Fyrir rétt rúmu ári sendi ég þessa færslu inn til að fræða almenning, það er aftur kominn tími á hana.
Þegar kaupa á perur í jólaseríur þá er ýmislegt sem þarf að huga að. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að muna að það er bara í undantekningatilvikum sem það sést á perunni sjálfri af hvaða gerð hún er. Til að vita hvernig peran er þarf í minnsta lagi að vita hve margar perur eru í seríunni, það getur líka verið gott að kíkja á miða sem er yfirleitt nálægt klónni. Á honum stendur til dæmis 35 x 7 volt, þið skrifið þetta niður, farið með í búðina og segið afgreiðslufólkinu hvort um er að ræða úti eða inniseríu, það er jafnvel gott að hafa peru með til að sýna. Ef pera springur í seríu er nauðsynlegt að skipta um sem fyrst enda fara aðrar perur að eyðileggjast um leið.
Ef kaupa þarf perur í aðventuljós þarf að muna hvort það er um 7 eða 5 arma ljós að ræða (7 arma eru mun algengari). Gott er að kaupa sjö perur í einu af því annars verða nýju perurnar mun bjartari en hinar, geymið síðan þær sem þið takið úr og notið næst þegar pera fer, þá passar þetta betur saman.