Skipt um efni

Jæja, fór til Terry núna áðan og ræddi við hann.  Upp úr því kom að ég er að skipta um Mastersritgerðarefni. Það hefur reyndar verið lengi í deiglunni en Terry var bara að koma frá útlöndum.  Ég mun ekki geta nýtt átta af þeim einingum sem ég hef tekið þetta skólaár en reyndar kemur á móti að ég get tekið inn tveggja eininga námskeið frá því í fyrra. Þetta gefur mér sléttar þrjátíu einingar í MA-náminu þegar ég hef lokið danska kúrsinum. Þegar Cork dæmið er komið á hreint þá ætti ég að geta sett upp nákvæmlega hvernig þetta verður.

En ástæðan fyrir því að ég skipti um efni er einföld. Ég er mjög heitur fyrir því verkefni sem ég ætla að vinna fyrir Nýsköpunarsjóð í sumar og get vonandi komist langt með það. Í raun er ég byrjaður á því.

Ég ákvað upprunalega ritgerðarefnið mitt fyrir einu hálfu ári. Í því hafði ég ekki mikið skrifað nema eina ritgerð sem ég hefði getað nýtt. Það hefur semsagt orðið kulnun. Ég vona reyndar að ég geti aftur komið mér af stað í því þegar ég hef lokið mastersnáminu en það er ekki tímabært að ákveða það.