Mynd af þrívíddarprentuðu sjálflokandi boxi

Þrívíddarprentarauppfærslur og prentun

Það hefur verið svo mikið vesen með Ender 3 Pro þrívíddarprentarann minn undanfarið að ég var næstum búinn að gefast upp. Það eru komnir fram hraðvirkari prentarar og ég far næstum búinn að falla fyrir þeim. Þegar ég las mér betur til kom í ljós að nýju prentararnir nota lokaðan hugbúnað sem er slæmt, sérstaklega þegar það þarf að stjórna þeim í gegnum síma. Þeir geta því orðið eins og öll þessi sniðugu leikföng sem hægt er að stjórna með appi sem úreldist þannig að þau verða ónothæf.

Ég endurnýjaði þann hluta prentarans sem sér um að hita upp og skammta út plastinu sem notað er við prentun. Um leið uppfærði ég hugbúnaðinn úr Marlin í Klipper, sumsé úr hefðbundna í þann sem getur aukið hraðann. Síðan fiktaði ég og lærði. Þetta er allt að koma.

Hérna er myndband af nýlegri prentun. Hún er ekki sýnd á raunhraða. Þetta eru 150 mínútur sem er miklu hraðara en prentarinn réði áður við.

Þetta myndband sýnir hvernig ég prentaði box sem hægt er að loka með því að snúa (irisbox). Þetta er vinsælt í þrívíddarprentun og til í mörgum útgáfum. Ég valdi það af því að það sýnir mér hvort hægt sé að prenta tiltölulega flókið módel á hröðu stillingunni.

Það sem ég vildi sýna í þessu myndbandi er hvernig þvívíddarprentarar (allavega þessi flokkur af þeim) vinna. Prenthausinn ýtir út bræddu plasti á meðan hann færist fram og til baka. Næst hækkar hann sig aðeins og bætir við. Lag eftir lag.

Það er magnað hvað hægt er að gera með svona prentara. Ef þið hugsið um mekaníkina sem er fólginn í þessu boxi getið þið vonandi séð fyrir ykkur allavega sex mismunandi parta sem þurfa að vinna saman.

Hvernig er hægt að gera slíkt þegar prentarinn vinnur bara með þessi lög. Það er ekki hægt að prenta eitthvað án þess að það sé tengt einhverju öðru og því er erfitt að skilja hvernig hægt er að hreyfa þessa alla þess mismunandi parta saman.

Bragðið er að tengingarnar á milli hluta eru örsmáar. Þegar boxið kemur af prentaranum þarf að stinga einhverju þarna á milli til að brjóta þessar tengingar. í kjölfarið er hægt að hreyfa allt.

Ég dáist endalaust að hugmyndaauðgi þeirra sem hanna svona módel og er fullur af þakklæti til þeirra fyrir að deila þeim með okkur.