Smashing Pumpkins í Laugardalshöllinni 2025

Ef ég myndi einhvern tímann hitta Billy Corgan ætti ég erfitt með að bæta ekki við „smiling politely“ á eftir nafninu mínu.

Ég byrjaði að hlusta á The Smashing Pumpkins eftir harða hríð frá Sigga og Billa. Á sama tíma vorum við Eygló að byrja saman og eftir því sem við best munum var það undir áhrifum frá mér sem hún keypti sér Mellon Collie and the Infinite Sadness í Danmerkurferð. Það er platan sem er í mestu uppáhaldi hjá mér. Frá upphafi til enda, dögun til rökkurs, störnuljós til ljósaskipta.

Þegar kom að Zeitgeist (2007) var ég orðinn efins um stefnu tónlistarinnar.

Þegar fréttist af væntanlegri komu Smashing Pumpkins¹ kom ekki annað til greina að kaupa miða, ekki bara fyrir okkur Eygló heldur Gunnstein líka. Hann var ekki orðinn sérstakur aðdáandi fyrirfram en hann hlustaði greinilega vandlega á spilarlistann sem ég bjó til fyrir okkur þrjú. Þar voru líka nokkur ný lög sem hafa verið reglulega spiluð á tónleikum undanfarið. Hann gat því sungið með þeim lögum sem áheyrendur almennt könnuðust minnst við.

Hvað get ég sagt um tónleikana sjálfa? Þar sem ég hafði svindlað og kíkt á lagalista síðustu vikna kom mér lítið á óvart. Ég setti ekki tökulögin á spilarlista fjölskyldunnar en þegar við lögðum af stað á tónleikana setti ég lagið Take My Breath Away með Berlin óvart á stað þannig að ég gat sett upp skítaglott þegar það byrjaði að hljóma í flutningi Pumpkins².

Verandi fæddur það ár er ég alltaf veikur fyrir 1979³, Ava Adore, Disarm, Tonight Tonight o.s. frv. virðist ég aðallega vera rokkaðdáandi því það voru Bodies, Zero⁴ og Bullet With Butterfly Wings⁵ sem náðu mér algjörlega.

Það var skondið að heyra Billy og James Iha skiptast á fimmaurabröndurum. Gaman að vita að þeir heimsóttu Sky Lagoon en þeir hafa fengið einhverja sérþjónustu, sem fylgir væntanlega „sér“ hluta búningsklefanna.

Mikið var ég annars glaður að hljómsveitin byrjaði bara að spila klukkan 21:00 eins og auglýst var. Algjörlega til fyrirmyndar. Síðan var ég sáttur við að sleppa uppklappsleiknum. Ég er alveg sáttur við hljómsveitir sem vilja taka fimm til tíu mínútna pásur fyrir lokaátökin en ég nenni ekki að klappa á meðan.

Þannig að ég er kátur en þreyttur.

¹ Ég er einhvern veginn mjög gjarn á að sleppa „The“.

² Alltof erfitt að skrifa líka Smashing en þó fljótlegra en að setja inn fótunótu.

³ Þó það byggi á lygi. Lagið fjallar víst um árið 1984 en mögulega væru allir nöttarar að reyna finna Orwellískar samsæriskenningar í textanum þannig að ’79 er betra.

⁴ Ég er klisja en ég lét vera að kaupa (Scott Pilgrim) bol.

⁵ Gunnsteinn kallar það rottulagið. Ég taldi það sérstakt afrek hjá mér að fá það spilað á Bylgjunni sem eitt af þremur lögum sem ég vann í spurningaleik í King Kong sumarið 1999.

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *