Ég er enn í teiknimyndasöguham og er áfram að lesa allt í rafbókalesaranum mínum á svarthvítum skjá þó sögurnar séu flestar í lit.
Giant Days er gjörólíkt flestu sem ég hef lesið, hvort sem það eru teiknimyndasögur eða hefðbundnar bækur. Aðalsöguhetjurnar okkar eru þrjár breskar háskólastúdínur (Esther, Susan og Daisy) í Sheffield sem við fylgjum í gegnum námið. Sagan kláraðist í fyrra sem hentar mér vel af því að ég á erfitt með að njóta efnis í smærri skömmtum.
Ég veit ekki beinlínis hvað heillaði mig við sögurnar. Sumt tengi ég reyndar beint við. Susan hellir sér í stúdentapólitíkina og er í raun í uppreisn gegn stöðnuðu kerfi. Það passaði frekar vel við mig. Sumt minnti mig líka á dvölina í Írlandi. Þar endaði ég með ókunnugu fólki í íbúð. Ég náði þó ekki að tengja við sambýlinga mína en eignaðist samt fullt af vinum.
Fæst hafði þó slíka skírskotun í mitt líf. En það heillaði mig samt. Stærsta ástæðan var líklega að mér líkaði svo við persónurnar. Þær virka raunverulegar þó heimurinn sé ýktur. Þannig mætti líkja þessu við sjónvarpsþættina Community.
Mér þótti vænt um Daisy og Susan en ég gjörsamlega dýrkaði Esther. Ég efast um að ég sé einn um það. Hún er svona goth/emo (gotnesk tilfinningavera?) í útliti en aldrei stereótýpa. Kannski er hún smá “Manic Pixie” en hún er það á sínum eigin forsendum en ekki til að uppfylla hlutverk draumastúlku einhvers stráks.
Ef ég væri enn með skólabókasafn þá myndi ég kaupa alla vega eitt bindi af Giant Days fyrir elstu á miðstigi og uppúr. Ég held að margir fyrrverandi safngestir mínir myndu heillast af þessu. Fyrir unglinga er þetta síðan gráupplagt.
Þessi saga er líklega best af því “nýja” efni sem ég hef lesið á árinu. Ef þið viljið ekki lesa þetta af skjá, hvað þá svarthvítum skjá, þá á Nexus auðvitað Giant Days.