Í fyrra þegar Ísrael vann og keppandinn sagði “að ári í Jerúsalem” þá fékk ég sting. Ég var sáttari við Tel Aviv en leið samt ekki vel.
Ég er hlynntur viðskiptalegri sniðgöngu, sér í lagi þegar um er að ræða fyrirtæki sem eru með starfsemi á hernumdu svæðunum. Ég á örlítið erfiðara með menningarlega sniðgöngu. Ég held að menningarlegt samskipti geti í einhverjum tilfellum gert gott.
Hins vegar kaupi ég ekki þá möntru að Júróvisjón sé pólitískt hlutlaust. Hatari afhjúpaði það algjörlega. Það er auðvitað pólitísk afstaða að banna keppendum að tjá sig um Palestínu og að sýna fána Palestínu. Keppnin er auðvitað rammpólitísk kynningarherferð fyrir Ísrael. Hið ímyndaða pólitíska hlutleysi keppninnar var miðað við ákveðið norm, við ákveðna flokkslínu.
Það er samt ekkert nýtt að Júróvisjón sé pólitískt fyrirbæri. Keppnin hefur áður verið haldin í löndum þar sem mannréttindabrot líðast. Keppendur hafa líka oft verið pólitískir, hið augljósa dæmi er þegar Úkraína vann fyrir örfáum árum með lagi sem fjallaði um Krímskaga. Það mátti einhvern veginn.
Auðvitað var lag Hatara rammpólitískt. Textinn var bomban. Það að veifa fánalitum Palestínu var ekki jafn pólitískt en undirstrikaði boðskapinn fyrir þá sem ekki vita um hvað lagið fjallar. Ríkisútvarpið hafði ekki getu til þess að sniðganga keppnina. Það að senda Hatara var það besta í stöðunni. Ég var samt smá að vona að þeir myndu verða reknir úr keppni en gjörningur þeirra var mun öflugri en sniðganga Íslands eða þeirra sjálfra hefði verið.
Ætli þetta hafi ekki í raun helst snúist um að bannhelgi þess að móðga gestgjafann? Íslendingar þekkja vel þá speki. En við vitum líka að það er vinur sem segir til vamms.
Það er varla hægt að hafa rétta afstöðu til menningarlegrar sniðgöngu á Ísrael þegar það er engin samstaða um málið meðal íbúa Palestínu eða Ísrael. Það er hægt að finna allar mögulegar skoðanir á málinu meðal Palestínumanna og Ísraela, þvert á afstöðu þeirra til átaka Palestínu og Ísraels. Við höfum séð það á viðbrögðum Palestínumanna sem eru ekki á einhvern einn veg. Það sama gildir um Ísraela sem margir hverjir leyfa sér mun harkalegri gagnrýni á stefnu ríkisstjórnar sinnar heldur en við hérna á Íslandi mundum gera.
Að lokum legg ég til að Palestína fái að taka þátt í Júróvisjón – verði sérstaklega boðið að vera með í klúbbnum. Það væri eitthvað meira í líkingu við pólitískt hlutleysi að hafa Palestínu og Ísrael saman í keppni frekar en að reyna að skapa einhvern hliðarveruleika þar sem tilvist Palestínu er ritskoðuð.