Hinn dularfulli Vlad

Áðan fékk ég tölvupóst frá einhverjum Vlad. Ég gerði strax ráð fyrir að þarna væri um ruslpóst að ræða. En ég sá síðan orðið folklorist og ákvað að eyða því ekki alveg hugsunarlaust. Ég skoðaði það aðeins og varð ringlaður í smátíma. Hver var þessi Vlad og hvers vegna var hann að senda mér ruglingslegan póst þar sem var verið að fjalla um þjóðfræði netsamfélaga.

Ég ákvað að skoða hausinn á emailinu nánar til að sjá hvort að lénið sem Vlad notaði myndi gefa mér einhverja vísbendingu. Kemur þá í ljós að fyrrihluti tölvupóstfangsins er valdimartr sem gefur þá til kynna að Vlad sé kennarinn minn hann Valdimar. Þegar ég skoðaði póstinn síðan betur áttaði ég mig á að þetta væri væntanlega umræða af þjóðfræðipóstlista. Nú er bara spurning hvort ég hafi eytt fleiri póstum frá þessum Vlad án umhugsunar.