Við fórum á diskamarkað í Blómavali áðan og keyptum nokkra diska. Fyrstan má telja Hjartagull með 200.000 Naglbítum (1499 kr), við vorum búin að ákveða fyrir löngu að kaupa þennan enda afskaplega góður. Númer tvö var Stóri Hvellur með Dr. Gunna (1499 kr), þau lög sem ég hef heyrt eru ákaflega skemmtileg og Hrönn vinkona Eyglóar hatar þau sem er gott merki að um úrvals tónlist sé að ræða. Doktorinn átti fleiri fulltrúa því Eygló vildi endilega kaupa Super Shiny Dreams með Unun (499), þetta er Unun á ensku og fyllir þar með upp í Ununarsafn Eyglóar. Ég sá að það væri alveg þess virði að kaupa Óskalögin 7 með 40 vinsælum lögum frá 9. og 10. áratugnum (1299) því þar eru þónokkur lög sem við eigum ekki. Við dyrnar var Svarta Platan Higer Ground á 250 krónur og þar sem Eygló langaði í hana þá var þetta ekki erfið ákvörðun.