Ég geri ekki ráð fyrir að vera aktívur hér næstu daga, dett líklega úr netsambandi um leið og nýr mánuður hefst. Að vísu mun ég þá geta skroppið á netið í Háskólanum þannig að ég verð ekki alveg einangraður. Nú þegar ég hugsa um það þá veit ég ekki einu sinni hvert ég á að snúa mér til að láta mig í samband við Háskólanetið. Er með netkortið hans Ásgeirs sem ætti að duga fyrir utan að ég er ekki með driverana. Þetta reddast náttúrulega, maður hefur svosem nóg annað að gera í næstu viku annað en að hanga á netinu.
Annars þá er mikil tilhlökkun hjá mér að geta minnkað gjöldin til Landssímans um rúman tvöþúsundkall í viðbót, tveir mánuðir síðan þetta lækkaði einmitt um svipaða upphæð, þarf reyndar að byrja á að borga einhver gjöld vegna þess að ég er að færa símann (redda því á morgun).
Á morgun fer ég að redda sendiferðabíl til að flytja okkur, er reyndar ekki viss um hve stóran bíl þarf. Veit ekki hvað þetta mun kosta en ég ætla að gera verðsamanburð. Fer síðan að minna alla á flutninginn sem eiga að hjálpa okkur.
Á laugardaginn skreppum við Eygló í IKEA og Rúmfatalagerinn til að kíkja á húsgögn. Ég sá skáp sem er alveg tilvalinn undir geisladiska, videospólur og dvd í IKEA bæklingnum og eini gallinn er að hann er líklega ljótur, þurfum að skoða hann til að dæma almennilega.
Á sunnudag verður frágangur á lokastigi og mun ég til að mynda taka í sundur skrifborðið sem þessi talva er á, ætti kannski að gera það á miðnætti um leið og adslið dettur út.
Fyrrihluti mánudags mun skiptast milli skóla og þess að flytja viðkvæmari hluti (raftæki aðallega) á nýtt heimili, um klukkan fimm flytjum við líklega. Er búinn að plana að skilja Eygló eftir til að hún geti þrifið hérna en hef ekki sagt henni planið (reyndar er sumt af því sem ég er að skrifa hér minnisatriði fyrir mig enda hefur andvökunótt farið í plön).