Jæja, þetta er búið. Get ekki sagt að það hafi komið á óvart. Reyndar kom á óvart að Röskva næði meirihluta og vissulega er það voðalega gaman að Fabri hafi komist inn. Ég er ákaflega feginn að það munaði slatta að við næðum inn manni. Mér liði örugglega frekar illa ef það hefði munað einhverjum örfáum.
Undarlegast er að mér þykir þetta ákveðinn léttir. Það hefur ekkert verið ákveðið með framhaldið og ég mun væntanlega ekki koma að þeirri ákvarðanatöku. Sjálfur held ég að þreyta hafi verið kominn í Háskólalistann. Ef Háskólalistinn hverfur endanlega þá býst ég fastlega við öðrum framboðum fljótlega, það er eiginlega ekki annað hægt. Slík framboð yrðu þá vonandi ferskari en við vorum orðin.
Ég hef oft verið spurður hver munurinn á Röskvu og Vöku sé og svarið sem þau gefa sjálf er að Vaka sé framkvæmdaafl en Röskva vill að rödd stúdenta fái að heyrast. Ég sting upp á samvinnu sem muni leiða til þess að Stúdentaráð framkvæmi og að rödd stúdenta heyrist um leið. Ég held að þetta þurfi ekki að útiloka hvort annað. Vonandi fattar þetta fólk hve mikilvægt það er að vinna með þessum andstæðingum sínum að hagsmunabaráttu stúdenta. Þau hafa reynslu í samvinnu þó hún hafi verið brösug á köflum. Ekki hætta núna. Slík samvinna væri líka eina mögulega leiðin til að koma í veg fyrir þriðja framboðið.
En já, Freyr, guðfaðir Háskólalistans, tilkynnti það á bílastæðinu við FS að við hefðum misst fulltrúa okkar í Stúdentaráði. Auður, fyrsti Stúdentaráðsliði okkar, og Elli, fyrrverandi formaður Stúdentaráðs, voru einnig á staðnum. Viðeigandi á allan hátt.
Ég er ákaflega stoltur af Háskólalistanum. Ég held að við höfum breytt einhverju en hvort það verði til frambúðar á eftir að koma í ljós. Augljóslega þá voru prinsippin okkur mjög dýr.
En ég er þreyttur og ætti að fara að sofa. Hugsanlega mun ég seinna skrifa þá minningargrein sem Háskólalistinn á skilið.
P.S. Ég gerði ógilt í kosningunni á Háskólafund. Ég skrifaði „Auður! Hvernig gengur að telja?“ Ef þið fattið ekki þá skulið þið pæla aðeins. Mér þótti þetta allavega fyndið.