Á Þrettándanum í fyrra var gerð tilraun til valdaráns í Bandaríkjunum. Reyndar hefur verið mikið rætt um hvað við ættum að kalla þessa uppákomu en ég held að valdaránstilraun sé það besta.
Þar sem ég hef lengi haft áhuga og áhyggjur af uppgangi öfgahægrisins í Bandaríkjunum, allt frá tímum Ruby Ridge, Waco og Unibomber, var ég ekki rosalega hissa. Allavega ekki á að tilraunin hafi verið gerð.
Frá því að Donald Trump komst til valda hafði verið núningur á milli fólks um hvað kjör hans þýddi í raun. Fyrir mér er skýrt að hann var kosinn vegna þess að Demókrataflokkurinn er ekki að berjast fyrir betri kjörum almennings og reynir varla að tala um þau mál. Á sama tíma var Trump sífellt að tala um hag “venjulegs fólks” (lesist venjulegt hvítt fólk) og, það sem er verra, að búa til óvini sem það gat beint reiði sinni gegn. Auðvitað er Trump sama um allt þetta “venjulega fólk”. Hann vissi bara að óánægja þeirra væri vopn sem hann gæti notað.
Það var umdeilt hvers konar skepna Trump væri pólitískt séð. Fólk kallaði hann gjarnan trúð. Sem er sanngjarnt. Nema mögulega í garð trúða, allavega sumra trúða. En það er verra þegar fólk kemst að þeirri niðurstöðu að vegna þess að hann sé trúður sé hann um leið meinlaus, allavega að mestu.
Þegar reynt var að benda á fasískar tilhneigingar Trumps var það afskrifað, oft vegna þess að hann væri trúður. Það er undarlega laust við samhengi sögunnar. Ef við förum aftur um hundrað ár eða svo finnum sjáum við að Hitler og Mussolini voru kallaðir svipuðum. Það er ekki heldur rangt.
Ímyndið ykkur að þið hafið aldrei heyrt um seinni heimstyrjöldina. Að þið vitið ekkert um allt ofbeldið og ógeðið sem fylgdi. Horfið á myndbönd af þessum gaurum. Þeir voru trúðar. Kjánalegir. Hlægilegir. Gæsagangandi brandarar. Fasistar eru trúðar. Asnalegir búningar. Hvort sem það er á þriðja eða fjórða áratugnum eða í nútímanum.
Þannig að Trump fellur vel að trúðahefð fasismans.
En hvernig skilgreinum við fasisma? Stór spurning. Það eru til skilgreiningar sem eru svo þröngar að þær útiloka Mussolini. Sem er ekki gagnlegt að mínu mati. Ef við lítum ekki á Mussolini, Hitler og jafnvel Franco sem ólíkar birtingarmyndir fasisma erum við kannski ekki að tala um fasisma.
Ég er hrifnari af því að líta til ítalska rithöfundarins og heimspekingsins Umberto Eco. Árið 1995 skrifaði hann grein um hvernig sé hægt að þekkja fasisma. Hans skilgreining byggði ekki á ákveðnum atriðum sem við þurfa að vera til staðar til að stefna geti talist til fasisma heldur lista af einkennum sem benda til þess að stefnan sé fasísk í eðli sínu.
Ég ætla ekki að fara yfir einkennalistann í heild sinni. Ef þið spyrjið mig hve mörg af einkennunum eiga við um Trump, og áttu við hann árið 2016, get ég einfaldlega sagt “slatti”.
Trump vísaði hefðina, arfleifðina, gullöldin, utanaðkomandi öfl, innri óvini, yfirburði síns fólks, breytti merkingu orða, og notaði óánægju sem lýðræðislegar hreyfingar höfðu ekki náð að virkja til raunverulegra breytinga. Rasismi hans var augljós öllum sem þekktu hvernig ákveðin hugtök eru notuð til að koma boðum til skila. Hundahvíslið svokallaða. Það má ekki heldur gleyma að Trump er mikill áhugamaður um Hitler og hefur sérstaklega kynnt sér ræður hans. Það er ekkert óvart við líkindin.
Það var full ástæða til þess að hafa áhyggjur af fasískum tilhneigingum Trump um leið og við sáum málflutning hans. Fullt af fólk sá þetta og gagnrýndi. En það voru bara “ýkjur” að mati yfirvegaðra álitsgjafa sem voru í besta falli fáfróðir eða bara í afneitun.
Á bak við Trump var vél sem öfgahægrið hafði verið að smíða í mörg ár. Fasískir hópar voru stofnaðir en síðan afsakaðir af fólki sem vissi betur eða hefði átt að vita betur. Gavin McInnes stofnaði Proud Boys og kallaði drykkjuklúbb. Gagnrýnendur bentu strax á að þetta væru ofbeldissinnuð öfgahægrisamtök. En fáir tóku eftir og enn færri tóku það alvarlega.
Það voru ekki bara Proud Boys heldur Oathkeepers, Patriot Prayer og The Three Percenters. Miklu fleiri hópar auðvitað en þessir hópar klofna og endurnefna sig síðan með slíkum hraða að það er ekki hægt að telja þá alla til.
Þetta eru fótgönguliðar umfangsmikillar fasistahreyfingar. Það sem gerir þá sérstaklega hættulega er að innan þeirra raða er gríðarlegur fjöldi lögreglu- og hermanna. Þetta hefur verið rannsakað og það eru ógnvekjandi tengsl. Sérstaklega tengslin við lögreglulið vítt og breitt um Bandaríkin.
Þegar augljósu rasísku ofbeldi og bókstaflegum morðum bandarískrar lögreglu hefur verið mótmælt, bæði í gegnum tíðina en sérstaklega síðustu ár, hefur lögreglan beitt hörku gegn mótmælendum. Á sama tíma hafa mótmæli öfgahægrisins verið varin af lögreglu. Af því að þetta er oft bókstaflega sama fólkið. Rage Against the Machine varaði okkur við þessu á sínum tíma.
Hið sama sést þegar við horfum á fasískt ofbeldisfólk mæta með rasíska fána til varnar lögreglunni. Það eru sumsé ekki bara gögn sem sýna þessi sterk tengsl heldur getum við bara horft á hegðun þeirra.
Sem leiðir okkur að andfasistum sem er meira og minna eina fólkið sem hefur reynt að stöðva ofbeldi öfgahægrisins. Þegar haldin eru gagnmótmæli gegn fasistum eru þau oft gagnrýnd. Það er sagt að slíkt skapi hættu á ofbeldi. Það er hreint og beint bull.
Þegar fasistarnir koma saman beita þeir fólk ofbeldi. Markmið þessara fasistahópa hefur alltaf verið að stjórna því hverjir þora að láta sjá sig út á götum. Þegar engir andfasistum mæta, engir sem eru tilbúnir að mæta hörðu með hörðu, eru það almennir borgarar, oftast svart fólk og aðrir jaðarhópar, sem verða fyrir ofbeldinu. Löggan nennir varla að mæta.
Þegar andfasistar hafa mætt verða vissulega stundum átök en um leið endar það almennt á því að fasistarnir þurfa að flýja (oft undir verndarvæng lögreglu). Það þarf að stökkva fasistum á flótta. Það þarf að sýna fasistum að þeir eru ekki velkomnir. Stundum þarf bókstaflega að slást við þá.
Það er hægt að sjá áhugaverða fyrirsögn í Alþýðublaðinu frá árinu 1923. Þar er verið að fjalla um eftirköst Bjórkjallarauppreisnar Hitlers.
Hitler handtekinn. Blöð jafnaðarmanna bönnuð.
Sumsé, viðbrögðin við bókstaflegri tilraun Hitlers til að ræna völdum voru að vissulega að handtaka hann en um leið voru blöð sósíalista bönnuð. Það sama hefur gerst víða um heim síðan þá. Ef yfirvöld yfirhöfuð bregðast við öfgahægrinu er tækifærið notað til að refsa vinstrisinnum um leið.
Meginstraumur, sérstaklega bandarískra, fjölmiðla hefur notað sömu aðferðarfræði. Þó auðvitað af öðrum ástæðum. Það er ekki hægt að ásaka þig um að taka afstöðu ef þú fordæmir fólk báðum megin.
Fátt af því sem fylgdi Trump kom mér sérstaklega á óvart. Nema kannski, í fyrra lagi, Q-liðið. Það er skrýtnara en allt sem ég hefði getað ímyndað mér. Samsæriskenning um að í raun sé Trump að tefla í níu víddum sem enginn skilur nema þeir sem kunna að lesa táknmálið. Allt sem er sagt eða gert hefur merkingu og tilgang.
Í seinna lagi, og ekki beint ótengt því fyrra, hefði ég ekki getað ímyndað mér allar samsæriskenningarnar um Covid. Auðvitað gat ég ekki vitað um Covid fyrirfram en jafnvel þegar það kom fyrst fram á sjónarsviðið hefði ég ekki getað spáð fyrir um hvernig Trump myndi ýta undir og nýta samsæriskenningar.
Ef Trump væri klár maður, allavega með tilliti til langtíma áhrifa, hefði hann getað gert Covid að sigri sínum. En hann hefur, allavega ekki alltaf, stjórn á tungu sinni. Sumt sem hann sagði, og gerði, virðist algjörlega handahófskennt en stundum örlar á hugmyndafræði undir niðri.
- Fyrst efaðist Trump um Covid.
- Síðan sagðist Trump hafa fyrstur til þess að átta sig á hve alvarlegt Covid væri.
- Næst efaðist Trump um alvarleika Covid.
- Í kjölfarið varð Trump helsti merkisberi samsæriskenningasinna.
- Þá fékk Trump Covid og sagði að það hefði verið allt í góðu.
- Um leið og bóluefnið var tilbúið fékk Trump skammt.
- Þegar bóluefnið varð öllum aðgengilegt neitaði Trump að taka skýra afstöðu og ýtti ítrekað undir efasemdaraddir.
- Nú síðast var Trump að segja að fólk ætti auðvitað að bólusetja sig.
Það er rétt að rifja upp að eitt einkenni fasisma að sögn Umberto Eco er “óskynsemishyggja” sem felur meðal annars í sér andúð á sérfræðingum. Í því ljósi er ekki óvænt að Trump hafi beint spjótum sínum að læknum og vísindamönnum.
Ef við viljum skilja aðra ástæðu þess að Trump hoppaði fram og til baka er gott að muna eftir trú hans á kapítalisma. Þegar kapítalisminn tapaði á lokunum vegna Covid fór Trump að tala gegn lokunum. Trump er ekkert sérstakur að þessu leyti. Íslenskt markaðstrúarfólk hefur leikið sama leik. Í báðum tilfellum er það auðvitað kaldhæðnislegt í ljósi þess að þó hægt sé að segja að fyrirtæki tapi á lokunum er tapið auðvitað meira þegar faraldurinn fær að geysa óheftur. Kapítalismi byggir auðvitað líka á andrökhyggju og mun aldrei geta leyst langtímavandamál.
En það er erfiðara að skilja þögn Trump og efasemdir um bólusetningar út frá kapítalískri sýn. Kapítalisminn þarf á bóluefninu að halda. Þó það sé erfiðara að setja langtímahagnað af hörðum aðgerðum gegn faraldrinum í Excel-skjal er hagurinn ef bólusetningum augljós ef réttar tölur eru settar í rétta dálka.
Trump missti algjörlega af tækifærinu af því að eigna sér bóluefnin. Skaðinn varð ótrúlegur. Ef Ísland hefði þurft að þola sömu dánartíðni og Bandaríkin vegna Covid værum við að ræða um þúsund manns en ekki tugi.
Hvorki kapítalismi né eiginhagsmunasemi geta útskýrt þessi mistök Trump. Það skiptir auðvitað máli að hann hafði talað um Covid sem skaðlítinn sjúkdóm og því ekki sjálfgefið að tala fyrir bólusetningum í kjölfarið. En Trump hefði getað snúið sig út úr því. Aðdáendur elska hann ekki vegna þess að hann er sjálfum sér samkvæmur. Ef við lítum til Umberto Eco er auðveldara að skilja hver taktík hans var í þessum málum. Það að segja vísindafólk vera elítu sem er að níðast á fólki sem er ósátt við stöðu sína er öflug leið til að virkja reiði þessa fólks í eigin þágu.
Nýlegar yfirlýsingar Trump um bóluefnið sýna að hann sér eftir afstöðu sinni. Hann hefði viljað að sagnfræðingar framtíðarinnar myndu kalla þetta Trump-bóluefnin. Auðvitað tapaði stuðningsfólk hans, og aðrir viðkvæmir hópar á þessu hættuspili hans.
Þegar leið að kosningum 2020 hefði öllum átt að vera ljóst að Trump þætti ekkert sjálfsagt að lúta lýðræðislegum niðurstöðum kosninga. Hann hafði strax árið 2016 efast um talningar þó hann hafi unnið meirihluta kjörmanna. Hann varð nefnilega undir í heildarfjölda greiddra atkvæða. Það var líka ljóst að efasemdir hans um talningar voru helst á þeim svæðum þar sem svartir kjósendur bjuggu.
Trump vann stöðugt að því að sannfæra kjósendur sína um að svindl. Þetta var ekkert óljóst. Hann sagði þetta allt fyrir opnum tjöldum. Þegar fjölmiðlar fjölluðu um staðhæfingar Trump um kosningarsvindl varð það almennt bara til þess að auglýsa skoðanir hans.
Það er ekki heldur hulið hvaða aðferðum Trump ætlaði að beita. Þeim sömu og George W. Bush notaði árið 2000. Enda var Trump með sömu ráðgjafana. Árið 2000 var það samt tiltölulega einfalt því það var bara Flórída. Það var hægt að manna aðgerðina með innanhúsfólki flokksins. “Brooks Brothers uppþotið” varð til þess að talningu var hætt þó ljóst væri að mörgum spurningum væri ósvarað.
Þegar reynt var að fá Trump til að svara fyrir stuðning öfgahópa við sig þóttist hann ekki skilja. Þegar hann spurður beint um Proud Boys sagði hann þeim að vera tilbúnir. Orðrétt [klipp standby….], stand back and stand by. Verið til hlés, verið tilbúnir.
Proud Boys vissi alveg hvað hann átti við og undirbjuggu sig undir átök. Ef fólk áttaði sig ekki á þessu var það ekki að hlusta. Það lá ljóst fyrir að átök lægju í loftinu.
Trump vissi að hann þyrfti að berjast um niðurstöður kosninganna á mörgum vígstöðvum. Þannig að hann þurfti ekki bara á lögfræðingum og almennu stuðningsfólki að halda heldur einnig öfgahópum sem gátu beitt harðari meðölum.
Við vitum hvaða tilraunir Trump gerði til þess að reyna að breyta niðurstöðum kosninganna. Það virtist ekki vera að ganga upp. En við sjáum núna að það var bara forleikur. Honum hafði tekist að búa til réttlætingu fyrir harðari aðgerðum.
Fasistahóparnir voru tilbúnir að halda áfram. Síðan kom boðið. Blaðamenn sem sérhæfa sig í öfgahreyfingum, hópar sem fylgjast með fasistum, andfasistar og jafnvel einhverjir innan löggæslunnar sögðu öllum sem vildu hlusta að það væri eitthvað stórt á leiðinni 6. janúar. Síðasta atlagan að kosninganiðurstöðunni.
Það að Trumpistar skuli hafa ráðist að þinghúsi Bandaríkjanna þann 6. janúar 2021 kom mér ekki á óvart. Það sem kom á óvart var að hve langt þeir komust.
Þegar Trump-skríllinn réðst inn í þinghúsið hefði allt átt að vera tilbúið. Hvers vegna var allt í rugli? Að einhverju leyti er þetta bara stórkostleg vanhæfni. Algjört vanmat á hve hættulegir þessir hópar eru, þrátt fyrir gríðarlegt ofbeldi þeirra síðustu ára. En það ofbeldi var aðallega gegn vinstrimönnum og minnihlutahópum. Ekki gegn lögreglu. Lögreglan treysti þessum fasistum. Margir lögreglumenn tilheyra þessum fasísku hópum. Þetta var gott fólk að mati lögreglunnar.
Það er fátt eins táknrænt fyrir þennan dag, og allt það sem undan hafði gengið, að fasistarnir mættu með fána á stöngum til stuðnings lögreglu og notuðu síðan stangirnar til að lemja lögreglumenn. Fasistarnir höfðu aldrei þurft að mæta lögregluliði sem leyfði þeim ekki að komast upp með yfirgang og ofbeldi. Allt í einu var löggan farinn að lemja þá.
Það verða líklega margir til þess að útlista hvað gerðist 6. janúar 2021. Ég get mælt með umfjöllunum On the Media og Robert Evans í þáttunum The Assault on America. En við þurfum að skilja að þetta kom ekki úr lausu lofti. Þetta var undirbúið af ýmsu valdafólki og Trump sjálfum.
Auðvitað sagði Trump aldrei neitt hreint út. Hann er of mikill heigull til að þora því. Hann lét duga að orða hlutina óljóst. Það var líka fyrirsjáanlegt að hann myndi stinga stuðningsfólk sitt í bakið. Hann studdi þau ekki eftir á. Þau héldu að hann myndi gefa út náðanir ef illa færi. Þau héldu að hann myndi verja fólkið sitt. En auðvitað er Trump nákvæmlega sama um allt nema sjálfan sig. Þessi tilraun hans gekk ekki upp og þeir sem unnu skítverkin fengu að dvelja áfram í skítnum. Hann fór síðan bara í fýlu og að spila golf.
Lexían sem við þurfum að læra af valdatíð Trump er sú að það eru ennþá til fasistar. Fasistar eru enn að reyna að ná völdum. Við þurfum að vera vökul. Við þurfum að berjast gegn þeim.
Svo ég leyfi mér að vitna í Roger Taylor:
Your future is not safe at all til this disease is dead
Ítarefni:
The Assault on America frá Robert Evans
The Road to Insurrection frá On The Media
Fasisminn afhjúpaður – baráttan fyrir frelsinu er þrotlaus þýðing Geirs Svanssonar á grein Umberto Eco