Að finna upp Robert Johnson

Ég er þá búinn að lesa bókina Escaping the Delta: Robert Johnson and the Invention of the Blues. Þetta er sumsé lesefni í kúrsinum Arfleifð Deltablúsarans Robert Johnson: Inngangur að samberandi tónlistarfræði.  Ég myndi halda að þessi bók breyti viðhorfi flestra til umfjöllunarefnisins. Ég veit að sjálfssögðu sorglega lítið um blús og hef ekki hlustað neitt sérstaklega mikið á þessa tónlist.  Ég er hins vegar með Cross Road Blues í gangi núna.  Og núna er Sweet Home Chicago.  Bæði lögin þekki ég vel í öðrum útgáfum og í báðum tilfellum eru flytjendurnir hvítir endurvakningarsinnar.  Cream og Blúsbræðurnir.

Ég ætla aftur að plögga námskeiðið og hér er lýsingin úr kennsluskrá:

Hraðnámskeið: Kennt dagana 10.-13. janúar 2007, kl. 9:30-13:30.

Kennari: Nigel Watson, tónlistarfræðingur.

Robert Johnson var nánast dæmigerður farandtónlistarmaður sem lifði í útjaðri afrísk-amerísks samfélags í Bandaríkjunum. Plöturnar hans seldust ekki í stóru upplagi og hann dó ungur og óþekktur. Engu að síður varð hann einhver áhrifamesti tónlistarmaður 20. aldarinnar. Námskeiðið mun kynna og rannsaka söguna og hugmyndafræðina að baki því sem enn er kallað þjóðlagafræði (“ethnomusicology”) með vísan í ævisögu Robert Johnson, lög hans og áhrif. Sérstaklega verður skoðaður hæfileiki hans til að bræða saman fjölda tónlistareinkenna úr blúshefðinni, úr sveit og borg, jafnframt því að innleiða nýjungar í tónlist og textagerð. Mikilvægt er að skoða þetta í samhengi við samfélagið þar sem Johnson ólst upp, við óseyrar Mississippiárinnar (milli Memphis, Tennessee og Vicksburg, Mississippi). Án þess að draga úr mikilvægi arfleifðar Johnson um heim allan, þá verður hún skoðuð með hliðsjón af goðsagnaframleiðslu bandarísks tónlistariðnaðar, sem reyndar hefur gegnt nokkru hlutverki innan þjóðfræðinnar.

Ef þið viljið skrá ykkur þá er námskeiðsnúmerið 10.10.73.  Það er þegar komið fullt af fólki utan þjóðfræðinnar í kúrsinn og það ættu að bætast fleiri við.  Mig grunar að tónlistaráhugafólk hafi mikinn áhuga á þessu efni þannig að ég hvet ykkur til að benda slíkum vinum ykkar á þetta.  Ef sem flestir skrá sig þá hvetur þetta þjóðfræðiskor til að halda fleiri svona hraðnámskeið.