Partí, partí!

Við héldum partí í gær. Að mestu leyti var þetta fólk sem hafði hjálpað okkur að flytja en gestalistinn í heild var: Árný, Hjörvar, Hildur, Eva, Nils, Hjördís, Danni, Halli og Siggi (aldursdreifing frá árgerð ’70 til árgerð ’83). Við föttuðum eftir á hvers vegna Svenni og Hrönn ákváðu að mæta ekki, við höfðum nefnilega ekki hugsað út frá dagsetningunni og Hrönn átti afmæli. Jæja.

Við byrjuðum reyndar daginn á að kaupa tvo klappstóla í viðbót í IKEA svo í heild þá höfum við 10 stóla. Við keyptum líka tólf glös í stíl, eina ruslafötu í viðbót, herðatré, dót undir heita potta sem enginn man hvað heitir (hitaplatti) og drasl undir tímarit. Eva keypti sér bangsa sem ég vil kalla Emil (sænskur).

Við fengum risastórt (eða meðalstórt) blóm frá bókasafnsfræðinördum í innflutningsgjöf. Fleiri eru að spá í gjafir en við klúðrum þessu með því að eiga nær allt í búið þannig að við gátum ekki komið með neinar gjafatillögur.

Partíið var í okkar stíl og byrjað var á því að horfa á Popppunkt, Doktorinn var of örlátur á stig við Skítamóral í hljómsveitin spreytir sig (og vondur við Trabant sem hefði átt að fá fullt hús stiga) og nýja kerfið treystið of mikið á heppni. Ég og fleiri öskruðum svörin á sjónvarpið.
Næst var dregið fram Party & co og farið að spila, Árný og Hjörvar drógu sig reyndar í hlé enda var minnsta í fyrsta sinn í pössun (hjá ömmu, Helgu). Óli lék Monicu og skipaði í lið (reyndar var Eygló með í ráðum) eftir því hverjir þekktust minnst. Reyndar þurfti að hafa þrjá bókasafnsfræðinörda í liði til að þetta virkaði, það voru semsagt Danni, Halli og Eygló. Hin liðin voru Óli, Hjördís og Hildur og síðan Siggi, Eva og Nils.

Keppnin var hörkuspennandi og stórskemmtileg. Mitt lið náði forskoti til að byrja með en NSE náðu síðan góðum spretti og náði einni fleiri plötu (við reyndar með TradeMark plötu sem er erfiðasta platan þannig að munurinn var ekki það mikill). Lið Eyglóar var lengst af með enga plötu. NSE náði fyrst öllum plötunum en gekk ekki að ná lokareitnum. Harka hljóp í leikin þegar það var níðst á mínu liði með því að láta gefa ekki eftir að við svöruðum í raun rétt varðandi fyrri störf Vigdísar Finnbogadóttur, eftir það kom ekkert annað til greina en að vinna og það hófst en þá höfðu Danni, Halli og Eygló líka náð öllum plötunum þannig að jafnt var það.

Eftir þetta var planað að fara niðrí bæ en það gekk hægt, Siggi fór með Hjördísi, Nils og Danna niður í bæ (og fór sjálfur síðan heim) á meðan við hin biðum í hálftíma eftir að Eygló kláraði úr glasinu sínu. Á meðan Eygló kláraði glasið þá var þulin upp sagan af því hvernig við Eygló byrjuðum saman fyrir Halla, sú er hálfneyðarleg á köflum.

Eva var orðin svoltið hávær á leiðinni út og ég minnti hana á að við ættum nú nágranna, til dæmis bloggaranágranna og nefndi þau Kristján og Stellu á nafn og þá kom í ljós að Halli vinnur með Stellu.

Pöbbarölt hófst í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem ömurleg, ömurleg tónlist var spiluð. Hildur datt útúr hópnum á þeim tíma. Síðan voru hinir ýmsu staðir skoðaðir, oft bara biðraðir reyndar, heilsaði Árna Þorláki á förnum vegi. Enduðum inn á Celtic Cross og Eva litla komst inn þó hún eigi nokkra daga eftir í tvítugsafmælið sitt. Það var ágætt þar, trúbadorinn með nokkur góð lög (þó textinn hafi ekki alltaf verið á hreinu hjá honum). Ég söng vel og vandlega með The Wild Rover, Born to be Wild og Crazy Little Thing Called Love, reyndar sungum við flest eitthvað með. Stólar voru fáir þannig að ég sat á borði, Nils stóð lengi vel og Hjördís var á háum barstól.

Ekki entumst við lengi þar (Eygló búin að vera mjög völt nokkuð lengi) og snerum heim á leið, ég skutlaði Halla og Danna en tók Evu og Eygló með heim (enda er Eva búin að gista hjá okkur þessu vikuna). Ég vaskaði upp og tók til alveg strax. Ég svaf reyndar ekki vel í nótt enda með reykingahöfuðverk (hlakkar til þegar þessi viðbjóður verður bannaður).

Eftir á að hyggja hefði líklega verið skemmtilegra að hanga bara heima, vera sinn eigin DJ og spjalla.
Myndirnar komnar inn loksins eftir tæknilega erfiðleika.

Innflutningspartí hjá Eygló og Óla þann 13. september 2003