Neil Gaiman á Reykjavík Noir

avatar
Óli Gneisti

Þáttur um heimsókn Neil Gaiman á Iceland Noir og upplifun Óla Gneista á hátíðinni

Neil Gaiman á Reykjavík Noir

Fyrr á árinu var tilkynnt að Neil Gaiman kæmi á Iceland Noir. Ég velti fyrir mér hvort það væri í alvörunni réttlætanlegt að kaupa miða fyrir rúmar tuttugu þúsund krónur af því ég væri hrifinn af einum rithöfundi. Lausnin var einföld. Ég ákvað að kynna mér sérstaklega verk þeirra höfunda sem voru að koma. Ég yrði vel upplýstur þegar að ráðstefnunni kæmi.

Síðan keyptum við íbúð, fluttum og þurftum að vera í allskonar framkvæmdum (sem er ekki enn lokið að fullu). Þannig að ég bara gleymdi þessu.

Þegar kom að viðburðinum sjálfum þurfti ég að mæta niður í bæ á miðvikudagsmorgun til að fá armband. Strætóferðin olli hausverk (ilmvatn? vagninn sjálfur?) þannig að ég fór út á Hlemmi og labbaði niður í Austurstræti frekar en að halda áfram niður á Lækjartorg.

Það var töluverður straumur af fólki að skrá sig og flestir virtust hafa komið sérstaklega til landsins á ráðstefnuna. Meðan ég beið eftir lyftunni og á leiðinni upp átti ég smávægileg orðaskipti við erlenda konu. Þegar við vorum að fá armböndin okkar spurði konan hvort það ættu allir að fá svört eða hvort fólk sem kæmi fram fengi öðruvísi. Ég fékk svona smá sting að hafa ekki verið duglegri að lesa mér til um höfundana á ráðstefnunni. Hún fékk rautt armband.

Á leiðinni heim í Breiðholtið átti sér stað ótrúlegt kraftaverk. Vagninn kom þegar einungis var rúmlega ein mínúta eftir af gildistíma strætómiðans míns og svo kom í ljós að þessi vagn var ekki fullur af hausverkjavaldandi lofti.

Fyrsti viðburðurinn sem ég mætti á var á föstudagsmorgun, Sara Blædel og Neil Gaiman í spjalli. Ég kom á góðum tíma en það var strax orðið troðið. Ég endaði að finna mér sæti á sófaarmi út við glugga. Ég tók fljótlega eftir því að í kringum mig voru fimm rithöfundar. Ég komst að þessu þegar ég heyrði fólk spjalla um hve óþægileg þessi armbönd væru. Ég sagði þeim að ég hafði flett upp á netinu hvernig ætti að losa þau og lýsti aðferðinni. Þá fór fólkið að skoða armböndin sín … sem voru öll rauð.

Ég fékk samviskusting að þekkja þau ekki en ég fékk allavega að vera áheyrandi að spjalli um útgáfuheiminn. Það sem mér þótti mest spennandi að heyra var saga höfundar sem hóf sjálfsútgáfu eftir vesen með útgefendur. Þessi höfundar sagðist hafa sett inn klausu í útgáfusamninga sem sagði að ef tekjurnar af bókinni næðu ekki ákveðnu lágmarki á ársgrundvelli fengi hún útgáfuréttinn til baka. Ég verð að segja að ég held að þetta ætti að vera sjálfgefið. Ef bókaútgáfur ná ekki að græða nóg á bókum til þess að borga höfundum lágmarksupphæð ættu þeir að geta fengið útgáfuréttinn til baka.

Síðan fór spjallið á “sviðinu” af stað. Neil Gaiman sagði frá nokkrum atriðum sem ég hafði ekki heyrt áður. Þegar kom að spurningum var ég fyrstur upp með höndina. Hann hafði nefnt að mamma hans hefði skyndilega orðið mjög spennt fyrir Viktoríu Bretadrottningu þannig að ég spurði hvort mamma hans hefði lesið söguna A Study in Emerald. Það hlógu einhverjir og í hroka mínum ætla ég að segja að það hafi verið fólkið sem hafði lesið mest eftir hann. Gaiman svaraði að hann vonaði að svo væri ekki. Hann tók líka fram að til þess að skilja söguna þyrfti þekkingu á Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft og móðir hans þekkti allavega lítið til hins síðarnefnda.

Eftir að spjallinu lauk var ekki möguleiki að fara beint út og ég endaði í miðju spjalli tveggja rithöfunda. Við vorum að tala um bók Gaiman um norrænar goðsagnir og ég nefndi að ég væri þjóðfræðingur og gæti staðfest að þetta væri góð endursögn. Þá vaknaði allt í einu áhugi á mér og mér þótti það smá vandræðalegt af því ég hefði átt að vita hverja ég var að tala við. Allavega endaði það með að ég sagði frá Stories of Iceland hlaðvarpinu og skrifaði nafnið mitt í síma til að hægt væri að fletta upp upplýsingum um mig og hlaðvarpið.

Þegar ég kom fram hitti ég þar þrjá íslenska rithöfunda sem ég þekki og komu allir of seint til að fá sæti. Reyndar fannst mér þetta svolítið skrýtið af því að það hafði komið fram að það væri nóg af sætum á “aðalstöðunum” en það þyrfti að passa sig að mæta snemma á jaðarviðburði. Þessi var á Vinnustofu Kjarvals sem var mjög áberandi í dagskránni og virtist ekki flokkað með jaðarviðburðunum.

Þegar ég kom heim nefndi Eygló að þessi ráðstefna væri umdeild. Ég var svolítið hissa og þegar hún nefndi Hillary Clinton kom ég af fjöllum. Hvernig gat það farið framhjá mér? Ég sá ekki talað um þetta á Mastodon og ég er voðalega lítið á Facebook (ég hef ekki samþykkt að leyfa þeim að sýna mér auglýsingar). Ég var svo lítið meðvitaður að ég kallaði ráðstefnuna ítrekað “Reykjavík Noir”. Það rifjaðist samt upp fyrir mér að eftir að fá ég keypti fyrst miða fékk ég einhvern tölvupóst um að mér stæði til að boða að kaupa miða á viðburð með Hillary Clinton. Mér fannst það hallærislegt, hunsaði það og gleymdi síðan. Ég upplifði að það væru ekki mikil tengsl milli þeirra viðburða sem ég var á og þessu uppistandi Hillary.

Ég fór ekki aftur fyrren á laugardagskvöld. Það var aðalviðburðurinn með Neil Gaiman og fór fram í Fríkirkjunni. Ég mætti þegar matarhléið átti að hefjast í von um að nappa sæti frá einhverjum sem væri að fara út. Það gekk og ég fékk fínt sæti. Síðan voru öllum smalað aftur út.

Það var voðalega skrýtið að um leið og við fórum út kom önnur alda af fólki sem ætlaði að redda sér sæti. Fólkið sem tilheyrði hátíðinni var ekkert að snúa þeim við heldur virtist það bara gert þegar fólkið var komið inn í kirkjuna. Þetta varð til þess að fólk fór inn og út í svona nokkurn tíma enn á meðan við hin stóðum og biðum í kuldanum á kirkjutröppunum.

Ég heyrði fólk kvarta yfir öllu þessu veseni. Það taldi, nokkuð réttilega, að klukkutíma kvöldmatarhlé væri ekki nægur tími til að fá sér að borða. Það talaði líka um að það hefði verið endalaust vesen á ráðstefnunni. Einn eldri maður sagði að það væri greinilegt að það væri skipuleggjendum þóknandi að hirða peningana þeirra en ekki að vanda sig við umgjörðina.

Að lokum var okkur hleypt inn. Það var svolítið truflandi hve mörg sæti á fremstu bekkjum voru frátekin en ég náði góðu sæti framarlega. Ég tók samt eftir því að fólkið sem kom aðeins seinna inn fór varla fram fyrir miðja kirkju af því það gerði ráð fyrir að allt væri troðið fremst (það var töluvert laust á mörgum bekkjum, þar á meðal mínum).

Á undan Gaiman var það leikarinn Richard Armitage, sem hefur víst líka skrifað bók, og átti samtal við A.J. Finn (sá síðarnefndi hélt að mestu upp stemmingunni með bröndurum). Þetta er frekar erfiður staður í dagskránni. Vissulega var fullt af fólki en töluvert margir höfðu greinilega litla hugmynd um hver þetta væri. Þar á meðal var ég. Ég var þó allavega ekki jafn fjandsamlegur og einn sem spurði hvort Armitage væri ekki bara að græða á nafninu sínu (fór fínna í það).

Síðan var komið að Neil Gaiman. Yfir heildina var þetta bara spjall sem hægt er að finna í tugum myndbanda á YouTube. Það þarf stjórnanda sem þekkir rithöfund vel til þess að geta komið með spurningar sem ýta svona reyndum sögumönnum á ný svæði. Mestu vonbrigðin voru auðvitað að það var farið mjög grunnt í áhrif íslenskra fornbókmennta á Gaiman. Ég hefði endilega viljað fá einhverjar góðar spurningar þar.

Ég lét vera að rétta upp hönd þegar kom að spurningum úr sal. Mér fannst ég hafi fengið mitt pláss daginn áður.

Þegar spjallinu var lokið ákvað ég að hanga í kringum kirkjuna í von um að ná Gaiman á útleið. Ég var ekki einn um það. Þegar ég sá loksins hóp koma út var ég nokkuð snöggur að koma mér til þeirra.

Gaiman tók öllu vel og spurði mig að fyrra bragði hvað ég væri með handa honum. Ég hafði valið smásagnasafnið Fragile Things (sem inniheldur m.a. A Study in Emerald). Ég nefndi að ég hefði séð hann í Stokkhólmi og hann sagði að honum þætti SciFi alltaf góð búð. Auðvitað sagði ég honum að hann ætti að drífa sig í Nexus sem stæðist algjörlega samanburðinn við þá búð og jafnvel Forbidden Planet í London.

Á eftir mér komu fleiri sem, ólíkt mér, höfðu með sér fleiri en eina bók. Mér hefði ekki dottið í hug að koma koma með fleiri bækur í einu. Mér finnst nógu slæmt að sitja fyrir rithöfundi.

Þegar áritun var lokið þakkaði einn aðdáandinn mér fyrir að hlaupa hann uppi sem mér fannst gefa til kynna meiri hraða en ég upplifði.

Þess má að lokum geta að Neil Gaiman er á Mastodon og það hafi verið viðkunnanleg samskipti okkur á milli þar (leitið að efnisorðinu “ReykjavíkNoir” til að finna það sem ég sagði um þessa heimsókn hans).