Ég tók mig til núna áðan og eyddi út greininni um þjóðfræði á Wikipediu og setti inn aðra í staðinn byggða á heimasíðu þjóðfræðinnar. Gamla greinin var hræðileg.
Þjóðfræði er mannfræðigrein sem fæst við rannsóknir á þjóðmenningu. Sá sem lokið hefur háskólaprófi í þjóðfræði nefnist þjóðfræðingur.
Þetta er alveg einstaklega rangt. Til þess að bæta gráu ofan á svart þá var búið að tengja þetta við greinar á öðrum tungumálum sem fjalla um etnólógíu. Málið er bara að etnólógía er ekkert það sama á milli tungumála. Þó þjóðfræði sé stundum etnólógía þá er etnólógía stundum mannfræði. Á þýsku þarftu að tilgreina sérstaklega Europäische Ethnologie til þess að um þjóðfræði sé að ræða. Sumstaðar í Þýskalandi er þjóðfræði kölluð menningarfræði. Til þess að tengja íslensku þjóðfræðigreinina við erlendar greinar þá þarf sá sem gerir það að þekkja til þjóðfræði og skilja bæði tungumálin. Ef ekki þá verður þetta bara svona bölvuð vitleysa.
Ég hef ekkert rosalega mikla trú á íslensku Wikipediu. Wikipedia á ensku er yfirleitt miklu betri en getur innihaldið alveg hrikalegar rangfærslur líka (en reynsla mín er þó að Britannica sé verri). Vandamál íslensku Wikipediu er að fólk virðist alveg óhrætt við að skrifa um efni sem það veit ekkert um. Það ætti bara ekki að gerast. Það ætti frekar að sleppa greinum heldur en að gera þetta svona vitlaust.