Tvífarinn Jóhannes Zoëga (1881-1886)

Gunnsteinn var að skoða Íslendingabók og rakst þar á grunsamlega „tilviljun“. Alnafnar sem fæddust sama dag 1881 og létust sama dag 1886.

  • Jóhannes Zoëga (27. ágúst 1881 – 13. ágúst 1886)
  • Jóhannes Zoëga (27. ágúst 1881 – 13. ágúst 1886)

Þetta er vægast sagt ólíklegt. Ég kíkti í Zoëga-ættarbókina og þar er þetta svona. Annar þessara tveggja er langafabróðir Eyglóar en hinn fjarskyldari. Ég setti á Facebook og fljótlega var Nanna Rögnvaldardóttir búin að finna annan þeirra í kirkjubók skráðan með þessar dagsetningar.

Sá var sonur Jóhannesar Zoëga Jóhannessonar og Vilborgar Þóroddsdóttur.

Hinn á að vera sonur Jóhannesar Tómassonar Zoëga og Guðnýjar Hafliðadóttur (langalangafi og -amma Eyglóar).

Ég fór sjálfur í gegnum kirkjubækurnar og fann hvorki tangur né tetur af Jóhannesi Guðnýjarsyni. Ég fann eldri systur hans skráða (fædd andvana), ég fann yngri systur hans (lést fyrir fyrsta afmælisdaginn sinn). Ég fann tvíburabræður þeirra (fæddir andvana 1888) og ég fann langafa Eyglóar.

Manntölin hjálpa ekki með þessa stráka enda tekin 1880 og 1890. Þau sýndu mér hins vegar áhugaverða tilviljun, raunverulega tilviljun. Árið 1880 bjuggu feðgarnir Jóhannes Zoëga Jóhannesson og Jóhannes Zoëga Jóhannesson í Nýjabæ. Árið 1890 bjuggu Jóhannes Tómasson Zoëga og Guðný Hafliðadóttir í Nýjabæ.

Árið 1883 bjuggu Guðný og Jóhannes maður hennar í Kirkjugarðsgötu nr. 5 en voru flutt í Nýjabæ árið 1885 þegar langafi Eyglóar fæddist.

Af hverju skiptir það máli? Af því að í kirkjubókarfærslunni árið 1881 um fæðingu Jóhannesar Vilborgarsonar er faðir hans skráður Jóhannes Zoëga (junior) í Nýjabæ og guðfaðir hans Jóhannes Zoëga í Nýjabæ (væntanlega senior þó það komi ekki fram).

Mig grunar að einhver sem vissi að Jóhannes (maðurinn hennar Guðnýjar) hafi búið í Nýjabæ hafi rekist á færsluna frá 1881 og misskilið hana á þann veg að sá drengur væri sonur þeirra. Þannig varð til þessi tvífari. Sumsé, ef ég hef rétt fyrir mér var Jóhannes langafabróðir Eyglóar aldrei til.

Lexían er auðvitað að Zoëgarnir ættu að finna sér frumlegri nöfn.