Ég er orðinn vonlítill um að gamli harði diskurinn minn, Trubelmaker, nái sér aftur. Á þessum disk var allt safn mitt af mp3-lögum (mér finnst mun þægilegra að spila diskana mína í tölvunni heldur en að vera sífellt að skipta um diska í spilaranum), stórt var það. Reyndar er það ennþá stórt því ég tek afrit. Ég var nýbúinn að fleygja öllum mp3-afrita diskunum niður í geymslu og þurfti því að ná í þá. Reyndar ætla ég ekki að láta allt aftur inn í óbreyttri mynd, ætla til að mynda að rippa Queendiskana aftur í betri gæðum.
Allt safn mitt af playlistum fór hins vegar oní klósettið, það er reyndar allt í lagi því það er gott að endurnýja þann pakka allan með nýjum tímum, nýjum lögum (í mínu tilviki yfirleitt nýjum gömlum lögum).
Síðan er tilvalið að nýta tækifærið og koma með nýja flokkun, allavega að flokka upp á nýtt, margt sem var bjánalega flokkað hjá mér. Hörmungar leiða af sér tækifæri (allavega ef hörmungarnar eru ekki meira en dauður harður diskur).
Nú er hins vegar spurning um að finna ábyrgðarskírteinið fyrir gamla diskinn og sjá hvort það er í gildi.
