Ég rakst á grein á vefriti meðalmennskunnar þar sem vísað var í Discworld, þar var talað um slökkviliðið í Ankh Morpork, semsagt The Firefighters Guild.
Í raun er Lýðheilsustofnun svona dæmigert brunaliðsbatterí, sem þarf sífellt að réttlæta tilvist sína með nýjum og nýjum „faröldrum“. Nú þegar reykingafólki fækkar stöðugt þarf stofnunin að finna ný verkefni til að detta ekki af spenanum. Skemmtilega samlíkingu má finna í bókunum eftir Terry Pratchett. Margar af bókum hans um Diskheiminn gerast í hinni ímynduðu borg Ankh-Morpork. Borgin hélt eitt sinn úti brunaliði sem fékk greitt fyrir hvern eldsvoða sem það vann bug á. Slökkviliðið var svo leyst upp eftir að framtakssemin varð skynseminni yfirsterkari og slökkviliðsmennirnir fóru um borgina síkveikjandi í húsum samborgara sinna. Þarna var opinbert batterí sem fékk greitt fyrir að gera hluti sem það átti, tæknilega séð, ekki að vilja að gerðust.
Ógnvænleg ofþyngdarþróun þjóðar Þetta er ákaflega gölluð líking hjá greinarhöfundi, í raun er ekkert líkt með slökkviliði Ankh Morpork og Lýðheilsustofnun. Það er kannski við hæfi að skoða sögu slökkviliðs Ankh Morpork aðeins betur. Í bókinni Guards! Guards! og Discworld Companion kemur fram að slökkviliðið hafi selt vernd, þar að segja að ef þú borgaðir slökkviliðinu þá myndu þeir komu og slökkva í húsinu ef það kviknaði í. Vandræðin urðu þegar slökkviliðsmenn byrjuðu að fara í hús, minntust á hve eldfimt húsið virtist vera og að það væri nú slæmt ef eitthvað skyldi koma fyrir það. Semsagt vernd að hætti Mafíunnar. Greinarhöfundur er hins vegar að vitna í stutta klausu sem er í bókinni Jingo þar sem sagt er að slökkviliðið hafi fengið borgað fyrir hvern eld sem það slökkti og hafi í kjölfarið tekið upp á að kveikja í. Það er raunar ekki óalgengt að svona ósamræmi sé hjá Pratchett.
Þetta er það sem greinarhöfundur kallar „opinbert batterí“ en það er afar villandi enda voru það ekki borgaryfirvöld sem ráku þetta og hafa væntanlega ekkert borgað fyrir slökkvistarfið, samkvæmt þeirri útgáfu sögunnar sem er vitnað í á Deiglunni þá eru það væntanlega þeir sem eiga húsin sem kviknar í sem borga slökkviliðinu.
Þegar slökkviliðið hefur verið lagt niður þá er ekkert slökkvilið í nokkur ár þar til að lögreglumaður (maður er teygjanlegt hugtak í þessu tilfelli) skipuleggur slökkvistarf með félögum sínum sem eru jafn eldvarðir og hann, seinna slökkvilið Ankh Morpork er semsagt mun frekar opinbert batterí þar sem það er afsprengi lögreglunnar. Seinna slökkviliðið er einnig rekið án hagnaðarvonar, enginn hagnast af slökkvistarfinu.
Spillta slökkviliðið var skipulagt á forsendum kapítalismans en hið seinna, sem virkaði, var svona forræðishyggjubatterí.