Már talar um þá stöðnun sem hvílir yfir Internet Explorer. Ég hef sjálfur aldrei notað IE að staðaldri, ég byrjaði í Netscape en fyrir svona 4 árum skipti ég yfir í Opera því Netscape var orðinn þungur og leiðinlegur en einnig af því viðmótið í Opera hentar mér ákaflega vel.
Ég hafði reyndar prufað Opera nokkru áður en ég skipti yfir og þá dáðist ég að vafranum sem hægt var að láta á einn diskling á meðan stóru vafrarnir voru komnir í tugi megabæta (sem er hellingur fyrir þann sem notar innihringimódem). Þá var Opera hins vegar ekki kominn alveg nógu langt á leið til að vera aðalvafri.
Þegar ég henti Netscape og tók að nota Opera að mestu var þó vandamál með margar síður sem voru skrifaðar sérstaklega fyrir Internet Explorer, það þýddi að IE varð alltaf að vera til taks fyrir hinar og þessar síður. Nú er öldin önnur, mig minnir að það hafi verið eitthvað um það bil þegar Opera 7 kom út að IE varð gagnslaus. Núna virkar næstum (fyrir utan mjög illa hannaðar síður) allt í Opera. Ég keypti mér fartölvu í apríl og ég hef ekki séð þörf á því að breyta IE í þeirri tölvu þannig að ég geti notað hann (semsagt breyta upphafssíðu og svo framvegis), það er bara ekki þörf á því. Eina sem ég nota IE í er að skoða heimasíður sem ég er að búa til.
Mikið er talað um markaðshlutdeild og mælingar á því hve margir noti IE og hve margir aðra vafra. Teljarinn minn segir að ekki einn einasti sem hefur komið hingað noti annað en IE eða Netscape, það er vissulega rugl. Teljarinn minn er kannski ekki jafn góður og þeir sem eru notaðir í að mæla svona hluti en ég held að hann sýni að staða IE sé ofmetin. Opera ruglar málin svoltið með því að kynna sig yfirleitt sem IE (til að losna við gildrur frá MicroSoft). Gera aðrir vafrar þetta líka? Spurning líka hvort Firebird kynni sig sem Mozilla og það sé túlkað sem Netscape… Ég veit það svosem ekki.
Málið er einfaldlega að IE er verri vafri en Opera og Firebird. Það er einfalt að láta upp þessa vafra, þeir eru litlir, ljúfir og viðmótið er þægilegt (ég kýs Opera en það gæti verið vegna þess að ég er afskaplega vanur honum). IE er hálfgert skrýmsli, það er sú tilfinning sem ég fæ þegar ég nota hann, sama tilfinning og fylgdi Netscape þegar ég ákvað að henda honum.
Takið inn nýjan vafra, það er enginn afsökun fyrir að prufa ekki: Firebird Opera Afsakið síðan að ég miða þetta við að þið séuð að nota Windows.