Frábært veður

Það er æðislegt veður úti, ég er verulega að spá í að skreppa út á eftir. Þetta er svona veður sem maður fer út í og finnur að maður er lifandi. Svona kemur alltof sjaldan fyrir í Reykjavík. Ég verð að játa að ég fékk smá heimþrá við að sjá hvernig veðrið hefur verið á Akureyri undanfarið. Þetta er svosem ekki skemmtilegt veður þegar maður þarf að komast í vinnuna eða skólann í þessu.

Þetta vekur upp minningar um kvöld eitt í mars 1996, þá var alveg villt og galið veður, mun verra en núna. Þá bjó ég í Kotárgerði (á Akureyri) og var nýbúinn að taka tvær vampírumyndir (Salem’s Lot og Innocent Blood minnir mig) á videoleigunni Videover í Kaupangi. Klukkan var að ganga ellefu eða tólf og allt í einu bankar Ásgeir upp á. Fyrr um daginn hafði mamma hans Ásgeirs þurft að skilja bílinn eftir út í Þorpi (við vorum á Brekkunni) og Ásgeiri datt það í hug að það var snjallt að fara að ná í bílinn. Mig grunar að Ásgeiri hafi langað á rúntinn. Jæja, ekki gat ég látið Ásgeir fara einan út í óveðrið þannig að ég ákvað að skella mér með. Ég klæddi mig vel en að vanda þá var ég bara í strigaskóm.

Við þurftum að fara uppeftir og fara eftir Hlíðarbrautinni, þar var töluvert af fólki fast í snjónum og við höfum örugglega reynt að hjálpa því eitthvað smá. Bíllinn var í götu rétt hjá verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð og við komumst þangað að lokum. Bíllinn fór ekki í gang og eftir smátíma þá gáfumst við upp og ætluðum að komast í skjól, það gekk ekki þannig að við snerum aftur að bílnum. Það tók á en við komum bílnum í gang og vorum ofsakátir.

Við ákváðum að fara ekki Hlíðarbraut vegna þess að færið þar var vonlaust og fórum þess í stað Hörgárbraut. Það var afskaplega snjallt þar sem Hörgárbraut er afskaplega langt frá þeim stöðum sem við bjuggum á. Við festumst náttúrulega á Hörgárbraut, rétt við Shell-nestið (Gellunesti). Við vorum verulega illa staddir en sem betur fer blokkuðum við götuna fyrir annari umferð þannig að þeir sem komu á eftir okkur hjálpuðu okkur af stað. Einhvern veginn náðum við síðan að komast heim, ég held að þetta ferðalag hafi tekið svona tvo tíma eða meira. Verulega misheppnað og heimskulegt en ótrúlega skemmtilegt.

Ef Ásgeir hefur einhverjar viðbætur eða leiðréttingar þá má hann koma með þær hér.