Fleiri myndir á Facebook. Allar líkur á að ég setji eitthvað inn á eigin myndasíðu við tækifæri.
Ég fór í skólann áðan og stóð í röð í rúman klukkutíma til að láta taka mynd af mér og fá skírteini. Ég ætlaði að lauma mér hjá Raffa og Alejandro en línuvörðurinn, já öryggisvörður í einkennisbúningi og allt var í hlutverki línuvarðar, skipaði mér að fara aftast. Ég stóð því hjá bandarískri stelpu sem var voðalega feimin. Talaði því nær ekkert. Þegar við vorum komin næstum alla leið þá fengum við The Irish Time gefins. Ég grínaðist þá með að við værum væntanlega að fara í svona gíslamyndatöku, blaðið væri til þess að staðfesta að við værum á lífi í dag. Bandaríska stúlkan hló að þessu og það voru einu viðbrögðin sem ég fékk frá henni. Ég komst í myndatökuna og fékk skírteinið mitt.
Eftir á rölti ég niður í bæ, endaði í Tesco. Ég var að leita mér að almennilegu sykurlausu bragðbættu sódavatni. Það síðasta sem ég prófaði var bara eins og Sprite Zero á bragðið. Mér finnst Aspartam vont. Ég gladdist mjög þegar ég sá kunnuglega flösku í hillunni. Loka með sítrónubragði. Sænskt eðal sódavatn. Aðeins dýrari en hin en þess virði. Ég fór síðan með þetta og skyndifæði í sjálfsafgreiðsluna. Þegar ég var búinn að pakka þessu í bakpokann minn þá heyri ég nafnið mitt kallað. Alejandro og Raffa voru í röðinni á eftir mér og ég beið eftir þeim og við röltum saman heim.
Við erum semsagt aðeins að bonda. Þeir verða væntanlega ekki bestu vinir mínir en sambúðin ætti að ganga.
