Söknuður í ýmsum myndum

Það eru tvær vikur í heimför og ég segi bara eins og Bergdís: Mig langar heim (ég læt stóru stafina þó vera). Það er alveg óendanlega erfitt að vera svona frá Eygló, vissulega var gott að fá hana í heimsókn og skreppa aðeins heim en það er skammgóður vermir.

Það er líka byrjað að fara verulega í taugarnar á mér að msn og Skype eru að bregðast okkur endalaust. Ekki bara að símasambandið í Skype sé á köflum slakt heldur líka að skilaboðin þar eru lengi að komast til skila. MSN er verra að því leyti að maður sér ekki fyrren löngu seinna að þó hafi ekki komist til skila og stundum veit maður ekkert um það. Mjög slæmt. Þetta er þó það sem heldur manni gangandi, að geta notað þessa samskiptamiðla til að vera í miklu sambandi.

Ég hef ekki verið duglegur í félagslífinu hérna úti undanfarið. Vissulega var ég með fólk í mat á föstudaginn en í gær afþakkaði ég tvö partí og tónleika.  Það er sumt fólk hérna sem ég hefði viljað umgangast meira og þá held ég að ég myndi setja John skólafélaga minn efstan á lista. Hann virðist vera svo indæll og skemmtilegur. Við höfum náð að bonda mikið betur við hvorn annan en við Kari. Ég mun setja það sem forgangsatriði að halda sambandi við hann og þá hitta hann þegar ég sný aftur á eyjuna grænu. Og bjóða honum gistingu heima á Íslandi.

Það er já líka þannig að þó ég vilji fara heim þá er ýmislegt sem ég vildi gera meira hér. Mér finnst ég ekki hafa nýtt tímann vel hér. Ég nefndi þetta við Rapha og hann var með nákvæmlega sömu tilfinningu. Ég hef reyndar spjallað meira við hann síðustu vikur en nokkru sinni áður. Ágætur en það vantar smá upp á enskuna hans. Ólán að vissu leyti fyrir hann að vera í sterkum spænskumælandi hóp.

Mér finnst enskan mín ekki hafa batnað. Ég hef þó lært að bera orðið film fram sem fillum og sömuleiðis modern sem modren. Ég nota orðið „Grand“ einstaka sinnum en þá bara þegar ég hugsa um það. Ég slengi líka einstaka „so“ eða „like“ samhengislaust fyrir aftan setningar þegar ég er í stuði. Ég hef ekki ennþá komist á lag með að hunsa algjörlega „how are you?“ þó ég viti að þetta er bara þeirra leið til að segja halló og það er ekki ætlast til að maður svari, hvað þá um það hvernig manni raunverulega líður. Jafnvel í búðum fæ ég ekki af mér að svara til baka með öðru „how are you?“ heldur nota mitt eigið „heyja“ sem hljómar svolítið eins.

Ég held ég hafi ekki nefnt um daginn að oft þegar ég gef Carlos pening þá þakkar hann guði fyrir og signar sig. Ég hef ekki haft mig í að útskýra fyrir honum guðleysi mitt. Við Eygló rákumst annars á hann saman um daginn niður á MacCurtain stræti. Síðan hitti Eygló líka Alejandro en aðra úr lífi mínu hér rákumst við ekki á saman.

Ég er spenntur fyrir því hvernig ég mun hugsa aftur til Cork. Ég mun væntanlega sakna fólksins en mun ég sakna borgarinnar? Verð ég fastagestur hérna í framtíðinni eða mun ég bara líta hér örsjaldan? Eyjan sjálf heillar. Ekki borgirnar heldur sveitin. Mér líkar í raun vel við Cork. Hún er líka frekar falleg og indæl. Sá líka að hún er mjög ólík Dublin. Allt annar karakter.

Áin er einn uppáhaldshluti minn af borginni. Hún getur verið svo falleg. Hún breytist líka alltaf. Best er þó þegar hún er spegilslétt. Hún er fullkominn strigi fyrir myndatökur. Ég hef ekki nýtt mér það nóg vel. Til dæmis á ég eftir að taka mynd af ráðhúsinu. Einnig ætlaði ég alltaf að ganga meðfram henni og taka myndir. Það eru víst þrjátíu brýr yfir hana þar sem hún umkringir miðborgina. Ég á þó margar myndir af Michael Collins brúnni, Brian Boru og Patreks sem eru hér næst mér og eru í uppáhaldi. Síðan er ein voða falleg inn á háskólasvæðinu.

Þessi færsla fór í allt aðrir áttir en ég ætlaði. Langt frá því að vera ítarleg en þó einhver yfirsýn yfir það sem ég er að hugsa. Sleppti þó öllum ritgerðaráhyggjum.