Ég held að ég hafi fyrst heyrt orðið blogg árið 1999. Það var þá notað af strák sem vann hjá Nett á Akureyri um mína fyrstu tilraun til að halda einhvers konar dagbók/fréttasíðu á netinu. Egill Helgason sagði um áramótin að orðið blogg hafi orðið til árið 2005. Það var mikið hlegið að honum þá. Á orðum hans í Fréttablaðinu í dag má skilja að hann haldi að orðið blogg hafi ekki verið til árið 2000. Það tók mig ekki langan tíma að finna dæmi um orðið frá því ári en ég fann ekkert eldra í fljótu bragði. Það er þó væntanlega af því að mikið af fyrstu bloggsíðunum eru horfnar.
En hvað sem skilningi Egils á fyrirbærinu líður þá er hann einfaldlega ekki besti bloggari landsins. Það gefur bara til kynna að álitsgjafar Fréttablaðsins lesi ekkert sérstaklega mörg blogg. Hnakkus sem lenti í öðru sæti er að sjálfssögðu mikið skemmtilegri en Egill en ég læt hann ekki alveg í efsta sætið. Ég vissi líka ekki að það væri svona mikið leyndarmál hver hann væri. Dr. Gunni lenti í þriðja sæti og á það vel skilið.
Ármann sem hefur lengi verið uppáhaldsbloggarinn minn komst ekki alveg á toppinn en var þarna víst ofarlega. Ég held reyndar að Ármann sé nú nokkuð almennt í uppáhaldi hjá fólki sem veit að bloggið var ekki fundið upp árið 2005. Bryndís vinkona og Berkeleyfari var víst líka nefnd sem einn besti bloggarinn. Hún er allavega einn sá steiktasti 😉
Mér þótti fyndið að öll verstu bloggin voru Moggablogg. Ég verð hins vegar að segja að mér fannst sérstaklega ósanngjarnt að Sigmar skyldi vera þarna, hann á það ekkert skilið. Ellý Ármanns rétt náði að sigra fyrrnefndan Ómar R. Valdimarsson. Ég tel það verulega ósanngjarnt. Ómar hefði að sjálfssögðu átt skilið að fá titilinn versti bloggarinn. Eða ömurlegasti öllu heldur. Ásgeir er reyndar búinn að fletta ofan af Ómari. Það er svoltið gróft að láta alter-egóið sitt búa til auglýsingu um sjálfan sig.
Ef það er biturleiki í færslu minni þá er hún að sjálfssögðu tilkomin vegna þess að ég komst ekki á lista bestu bloggarana. Augljós skandall. Ég ætti augljóslega að gera minn eigin lista við tækifæri.