Spilamennska, Þjóðverjaplott og falleg brú

Plottfundi var frestað í dag þar sem Marianne er ekki með nein húsgögn. Í staðinn fór ég á kynningarfund spilaklúbbsins hérna. Ég spilaði Star Munchkin en gekk mjög illa þar sem ég fékk ekki góð spil. Náði hins vegar góðum leik þegar ég eyðilagði sigurinn fyrir öðrum. Ágætt fólk þarna eins og nördar eru almennt.

Ég stoppaði ekki lengi þar sem Þjóðverjarnir buðu mér með sér á krá. Ákvað að það væri best að mæta til að skipuleggja ferðina um helgina. Á leiðinni varð ég fyrir merkilegri reynslu. Ég þurfti að kaupa mér mat og ákvað að fá mér eitthvað verulega fljótlegt. Ég kom því við í Centra sem er hérna á Grand Parade við enda St. Patricks. Þar fékk ég mér svona kafbátssamloku hálfgerða og hún var verulega góð. Það er fyrsti maturinn sem ég smakka hér sem ég verulega nýt þess að borða. Hiklaust staður til að koma við eftir djammið.

Hitti Þjóðverjana (og Jessicu) á krá. Þar heyrði ég góða tónlist spilaða, meðal annars Who, Queen, Talking Heads og Bítlana. Ég fékk líka að heyra ferðaplönin. Við hittumst klukkan 10 á laugardagsmorgun, förum út á flugvöll, leigjum bíla og höldum til Mizen Head. Og sú sænska kemur þannig að ég þarf ekki að hlusta eingöngu á þýsku.

Á leiðinni heim stoppaði ég og tók myndir. Þessi fannst mér ágæt, smellið á til að stækka.

Brian Boru Bridge

Þetta er semsagt Brian Boru Bridge sem ég nota næst oftast til að fara yfir Lee. Ef farið er yfir brúnna, beint áfram og síðan til hægri þá kemst fólk heim til mín.