Þegar verkefni í þágu almennings taka að sér að koma efni á rafrænt form þá gerist það gjarnan að aðrir taka efnið og fara að rukka fyrir það. Stundum er einhverju bætt við en ekki alltaf.
Fyrir nokkru síðan rakst ég á að Forlagið selur rafbókaútgáfu af Hómerskviðum. Mig grunaði strax að hér væri á ferðinni textinn sem Rafbókavefurinn gaf út á sínum tíma. Ég nennti samt ekki að rannsaka það.
En núna áðan rakst á þessa bók hjá Google Books. Af þeim síðum sem sjást þar er ljóst að þetta er einfaldlega textinn frá okkur. Það eina sem við hefur verið bætt er ný kápumynd og höfundaréttaupplýsingar sem eru í meira lagi skrýtnar.
Sú hugmynd að Saga Egmont eigi höfundarétt að þessum texta er brandari. Útgáfan á væntanlega rétt á kápumyndinni og engu öðru. Ég játa að mér finnst töluvert fyndið að gefa Hómer höfundarétt. Fyrir utan þá staðreynd að hann var líklega ekki til þá var höfundaréttur alveg örugglega ekki til á þeim tíma sem hann á að hafa verið uppi.
En hvernig get ég verið viss um að þetta sé textinn sem Rafbókavefurinn setti á netið? Aðallega af því að þessi texti sést í sýnishorninu á Google Books.
Rafbókavefurinn tiltekur vissulega að öllum er frjálst að nota þá texta okkar sem eru merktir sem opið efni. Þannig að við bönnum engum að nota þetta. En það er auðvitað ákaflega vafasamt siðferðislega að selja efni sem þú hefur nær ekkert lagt til. Sömuleiðis finnst mér að það ætti að vera ólöglegt að gefa til kynna höfundarétt þar sem hann er ekki til staðar. Þá finnst mér hálfömurlegt að fella burt klausur um framlag Kristins Ármannssonar og Jóns Gíslasonar til útgáfunnar.
Ég er mjög hissa á að Forlagið sé að selja þessa útgáfu. Það væri gaman að sjá hvort þessi klausu um Rafbókavefinn sé líka í þessari útgáfu sem er verið að selja hjá þeim.
Annars þá er Rafbókavefurinn ennþá niðurgreiddur af mér. Það hafa bæst við smá styrkir á Karolina Fund en ekki einu sinni nóg til að borga hýsinguna. Ef fólk gæti gefið eitthvað þá myndi það hjálpa okkur – jafnvel í að koma þessu verkefni aftur á fullt skrið.
Djöfulsins skíthælagangur er þetta hjá þeim!