Þessi flokkur ætti að heita bækur en ekki bókmenntir. Í gær byrjaði ég á tveimur bókum. Annars vegar var það Bláu trén í Friðheimum. Sú bók er eftir konu ömmubróður míns. Hún var franskur gyðingur sem kom hingað og varð ástfanginn af Njáli. Hann var kennari, íþróttamaður, garðyrkjumaður og mikill dulspekiáhugamaður. Ég man ekki eftir að hafa hitt hann, þekki lítið af systkinum Siggu ömmu. Tók 80 blaðsíður í baðinu í gær og klára hana í næstu ferðum. Eftir að hafa lesið svona örlítið þá langar mig rosalega að skoða Friðheima.
Hin bókin er öllu þekktari og er eftir Richard Dawkins. Hún heitir The Selfish Gene og er góðrarnæturlesning. Ég hef nokkrar ástæður til að lesa hana. Ein ástæðan er sú að ég hef verið stimplaður fanatískur fylgismaður Dawkins án þess að hafa klárað heila bók eftir manninn (las töluvert af The Blind Watchmaker þó) og önnur ástæða er að ég mun hitta hann á næsta ári ef allt gengur upp með ráðstefnuna. Ég komst ekki langt í henni í gær en samt er það einsog augun í manni hafi opnast við þetta.