Hafið þið tekið eftir því að það eru komnar nýjar umbúðir á Smjörva? Það er bömmer. Smjörvaumbúðir hafa verið eins mjög lengi og nú á að eyðileggja þær. Nýju umbúðirnar eru slappar. Vantar alla fegurð þeirra gömlu. Sem betur fer eigum við Eygló gömlu umbúðirnar prentaðar á míníofninn okkar eftir slys sem ég olli.
Í dag hjálpaði ég einmitt til við heimilistækjakaup. Sjálfur fór ég til að kaupa fjórðu seríu af Seinfeld í Elkó og keypti um leið skrifborðsstól í Rúmfatalagernum. Á meðan ég var að reyna að troða stóra vinkilkassanum inn í bílinn þá komu Bragi og Jósi. Þeir horfðu á mig troða stólnum í bílinn og síðan slóst ég í för með þeim inn í búðina. Ég þurfti að skila Seinfeld því ég keypti fimmtu seríu í stað þeirrar fjórðu (villandi merkingar). Á meðan ég beið afgreiðslu heyrði ég að stúlkan þarna var að reyna að bjarga vandræðamáli. Þá sögu segi ég ef þið biðjið mig um það face to face.
Síðan fór ég að fylgjast með Jósa og Braga kaupa Sódastrímtæki fyrir þann fyrrnefnda. Það mistókst hjá þeim. Jósi fór líka að skoða kaffivélar. Afgreiðslumaðurinn benti á Sækó en Bragi vildi Krupps. Uppúr þessu spratt epísk deila sem endaði með því að Jósi keypti dýra gerð af Krupps með jarðskjálftavörn. Afgreiðslumaðurinn náði í millitíðinni að slátra einhverjum pönnulokum.
Það rifjaði upp fyrir mér síðustu Elkó ferð mína. Á mánudaginn fórum við og keyptum Friðarstillinn. Á meðan við vorum að ræða um gæði vélarinnar þá hallaði ég mér afur á frystikistur sem stóðu þarna á smá palli. Það var ekki góð hugmynd. Kisturnar voru á hjólum. Það varð til þess að ég náði að velta stórri frystikistu um koll. Hún lifði nú af en það varð til þess að við ákváðum að kaupa uppþvottavélina. Óbeint allavega. Ég var ekki í jafnvægi frekar en frystikisturnar.