Refsum fólki fyrir að vera öðruvísi

Á Pólitík er grein eftir Sverri Teitsson þar sem hann stingur upp á því að þeir sem eru meira en ári á eftir með nám sitt í Háskólanum þurfi að borga aukagjöld. Hann vill að fólk borgi aukalega fyrir að vera að skrá sig óhóflega í og úr námskeið. Sverrir vill líka að þeir sem hafa skráð sig oftar en einu sinni í sumarpróf borgi fyrir þau. Þetta finnst mér mjög undarlegar hugmyndir og ákaflega vanhugsuðar.


Í greininni kemur fram að Sverrir heldur að það sé verulegt vandamál hvað „fjölmargir slugsast“ í náminu. Ég efast stórlega um að þetta sé satt, það eru hins vegar margir sem eru lengur með nám sitt af góðum og gildum ástæðum. Í minni skor er mjög algengt að fólk sé fullri vinnu með náminu og því eðlilegt að það sé lengur en aðrir í náminu, ég fatta ekki hvaða gagn væri af því að fara að refsa þessu fólki með aukagjöldum. Þetta fólk borgar skráningargjald á hverju ári sem er hlutfallslega hærra á hverja einingu, ég sé ekki að þetta fólk sé nokkuð dýrara fyrir Háskólann. Síðan er fólk sem er að taka meira en það þarf í Háskólanum, má það ekki? Er endanlegt markmið náms í Háskólanum gráða en ekki þekking? Er það svo slæmt ef fólk telur sig betur búið fyrir starfsframa með því að taka 100 eða 120 einingar? Og hvað með fólk sem vill skipta um aðalgrein þegar hluta námsins er aflokið? Á að refsa því fyrir að hafa fengið áhuga á öðru í gegnum Háskólann?
Annar hópur sem Sverrir vill níðast á eru þeir sem eru ekki jafn góðir námsmenn og aðrir. Fólk sem heldur áfram í náminu þó það hafi fallið. Viljum við endilega brjóta þetta fólk niður með því að refsa því fjárhagslega? Þetta er fólk sem á kannski eftir að skara fram úr í þeirri grein sem það hefur valið sér þó það sé ekki beinlínis góðir námsmenn, fólk getur þjáðst af prófkvíða og svo framvegis. „Óheppinn, borgaðu!“
Það að ætla að refsa fólki fyrir að taka sumarpróf er slæmt. Fólk sem hefur orðið veikt þarf að borga, þeir sem hafa fengið slæma próftöflu þurfa að borga og svo framvegis. Fólk er ekki að taka sumarpróf til að leika sér einsog má skilja á orðum Sverrirs, það er ákaflega óhentugt að þurfa að taka próf á sumri en það eru alltaf einhverjir sem neyðast til þess.

Er fólk of mikið að skrá sig í og úr námskeið? Á að neyða fólk til að klára alla áfanga sem það skráir sig í? Hvað mynda það hafa í för með sér? Þeir sem eiga á hættu að borga fyrir það að skrá sig úr námskeiðum á eftir að passa sig vandlega á því að taka bara kúrsa sem það veit að það getur náð. Það nákvæmlega sama á við um þá sem vita af því að þeir þurfa að borga fyrir sumarpróf og þá sem hafa verið „of lengi“ í námi sínu. Færri nemendur eiga eftir að reyna við námskeið sem eru sögð erfið og afleiðingarnar verða jafnvel á þá leið að kennarar byrja að lækka kröfurnar.

Ég held að þessar hugmyndir Sverris eiga ekki eftir að spara neinn pening og muni skapa heilmikið vesen. Í fyrsta lagi krefjast þessar hugmyndir til að mynda að tölvukerfi verði uppfærð, það kostar peninga. Í öðru lagi eiga gríðarlega margir eftir að sækja um undanþágur og það á eftir að vera byrði á ýmsum aðilum innan skólans. Í þriðja lagi verður þetta til að flækja allar reglur sem er alltaf slæmt.

Hugmyndir Sverris munu hvetja fólk til að hætta í Háskólanámi þegar á móti blæs, líklega myndu þær reglur sem væru settar í anda þessara hugmynda gera fólki erfiðara að byrja í námi aftur eftir að hafa hætt. Það hlýtur að vera slæmt að missa fólk úr námi af því að þá glatast fjárfestingin sem hefur verið lögð í það.

Það er ekkert gott við tillögur Sverris, hann segist vilja láta fámennan hóp borga þegar staðreyndin er sú að þetta mun koma niður á mörgum óviðkomandi. Allt gengur þetta líka gegn hugmyndinni um jafnrétti til náms.