Ísland í Cork

Ég var að fara yfir kvikmyndalistann á kvikmyndahátíðinni hérna í Cork og sá að á listanum er myndin „Wrestling“ eftir Grím Hákonarson. Ég stefni að því að mæta og verð í viðeigandi bol. Vonandi plata ég fleiri með. Ég hef reynt að útskýra íslenska glímu fyrir fólki. Enginn hefur verið spenntur að prufa.

Það hjálpar manni reyndar aðeins þjóðernið. Fólk er voða spennt fyrir landinu og hefur almennt ekki hitt neinn Íslending áður. Ein ítölsk stelpa var í gær að spyrja mig hvaðan ég væri og þegar ég fór með týpísku þuluna mína um að ég byggi í Rvk en væri frá Ak þá spurði hún hvort að Akureyri væri ekki í norðrinu á landinu. Hún hafði semsagt stúderað kort af Íslandi vegna þess að mamma hennar fór þangað.

Ég hef annars ekki hitt neinn Íslending síðan að ég kvaddi Kobba á Stansted. Ég veit ekki hvort að það séu nokkrir hérna eins og er en ég hef reyndar ekkert verið að leita. Ég er sáttur við að hitta fólk alls staðar að úr heiminum.