Leiðindafyrirtæki

Það er til leiðindafyrirtæki sem heitir Queen Productions, það versta við það er að það ræður yfir öllu efni Queen. Nú hefur það komið fyrir tvisvar í þessari viku að fyrirtækið pirrar mig.

Fyrst gerðist það að það kom einhver leiðindanáungi inn á spjallborð Queenzone (sem er stærsta samfélag Queenaðdáenda á netinu) og byrjaði að rífast í fólki, svívirða það að ástæðulausu. Þetta fífl hélt því fram að hann væri Greg Brooks sem sér um „skjala“geymslu Queen, öllu efni sem Queen á. Ekki trúði ég að einhver sem væri í svona mikilvægu starfi fyrir hljómsveitina færi að láta svona en þegar á leið þá kom í ljós að þetta var í raun hann. Hann hafði svosem verið með kjánalæti áður, hann á að svara spurningum frá Queenaðdáendum en neitar alltaf að svara öllu öðru en því sem hægt er að fletta upp á ótal stöðum, ekkert sem raunverulega skiptir máli, hann er líka alltaf að reyna að vera fyndinn í svörum sínum en mistekst það.

Í gær var loksins upplýst um verkefni sem mikil umræða hafði verið um, það er að það ætti að gera tónleikaupptökur aðgengilegar á netinu, það olli töluverðum vonbrigðum þegar kom í ljós að þetta voru einfaldlega lélegar bootleg upptökur sem átti þar að auki að rukka tíu pund fyrir. Maður borgar ekki tíu pund fyrir rusl, mér finnst í raun tíu pund vera yfirhöfuð hátt verð fyrir að kaupa tónlist af netinu, kostnaðurinn fyrir QP er sáralítill og aðdáendurnir fá ekki neitt í hendurnar. Skrárnar eru síðan á Windows Media sniði sem ég reyni alltaf að forðast.

Það sem er kannski verst við þetta er að það eru til góðar útgáfur af þessum tónleikum, það ætti ekki að þurfa að nota einhverjar krappí áhorfendaupptökur. Queen tók upp hverja einustu tónleika sína (alveg lengst aftur) í því skyni að geta hlustað á tónleikana eftir á ef eitthvað væri ekki að ganga upp, fullkomnunarárátta, þessar upptökur eru til og það væri ekki mikið mál að skella þeim á netið í staðinn.

Þetta fer í taugarnar á mér, það er til fullt af góðu efni en ekkert af því er útgefið. Reyndar er það ekki satt, núna er verið að gefa út tónleika sem hafa aldrei verið seldir áður (nema hugsanlega í takmörkuðu upplagi), bæði á dvd og geisladisk, ég kaupi það.