Ég náði í nóvember að skemma hljóðtengið á fartölvunni minni þegar ég var að fara að taka upp þátt af podcastinu mínu. Heyrnartólin mín voru í sambandi og ég rykkti í eitthvað vitlaust þannig að ég náði að bæði að skemma inntakið í tölvunni og brjóta tengið á fínu heyrnartólunum mínum.
Ég opnaði strax tölvuna og fann út hvaða stykki ég þyrfti að panta. Þar sem ég var á fullu í spilasölu og lokafrágangi eftir framkvæmdi ákvað ég reyndar að fresta því fram yfir jól og síðan hummaði ég það fram af mér. Núna kom það loksins í hús og ég setti það strax. Ekkert mál, bara að losa skrúfurnar allar, einn borða og síðan festa borðann á nýja tengið og festa allar skrúfurnar aftur. Mesta vandamálið var að ég missti eina skrúfuna á gólfið og fann hana ekki fyrr en eftir mikla leit. Ég held að hver sem er hefði getað framkvæmt þessa viðgerð.
En málið er auðvitað að ég hef réttinn til að gera við tölvuna mína og framleiðandi tölvunnar er ekkert að gera það erfiðara fyrir mig. Ég bara pantaði stykkið af AliExpress. Ef ég væri með Apple tölvu þá væri þetta auðvitað vesen. Apple gæti í fyrsta lagi bara ákveðið að banna mér að gera sjálfur við hlutina og það væri örugglega dýrt að láta gera við eitthvað sem fellur undir ábyrgðina. Þá gæti Apple bara ákveðið að selja engum varahluti nema á okurprís og banna öðrum að framleiða parta fyrir sín tæki.
Ég ákvað að panta mína tölvu frá System76. Ég fann ekkert fyrirtæki á Íslandi sem seldi stýrikerfalausar tölvur (eða með Linux) og ég vildi ekki borga fyrir Windows af því að ég er hættur að nota Windows. Ég gat líka sérhannað tölvuna fyrir mínar þarfir, sumsé fyrir þarfir rekstursins míns. Það var ekkert mál að fá tölvuna senda til Íslands og verðið mjög sanngjarnt. Þetta virðist bara vera yndislegt fólk.
Það er rétt að taka fram að System76 framleiðir ekki allar tölvurnar sem þeir selja en þeir fínpússa þær fyrir Linux. Það varð umtalað þegar þeir fundu leið til að taka Intel Management Engine, sem er eiginlega laumustýrikerfi í örgjörvanum, úr sambandi fyrir kaupendur sína. Þetta var áður en öryggisgallar kerfisins (gúgglið Meltdown og Spector) komu fram í dagsljósið. System76 gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að njósnað sé um tölvurnar sem þeir selja.
Ég er eiginlega viss um að ég kaupi næstu tölvu af þeim. Ef reksturinn minn hefur efni á því ætla ég að fá mér litla tölvu sem þolir mikla vinnslu, Meerkat. Það er í raun Intel NUC í grunninn en System76 er með mjög samkeppnishæft verð á þeim og allt fínpússað fyrir Linux. Þeir hafa sitt eigið stýrikerfi, Pop!OS, en ég féll ekki alveg fyrir því og nota enn Linux Mint.
Til minnar vitneskju, þá er Intel Management Engine ekki tengt Spectre né Meltdown böggunum. Bæði eru árásir á grunnarkitektúr örgjörvans og tengjast ekki IME. Enda er Intel ekki eini örgjörvaframleiðandinn sem lendir í þessum öryggisböggum.
Já, rétt hjá þér. Það eru aðrir öryggisgallar sem tengjast IME.