Fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, hann Guðlaugur Þór, tjáði sig um yfirstandandi þjóðarmorð og notaði orðin „hræðilegt“ og „sorglegt“.
Ekki um þessi fjöldamorð. Það sem Guðlaugi Þór fannst svona sorglegt var að einhver hefði kastað glimmeri á núverandi utanríkisráðherra.
Hann velti líka fyrir sér möguleikanum að einhverju verra hefði verið kastað yfir flokksfélaga sinn, einhverju verra en glimmeri.
[Svokallað glimmer]
Já, ímyndið ykkur ef einhver hefði kastað miltisbrandsdufti á Bjarna Benediktsson, það hefði verið hræðilegt og sorglegt. Það gerðist hins vegar ekki. Þetta var glimmer.
[Svokallað Glimmer]
Svo virðist sem tilvist glimmers hafi verið leynt fyrir Guðlaugi Þór. Hann virðist ekki vita að þetta er meinlaust. Í versta falli er leiðinlegt að losna við þetta en það vill svo heppilega til að Morgunblaðið sjálft hefur birt leiðbeiningar um hvernig fólk geti losnað við [svokallað] glimmer af fötunum sínum. Það er nefnilega eitthvað sem kemur fyrir fólk. Það fær stundum á sig glimmer.
Þannig að það var hvorki hræðilegt né sorglegt að Bjarni Ben hafi fengið yfir sig glimmer. Guðlaugur er bara að hjálpa Bjarna að leika fórnarlamb. Valdamikið fólk gerir það gjarnan.
Mér finnst sorglegt og hræðilegt að það sé verið að drepa fólk. Það er sorglegt og hræðilegt að sjá myndir af börnum sem hafa verið drepin og heyra af heilu fjölskyldunum sem hafa verið þurrkaðar út í loftárásum.
Þetta er ekki eitthvað sem ég ímynda mér. Þetta er ekki einhver möguleiki sem ég er að velta upp. Þetta er að gerast á hverjum degi.
Þegar beðið er um að Ísland tali fyrir réttlæti er okkur sagt að það skipti bara engu máli. Við sem biðjum um það erum bara ekki nógu klár til að skilja þessa „real“ pólitík.
Reyndar hefur fólk í valdastöðum á Íslandi nokkrum sinnum beitt sér fyrir réttlæti fyrir Palestínu. Þetta var ekki fullkomið fólk en það gerði allavega eitthvað, þrátt fyrir gagnrýni, sem kom meðal annars frá Bjarna Ben.
Það er sorglegt og hræðilegt að fólk eins og Guðlaugur Þór skuli halda því fram að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar í þessum málum eigi eitthvað skylt við mannúð og mannréttindi.
Sannleikurinn er að Ísland, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, er í ákveðnu liði þegar kemur að alþjóðamálum. Stefna ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst mörkuð af þessu. Við erum að hjálpa okkar liði.
„En Óli, hvað um Hamas?“ ímynda ég mér að fólkið, sem spyr alltaf, muni spyrja.
Hamas eru hræðileg samtök. Ég er ekki með þeim í liði. Ég er á móti því að fólk sé drepið.
Mögulega finnst einhverjum kjánalegt að hella glimmeri yfir Bjarna Ben. Fínt. Sumum finnst það hræðileg óvirðing við embætti hans. Sjálfum finnst mér það vanvirðing við þjóðina að Bjarni Ben skuli vera í þessu, eða nokkru, embætti.
Ég játa að mér fannst bara fyndið að sjá Bjarna Ben fá yfir sig [svokallað] glimmer. Það var ágætis tilbreyting að hlæja af því þegar ég heyri fréttir frá Gasa langar mig til að gráta.