Á síns tíma mælikvarða

Í dag er verið að skoða fortíðina með gagnrýnum augum. Það á bæði við um fólk og menningu. Margir telja þetta bull og vitleysu og segja að við getum ekki dæmt fortíðina með augum nútíðarinnar. Ég held að við getum það alveg en við megum líka skoða fortíðina með síns tíma mælikvarða.

Í Bristol var styttu af Edward Colston fleygt í höfnina. Á Wikipediu og Mogganum má lesa að hann hafi verið mannvinur (philanthropist). Og þrælasali. Það er augljóslega sturlað. Í þessu tilfelli þá útilokar eitt annað. Algjörlega. Þú getur ekki verið mannvinur og þrælasali. Fullt af fólki á tímum Colston vissi það alveg. En málið er auðvitað að í nútímanum hefur hugtakið fyrst og fremst verið um ríka hvíta kalla sem vildu kaupa ást fjöldans og fallegar línur um sig í sögubókunum. Oft á tíðum hefur þetta verið gert til þess að draga athyglina frá því hvernig þeir græddu alla þessa peninga. Við ættum að finna nýtt hugtak til að nota um svona kalla.

Það er í fréttum að HBO hafi fjarlægt Gone With The Wind af streymisveitu sinni. Ég skal láta vera að benda á að myndin er bæði ofmetin og of löng. Allir vita það. En hvað er að henni? Hið augljósa er að svartar persónur í myndinni eru skrípamyndir en ekki manneskjur. En það er ekki bara það sem gerir myndina ógeðfellda.

Myndin er sögufölsun. Ég veit að margir munu benda á að Hollywood kvikmyndir eru iðulega sekar um að víkja frá sannleikanum til að myndin verði betri. En í þessu tilfelli eru breytingarnar ekki í þágu listar eða afþreyingar. Gone With the Wind er hluti af kerfisbundinni herferð til að fegra þrælahald og Suðurríkin. Við ættum að horfa á þetta sömu augum og þegar reynt er að fegra Hitler og nasista.

 

One thought on “Á síns tíma mælikvarða”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *