Í gær gerðist það óvænt að Raspberry Pi stofnunin varð aðalpersónan á Mastodon. Það er áhugavert að mörgu leyti og kannski sérstaklega vegna þess að það sýnir hvernig þessi vettvangur er öðruvísi.
Raspberry Pi er tegund af smátölvum sem hafa verið notað í ótal verkefni. Það er hægt að nota þær sem sjónvarpstölvur, vefþjóna, skrármiðlara, veðurst0ðvar og svo endalaust framvegis. Í samhengi þessa máls þarf að leggja áherslu á að fólkið sem notar þessar tölvur er oft mjög meðvitað um persónuvernd. Fólk vill ekki nota Chromecast af því að það er ósátt við hvernig Google notar gögn um notendur sína. Það er gott að muna að þetta er líka ástæðan fyrir því að margir nota Mastodon.
Í gær birti Raspberry Pi undarlega grein sem deilt var í gegnum ýmsa samfélagsmiðla. Umfjöllunarefnið var að stofnunin væri búin að ráða fyrirverandi lögreglumann til starfa. Það var lögð sérstök áhersla á að hann hefði starfað við að útbúa ýmsan hlerunarbúnað og hefði notað Raspberry Pi í sumum verkefnum.
Þetta var vægast sagt stuðandi framsetning fyrir fólk sem hugsar mikið um persónuvernd. Einnig er þetta rautt flagg fyrir okkur sem höfum fylgst með því hvernig breska lögreglan njósnar um pólitíska hópa (munið eftir Saving Iceland?).
Það komu strax fram athugasemdir og spurningar, bæði á Mastodon og Twitter. Í stað þess að svara þessum spurningum efnislega kom eintómur skætingur frá þeim sem stjórnar þessum samfélagsmiðlareikningum. Sá einstaklingur fór fljótlega að loka á notendur sem skrifuðu athugasemdir, sama hve saklausar og kurteisar þær voru.
Þannig komst þetta á flug. Ekki bara þessi undarlega framsetning heldur líka viðbrögðin við saklausri gagnrýni. Það var ekki eitthvað forrit sem reiknaði út að þetta væri heitt umræðuefni heldur deildi fólk (endurbirti) færslum um málið. Myllumerkin (efnisorðamerking) hjálpaði fólki að finna fleiri færslur.
Þið munið að Mastodon er net vefþjóna sem tengjast eða loka á hver aðra eftir því hvernig traustið er á milli þeirra. Raspberry Pi rekur eigin vefþjón og hegðun stjórnandans þar vakti strax upp spurningar um hvort hann væri hæfur í starfi. Það voru þónokkrir vefþjónar sem einfaldlega rufu tengslin við Raspberry Pi. Hlutfallslega voru það ekki margir og þá almennt bara þeir sem hafa mjög ákveðnar reglur um þessi mál.
Þó það sé ekki útbreitt álit að það eigi að loka á vefþjón Raspberry Pi hefur umræðan almennt verið mjög neikvæð í garð þeirra. Margir voru ósáttir við hvernig málið var upprunalega sett fram en miklu fleiri telja að sá sem sér um samfélagsmiðla stofnunarinnar hafi brugðist hlutverki sínu með framkomu sinni gagnvart fólki sem spurði einfaldra og kurteisislegra spurninga.
Vissulega er það þannig að margir tölvuhlutir eru notaðir í vafasömum tilgangi. Þú sérð hins vegar ekki Intel setja inn færslur á samfélagsmiðla þar sem þeir segja frá nýja starfsmanninum honum Jóa sem notaði Intel-vörur þegar hann var að hanna gjöreyðingarvopn.
Þeir sem verja Raspberry Pi hafa reynt að afgreiða alla gagnrýni sem andúð á lögreglu og að hér hafi verið að dæma manninn vegna fyrri starfa. Það stenst enga skoðun. Það eru ákaflega fáir sem hafa ráðist á þennan umrædda starfsmann. Nær öll upphafleg gagnrýni snerist um framsetninguna og spurningar tengdar henni en í framhaldinu voru það viðbrögðin við gagnrýninni sem vakti reiði.
Satt best að segja var ég eiginlega að bíða eftir að einhver fullorðin myndi mæta í vinnuna hjá Raspberry Pi stofnuninni. Þetta er ekki líkingarmál sem mér finnst yfirleitt gagnlegt en viðbrögðin á samfélagsmiðlum voru mjög barnaleg.
Í stærra samhengi þarf að nefna að mörg okkar hafa mjög góða reynslu af Raspberry Pi og vorum mjög jákvæð fyrir vörumerkinu. Við höfum gengið í gegnum langt tímabil þar sem Raspberry Pi tölvur hafa verið illfáanlegar (Covid+Brexit). Ég þyrfti helst að uppfæra tvær af tölvunum sem ég nota en hef ekki getað gert það. Í stað þess að finna aðra valkosti, sem eru margir, hef ég beðið. Uppákoma gærdagsins hefur grafið undan góðvild viðskiptavina.