Sannfærandi skrýmsli eru ekki skemmtileg

Svo ég komi með enn eina Júróvísjón færsluna.  Það er mjög skemmtileg þversögn fólgin í því að Evrópu valdi skrýmslahljómsveit í þessarri keppni en hafnaði Silvíu Nótt.  Þetta er aftur það sem ég nefndi um að brandarinn væri ekki nógu augljós.  Brandararnir sem voru algerlega á yfirborðinu slógu í gegn.  Reyndar var það þannig að Litháar uppskáru baul fúlu áhorfendanna í seinni umferðinni.  Eru Grikkir húmorslausir og dónalegir upp til hópa?  Egill Helgason er aðdáandi þjóðarinnar sem veit ekki á gott.  Kannski að Bretar ættu bara að hirða Elgin-lágmyndirnar.  Fannst líka ómerkilegt af Sigmari að gagnrýna Litháana, þjóð sem sendir Silvíu Nótt ættu ekki að gagnrýna það að aðrar þjóðir hafi húmor líka.  Lagið þeirra var líka bara skemmtilegt, sem og atriðið.

Þversögnin sem ég er að vísa í er að Silvía var í raun miklu öflugri sem skrýmsli heldur en Finnarnir.  Ef þið spáið í það þá voru þeir finnsku örugg skrýmsli sem við sjáum í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.  Silvía var hversdagslegt skrýmsli, við höfum öll hitt fólk einsog hana (þó augljóslega ekki jafn ýkt).  Við erum ekki hrifin af skrýmslunum sem við þurfum að mæta í raunveruleikanum en sjónvarpsskrýmsli eru skemmtileg.  Vissulega er hún líka spegill eigingirni, sjálfselsku og heimsku ríka og fræga fólksins (og okkar hinna líka).

Mér þótti brandarinn alltaf verða fyndnari og fyndnari hjá Silvíu.  Verst þótti mér að hún sagði ekki fucking á sviðinu, það hefði verið mikið flottara að vera rekin út fyrir blót heldur en að lenda í 13. sætinu.

Mig grunar alltaf meir og meir að Ágústa Eva og Silvía Nótt hafi verið að hugsa mun lengra en bara um þessa keppni.  Ég held að næsta skref hjá þeim verði að reyna að selja þessa þætti, allavega þá sem þau eru að gera núna til Evrópulanda.  Þau geta skoðað hverjir gáfu okkur atkvæði og metið þannig hvar markaðurinn er.

Sumir segja að þetta hafi verið stór mistök hjá okkur að senda Silvíu, við hefðum getað sent Regínu (sem var vissulega góð) og þá gengið betur.  Það er alveg óvíst hvort Regína hefði komist eitthvað lengra, gott lag þýðir ekki sjálfkrafa velgengni.  Ég er á því að við ættum aldrei aftur að senda alvarlegt lag, við ættum alltaf að reyna að hneyksla eða gera grín.  Það er bara mikið skemmtilegra og fólk verður líka minna fúlt yfir tapinu.

Besta Eurovisionkeppni allra tíma.