Hvers vegna Mastodon?

Í stuttu máli: Notaðu Mastodon. Það virðist vera flókið en það er bara öðruvísi. Flest lærist með því að nota kerfið í smá tíma. Það er góður kostur fyrir Íslendinga að skrá sig á loðfíll.is.

Nú þegar Twitter er farið að molna vegna stjórnarhátta og stefnu Elon Musk eru margir að huga að flutningum. Hvert? Algengasta svarið er Mastodon. Hvers vegna?

Segjum að þú sért á Twitter og þig langi að fylgjast með einhverjum á Facebook. Þú getur það ekki. Þú þarft að skrá þig sérstaklega á Facebook til að fylgjast með fólki á Facebook. Þú ættir að spyrja þig hvers vegna það er.

Facebook, Twitter og aðrir stórir samfélagsmiðlar hafa ákveðið að reisa girðingu í kringum efnið sem notendur þeirra skapa. Þessi stórfyrirtæki vilja loka notendur sína inni til þess að græða á þeim, aðallega með auglýsingasölu.

Er þessi girðing nauðsynleg? Nei, alls ekki. Það var ekki einu sinni alltaf svona slæmt. Á tímabili var tiltölulega auðvelt að deila efni milli Facebook og Twitter. Það hentaði ekki hagsmunum þeirra þannig að múrarnir voru hækkaðir.

Við erum orðin vön því að efni á samfélagsmiðlum sé dreift í formi mynda, skjáskotum af upprunalegu færslunni deilt án þess að tengt sé á milli. Þetta verður til þess að samhengi glatast. Bröndurum er deilt og gefið til kynna að hér sé fullkomin alvara á ferð. Þú getur kannski grafið upp hvaðan efnið er komið en það eru ekki einfaldir smellir.

Nú þegar Twitter virðist vera að hruni komið sjáum við versta galla núverandi samfélagsmiðla. Það er engin einföld leið að flytjast frá einum miðli til annars án þess að glata öllum tengingum sem voru til staðar.

Þetta er samhengið sem við þurfum til að skilja hver sé besti kosturinn. Mastodon er byggt á stöðlum sem rífa niður þessar girðingar.

Ef þú lest leiðbeiningar á ensku gæti það hljómað flókið að skrá sig á Mastodon. Það er mikið talað um hvaða vefþjónn þú ættir að velja. Lukkulega hafa Íslendingar mjög skýran valkost sem er loðfíll.is.

Það mikilvægasta við vefþjóninn er að hann er heimilisfangið þitt. Ég er t.d. @oligneisti@kommentakerfid.is (minn eigin vefþjónn en ekki enn opið fyrir skráningar) en þið getið líka kíkt á @matti@loðfíll.is.

Mikilvægt er að muna að þú getur skipt um vefþjón. Ef þér líkar ekki við þann sem þú ert á færir þú þig bara eitthvað annað. Þú tapar engu á því að flytja, fylgjendalistar koma með þér á nýja staðinn.

Í raun þurfa notendur lítið að hugsa um vefþjóna. Þó þið séuð skráð á ákveðinn vefþjónn getið þið fylgt fólk af öðrum vefþjónum. Efni frá fólkinu sem þið fylgið birtist á ykkar tímalínu.

Einn munur á Mastodon og Twitter er að við erum ekki mötuð. Notendur knýja allt áfram. Á þinni persónulegu tímalínu birtist það sem fólkið sem þú fylgir birtir eða endurbirtir (álíka og retweet á Twitter).

Það að endurbirta færslur sem þér líkar við er mikilvægt. Það hjálpar fleirum að finna efnið. Það er líka valkostur kallast „eftirlæti“ sem hefur engin áhrif á hvort fleiri sjái efnið.

Annar munur er að við höfum þrjár tímalínur á Mastodon. Ég nefnt þá persónulegu en við höfum líka „staðværa“ tímalínu sem sýnir hvað aðrir á sama vefþjónn eru að birta.

Þriðja tímalínan er sú stóra sameiginlega. Hún byggir á öllu því efni sem vefþjónninn þinn safnar saman, bæði í gegnum notendur en líka með endurvarpskerfum (sem þú þarf ekki að skilja eða pæla í).

Stjórnendur þurfa að passa upp á vefþjóninn sinn. Ef notendur eru til vandræða á öðrum svæðum Mastodon ber stjórnandinn ábyrgð á því að stoppa það.

Ef stjórnendur bregðast ekki við kvörtunum eru allar líkur á að vefþjónninn verði bannaður. Stjórnendur dreifa listum yfir þá vefþjóna sem hafa verið bannaðir til að hjálpa hver öðrum.

Er þetta aðför að málfrelsi? Nei, allir hafa rétt á að nota samfélagsmiðla án þess að verða fyrir hatursáróðri, ofbeldishótunum eða öðrum óþverra.

Það eru einhverjir sem segja að Mastodon sé ekki notendavænt kerfi. Ég er ekki sammála því. Kerfið er aðallega öðruvísi. Fólk þarf bara að nota þetta nokkrum sinnum til að læra.

Við höfum einblínt á Mastodon í þessari umræðu af því þetta er samfélagsmiðill sem er keimlíkur Twitter. Það eru til fleiri miðlar sem byggja á sömu stöðlum, þar á meðal Pixelfed, Friendica og PeerTube.

Ef þú ákveður að fylgja einhverjum á Pixelfed mun efni þeirra birtast á tímalínu þinni á Mastodon. Þú þarft ekki að skipta á milli. Auðvitað hafa Facebook og Snapchat ekki þennan möguleika en við getum sýnt hvað við viljum með því að velja Mastodon.

Kaup Elon Musk á Twitter sýndi okkur veikleika núverandi kerfis. Þú finnur þér svæði sem þér líkar við og allt í einu ertu fangi milljarðamærings sem vill ganga í augun á þrettán ára strákum.

Mastodon byggir á opnum og frjálsum hugbúnaði og á opnum stöðlum. Enginn getur keypt Mastodon. Hvaða kerfi sem er má tengjast Mastodon. Þú getur valið um hvaða forrit nú velur til að tengjast Mastodon.

Verður Mastodon næsti stóri samfélagsmiðillinn? Eftir aldarfjórðung á netinu veit ég það eitt að ég veit ekki neitt … um hvað verður vinsælt.

Mín skoðun er sú að Mastodon sé besta mögulega kerfi sem við getum notað eins og er. Það er ekki fullkomið en það losar okkur við margar óþarfar girðingar. Ef betra kerfi birtist hjálpar Mastodon okkur að flytja.

Ef þú ákveður að flytja frá Twitter á Mastodon er hægt að mæla með tóli sem heitir Debirdify. Notendur (þú vonandi líka) sem Mastodon-heimilisfangið sitt í notendaupplýsingar Twitter og þannig er hægt að finna hverjir af þeim sem þú fylgir eru komnir á Mastodon.