Bryndís Ísold tjáir sig um Stúdentaráðskosningar sem fara fram í dag og á morgun. Hún segir „mér finnst eitt helsta baráttumál Vöku í besta falli kjánalegt. En það gengur út á að tryggja það að stúdentaráð tjái sig ekki um mál sem ekki snúa algjörlega beint að hagsmunum stúdenta.“ Ég reyndi að finna þetta mál á heimasíðu Vöku en þar sést það ekki. Líklega eru Vökuliðar ekki sammála Bryndísi um að þetta sé eitt helsta baráttumál þeirra.
Þetta var hins vegar eitt helsta baráttumál Háskólalistans sem ákvað að sitja hjá í þessum kosningum. Við töldum það ekki á verksviði Stúdentaráðs að tjá sig um mál sem ekki vörðuðu hagsmuni stúdenta.
Það er rétt sem Bryndís segir að stúdentar hafi víðsvegar um heim verið í fararbroddi í andófi. Það sem Bryndís lítur framhjá eða veit ekki er að oftast hefur slíkt andóf verið mjög tengt hagsmunum stúdenta. Í Frakklandi árið 1968 voru helstu baráttumál stúdenta umbætur á menntakerfinu. Atvinnumál stúdenta að loknu námi voru líka ofarlega.
Þegar stúdentar hafa verið í fararbroddi í andófi um mál sem ekki tengjast hagsmunabaráttu stúdenta beint þá hefur það yfirleitt verið þannig að um hefur verið að ræða hópa stúdenta en ekki hagsmunafélög. Oft hafa þetta verið hópar róttækra vinstrisinnaðra stúdenta. Þeir höfðu ekki verið kosnir til starfa af stúdentum skóla sinna.
Í praxís virkar Stúdentaráð yfirleitt þannig að Vaka eða Röskva fær aðeins fleiri atkvæði og getur meira og minna ráðið öllu. Venjan er líka sú að hægrimenn kjósi Vöku og vinstrimenn Röskvu. Röskva er opinberlega vinstrisinnuð. Vökuliðar fatta hins vegar ekki að þeir eru hægrimenn fyrren að þeir eru hættir í stúdentapólitík og ná oft merkilega fljótt að vinna sig upp innan Sjálfsstæðisflokksins. Maður gæti haldið að innan Sjálfsstæðisflokksins sé litið svo á að starf innan Vöku sé ígildi til dæmis starfs innan SUS. Þetta þýðir að þegar Stúdentaráð tjáir sig um þjóðmálin til dæmis þá eru allar líkur á að stór hluti stúdenta sé ósammála því sem ráðið segir. Stúdentaráð hefur í raun ekkert umboð frá kjósendum sínum til að fara út fyrir hagsmunabaráttu stúdenta.
Það eru ýmis vafamál í þessu. Til dæmis nefnir Bryndís skipulag Vatnsmýrarinnar. Ég er sammála henni um að þau mál séu á sviði Stúdentaráðs. Það hvort að flugvöllurinn eigi að fara eða vera er ekki skýrt hagsmunamál stúdenta. Það fá meira byggingarland fyrir Háskólann er vissulega stúdentum í hag en aftur á móti treysta margir landsbyggðarstúdentar á flugvöllinn til að komast til og frá Reykjavíkur. Nú gæti önnur hvor fylkingin sett það sem kosningamál að flugvöllurinn færi og fengi þá umboð til slíks ef hún fengi meirihluta. Stúdentaráð hefur hins vegar engin völd í þeim málum og slíkt væri einungis táknrænt. Í undantekningartilfellum geta utanríkismál verið á könnu Stúdentaráðs. Til dæmis þegar ráðist er á tjáningarfrelsi stúdenta í erlendum skólum.
Ef þetta væri eitt helsta baráttumál Vöku þá myndi ég hugsanlega kjósa þau út á það. En ég sé þau ekki leggja áherslu á það þannig að ég hef enga ákvörðun tekið. Mig grunar reyndar að ástæðan fyrir því að Vaka hefur stundum talað um þetta sé fyrst og fremst vegna þess að skoðun hægrimanna á þjóðmálum og sérstaklega alþjóðamálum sé ekki það vinsæl meðal stúdenta að þeir vilji nota þau á þessum vettvangi.
Ég kýs væntanlega á eftir. Reyni að ákveða mig í millitíðinni.