristinnar kirkju frá árinu 1979 til ársins 2021” Þeir væru auðvitað hissa á að vera spurðir um akkúrat það tímabil sem afmarkar ævi mína til þessa. En ég get betur svarað fyrir mig heldur en ímyndaða sagnfræðinga framtíðarinnar.

Jóhannes Páll II hefur misst glansinn og Móðir Teresa líka. Páfinn hylmdi yfir með brotamönnum og Móðir Teresa dældi þeim fjármunum sem hún aflaði í allt annað en líknarstarf. Það er heilmikið um þau að segja. Seinna.

En hver þá? Ég segi Desmond Tutu. Enginn annar hefur staðið betur fyrir þau gildi sem kristið fólk vill vera þekkt fyrir. Hann reyndi aldrei að mála sig sem heilagan mann þó hann hafi oft verið settur í slíkt hlutverk. Hann talaði ekki í innantómum frösum helgileiks heldur einfalt mannamál. Hann var líka mjög fyndinn, sbr. þessi klippa úr þætti Craig Ferguson.

Desmond Tutu, fyrrverandi erkibiskup, er látinn, níræður að aldri.
Köllun hans var ekki að gerast prestur heldur kennari. En það átti að breyta skólakerfinu þannig að svört börn myndu eingöngu læra það sem taldist nauðsynlegt til að þjóna hvítum yfirmönnum sínum sagði hann nei. Hann vildi ekki vinna með kerfi kúgunar.

Það sýnir eðli Apartheid að þegar Tutu reyndi að vara forsætisráðherra Suður Afríku við að kúgunin myndi leiða til ofbeldis, var að svarið að einhver hlyti að hafa hjálpað honum að skrifa bréfið. Væntanlega einhver hvítur.

Nokkrum vikum seinna, 16. júní 1976, hófust mótmæli skólabarna gegn því að vera neydd til að læra Afrikaans, tungumál hinna hvítu Búa.

Við vitum ekki hve mörg börn voru myrt af suður-afrískum yfirvöldum til þess að kæfa mótmælin. Hundruð. Fórnarlömbin voru allt að 700.
Mig langar að öskra eða gráta af reiði. En höldum áfram. Þetta er ekki saga Apartheid.

Erkibiskupinn barðist vissulega fyrir réttindum eigin fólks. En ekki bara þess.
Tutu barðist fyrir réttindum hinsegin fólks áður en það varð “vinsælt” og hélt því áfram til dauðadags.

Hann lýsti því yfir að hann myndi ekki vilja eyða eilífðinni í hómófóbísku himnaríki.

Þegar fólk segir að það sé ósanngjarnt að líkja stefnu Ísraels við Apartheid var Desmond Tutu maður sem hafði séð hvoru tveggja og vissi betur. Hann studdi baráttu Palestínumanna.

Í þessu ljósi er rétt að muna að þeir sem börðust fyrir réttindum svartra í Suður Afríku voru kallaðir hryðjuverkamenn. Og eru það reyndar enn. Fyrir nokkrum árum fór ég með konunni á hótel á Ásbrú til að hvíla okkur aðeins frá foreldrahlutverkinu. Við enduðum í heita pottinum. Sem var, eftir á að hyggja, líklega fullur af blýmenguðu vatni. Þar voru hjón frá Suður Afríku. Hvít, en samhengið ætti að gera það ljóst.

Konan, eða pabbi hennar, var upprunalega frá Cork á Írlandi og þar sem ég er með þann stað á heilanum síðan ég tók eina önn af háskólanámi mínu þar ákvað ég að vera í spjallstuði.

Allt í einu, án þess að við hefðum opnað á umræðuefnið, fór hún að tala um að Mandela væri bara hryðjuverkamaður. Ég er ekki týpan til að rífast þegar ég er eingöngu klæddur sundskýlu þannig að ég vissi ekki hvað ég ætti að segja. Sama ástæða og að ég hangi helst ekki í heitu pottum sundlauganna.

En hélt konan í alvörunni að hvítt fólk frá Íslandi væri líklegt til að vera sammála þeim? Við yfirgáfum pottinn fljótlega. Blýið var kannski ósýnilegt en það var ekki eina eitraða í vatninu.

Það ókristilegasta í málflutningi Tutu, allavega í ljósi þess að bjóða hinn vangann, var að hann krafðist þess ekki að kúgaðir ættu eingöngu að nota “friðsamlegar” aðferðir í baráttu sinni. Hann hvatti ekki til “ofbeldis” en fordæmdi ekki þá sem neyddust til að beita hörku í sjálfsvörn. Sjálfur benti hann á að við gætum ekki barist við Hitler ef við viðurkenndum ekki nauðsyn valdbeitingar til að verja líf.

Það var einmitt skýrt að þó hann viðurkenndi rétt Palestínumanna til sjálfsvarnar vildi hann frekar að alþjóðasamfélagið myndi bregðast við með því að takmarka viðskipti við Ísrael.

En alþjóðasamfélagið er undir hæl stórfyrirtækja sem reyna að stimpla stuðning við mannréttindabarátta vafasama. Það að sniðganga vörur er bannað samkvæmt markaðstrúnni. En Desmond Tutu sagði okkur að það sem virkaði í Suður-Afríku hefði verið það þegar alþjóðafyrirtæki sáu að það væri ekki í þeirra hag að styðja hagkerfi Apartheid. Peningar sem koma beint frá almenningi um víða veröld er eldsneytið sem kúgun gengur fyrir.

Ég hlustaði nýlega á viðtal við Desmond Tutu frá árinu 1994 í breska þættinum Desert Island Discs. Þá höfðu nýlega farið fram lýðræðislegar kosningar í Suður-Afríku. Á þeirri sigurstundu var hann samt mjög skýr í máli og benti á að þó jafnrétti gagnvart lögum yrði líklega tryggt væri efnahagslegur aðskilnaður ennþá til staðar í Suður-Afríku. Eignirnar væru ennþá nær eingöngu í höndum hvítra.

Það minnti mig á orð James Connelly, írsku sjálfsstæðishetjunnar sem var myrtur af Bretum í kjölfar Páskauppreisnarinnar árið 1916, sem sagði:
Ef þú rekur enska herinn úr landi á morgun og flaggar græna fánananum yfir Dyflinnarkastala en byrjar ekki að skipuleggja sósíalískt lýðveldi er allt þitt streð hégómi einn.

Það var ekki bara sósíalismi, með ólíkum áherslum, sem sameinaði þessa tvo menn. Það var sú staðreynd að barátta þeirra var ekki bara barátta eigin fólks heldur barátta gegn kúgun og þeirra sameiginlegi þráður var líka baráttan gegn heimsvaldastefnunni.

Við látum stundum eins og heimsvaldastefnan sé dauð. Að mörgu leyti er það vanþekking á sögu hennar. Heimsvaldastefnan snerist alltaf um að tryggja yfirráð herranna yfir náttúruauðlindum. Hún var alltaf í þágu viðskiptahagsmuna.

Í dag eru yfirráð herranna yfir auðlindum fátækra ríkja dulbúin sem viðskiptafrelsi. En það er ekkert frelsi í samskiptum kúgarans og hins kúgaða. Gömlu herraþjóðirnar, með fulltingi annarra ríkra landa, koma í veg fyrir að lönd sem eru rík af náttúruauðlindum geti náð að standa á eigin fótum.

Baráttan fyrir mannréttindum, frelsi og jafnrétti er að mörgu leyti andóf gegn kapítalismanum. Fyrirtæki standa ekki fyrir utan þetta. Hinn frjálsi markaður þykist óháður en er það ekki. Með því að starfa með og í ríkjum sem stunda kúgun er tekin afstaða gegn mannréttindum.

Þegar hinn frjálsi markaður kom til hinna gömlu Sovétríkja réði sú einfeldningslega trú að með honum fylgdi virðing fyrir mannréttindum. Samvinna í stað stríðs. Enginn er betri táknmynd þessarar hugmyndarfræði en Thomas Friedman sem gaf árið 1999 út bókina Lexusinn og ólífutréið. Kapítalismi tryggir frið. Lönd með McDonalds útibúa fara ekki í stríð við hvert annað. Auðvitað sjáum við núna að það var aldrei satt.

Stórfyrirtæki tryggðu ekki heldur mannréttindi í Suður Afríku með veru sinni. Stórfyrirtæki hugsa bara um eitt, peninga. Það að láta eins og það hafi jákvæð áhrif fyrir heiminn er lygi. Við getum stundum notað skipulagðar herferðir til að neyða stórfyrirtæki til að vinna að markmiðum okkar. Ekki með hinum frjálsa markaði heldur þvert á móti með því móti sem þau geta séð í bókhaldi sínu. Auðvitað er þetta ekki lausn til framtíðar en við þurfum að nota þessi áhrif okkar.

Fall kommúnismans var talinn sigur kapítalismans. En fall aðskilnaðurstefnunnar var ósigur kapítalismans.

Ronald Regan beitti neitunarvaldi á refsiaðgerðir gegn Suður Afríku árið 1986. En á þeim tímapunkti voru Demókratar með, hvað heitir það? Hugsjónir? Kjark? Demókratar notuðu þingstyrk sinn til að þröngva banninu í gegn. Auðvitað var Thatcher á sama máli og Íhaldið fylgdi henni.

Þegar við tölum um viðskiptabann á Ísrael er það kallað mismunun. Sem sýnir best hvernig hinn frjálsi markaður og aðrir kúgarar hafa lært hvernig á að aðlaga tungumál mannréttinda að þeirra eigin hagsmunum. Við megum ekki segja já við því. Við þurfum að geta kallað kjaftæði kjaftæði. Tölum mannamál.

Ég ætla ekki að gera Desmond Tutu að ímynd allra minna hugsjóna. Hann var það ekki. Ég gæti gert lista yfir margt sem ég er ósammála honum um. En auðvitað munu margir reyna að gera hann að táknmynd þess sem hann var ekki.

Á sama hátt og Martin Luther King er í dag notaður til að kúga svart fólk með því að velja vandlega tilvitnanir í hann sem hunsa samhengið. Martin Luther King var kannski talsmaður friðsamlegra aðgerða en hann predikaði ekki að svart fólk ætti um leið að verða fótþurkkur valdsins og bíða eftir að stjórnmálin færðu því umbætur. Hann var líka sósíalisti. Hann vissi, líkt og Tutu, að raunverulegar breytingar nást ekki fram með því að ríkisvaldið verði hlutlaust í garð fólks. Efnahagslegur aðskilnaður hverfur ekki með almennum réttarbótum. Það þarf að styðja þann veika gegn hinum sterka. Baráttunni líkur ekki með einum stórum sigri.

Þó baráttan haldi áfram megum við auðvitað leyfa okkur smá hégóma. Þegar Desmond Tutu valdi sér lúxus til að hafa með sér á ímyndaða eyðieyju varð ísgerðarvél fyrir valinu. Mjög mannlegt val fyrir mann sem var mjög mannlegur, í besta skilningi þess orðs.

Ávísanir:
Desert Island Discs þátturinn
Craig Ferguson um þáttinn sem var sýndur 4. mars 2009

Og hér er myndband á YouTube sem gæti horfið á morgun.