Það að koma heim úr skólanum tíu klukkutímum eftir að maður lagði af stað er ekki hressandi. Ekki það að ég myndi dreifa þessum tímum á fleiri daga. Próf í morgun. Síðan skrapp ég á Bókhlöðuna og tók nokkrar bækur af því að ég hef ekki lesið nóg undanfarið. Skrapp síðan á Árnastofnun til að fletta í The Rationale of the Dirty Joke og einhverri annarri bók sem ég hélt að gæti hjálpað mér í náminu en síðan var hún gagnslaus. Hins vegar var gaman að lesa aðeins um dónabrandara hjá Legman og þetta er án efa bók sem ég verð að eignast.
Ég hitti síðan Tomma út í Odda og hann benti mér á fyrirlestur í Þjóðminjasafninu. Ég ákvað að fara þó það þýddi ég missti af Tolkien kúrsinum. Það var svoltið áhugavert að sjá viðhorf sagnfræðinga til munnlegra heimilda. Tomma fannst að það vantaði dáltið upp á að sagnfræðingar þekktu til eigindlegra rannsóknaaðferða. Tommi hefur náttúrulega lært þetta bæði hér og fyrir norðan, þar að auki hefur hann tekið ótal viðtöl og er því enginn byrjandi í slíku.
Fór síðan í Rannsóknir sem var gaman að vanda en þó er maður orðinn dáltið þreyttur þegar klukkan er farin að ganga fimm. Það var gott að fara í bað og að horfa á Monk þegar maður kom heim.