Það er eitt varðandi rafbækur sem ég hef ekkert skrifað um og það sú spurning hvort þær geti tekið yfir þannig að pappírsbækur verði úreltar. Svar mitt er einfalt: Ég veit það ekki.
Sjálfur er ég í ástar/haturs sambandi við pappírbækurnar mínar en elska rafbókasafnið mitt. Ástæðan er sú að pappírsbækurnar eru til vandræða. Við eigum eiginlega alltof margar bækur – allavega í þeim skilningi að við erum með allavega átta kassa af bókum í geymslunni. Rafbækurnar mínar taka svo lítið pláss að ég sé ekki einu sinni fyrir mér að ég gæti fyllt Kindilinn minn og ef ég gæti gert það þá er í boði að geyma bækurnar í Amazon „skýi“.
Ég hef sagt að mér þyki betra að lesa rafbækur en pappírsbækur. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Það er þægilegra að halda á Kindlinum heldur en bók. Ég get stillt stærð textans eftir hentugleika (get lesið við mjög lítið ljós ef ég stækka textann). Ég get látið lesa fyrir mig ef ég er með enskan texta – það hentar til dæmis í Strætó (ég fæ svima af því að lesa í strætó) og þegar drengnum þótti návist mín nauðsynleg til að sofna þegar hann vaknaði um miðja nótt. Kindillinn er betri á ferðalögum. Ég hefði ekki tekið með mér tvær bækur úr Song of Ice and Fire (Game of Thrones) til Svíþjóðar í fyrra en ég gat auðveldlega haft alla seríuna á rafbókaformi (þetta eru langar bækur). Á ferðalagi þarf maður heldur ekki að velja fyrirfram hvaða bækur maður les. Þegar kemur að fræðiefni þá er mikið þægilegra að láta Kindilinn nótera hjá sér áhugaverða kafla og athugasemdir mínar heldur en að krassa sjálfur og reyna síðan að finna áhugaverðu partana þegar maður þarf á þeim að halda. Síðan er hið augljósa að ég get reddað mér nýrri rafbók svo lengi sem ég sé með þráðlaust net (þeir sem eru með 3G geta gert það allsstaðar þar sem símasamband er nógu gott).
Ég get borið þetta saman við geisladiskasafn mitt. Það var seint á síðustu öld sem ég byrjaði að setja tónlistina mína á tölvuna mína. Tölvan var síðan tengd við græjurnar. Þegar geymslumiðlarnir stækkuðu setti ég alla tónlistina mína á tölvutækt form – stafrændi hana. Rétt áður en sonur minn fæddist settum við flesta geisladiskana okkar ofan í kassa og hef ekki saknað þeirra. Ég held þó nokkrum uppi. Til dæmis árituðu Týsdiskunum mínum (og reyndar þeim diskum sem ég stefni á að fá áritun á).
Ég geri ráð fyrir að það komi að því að dvd safnið mitt fari sömu leið. Það er bara spurning um að eignast nægilega stóran harðan disk. Um leið er maður tortrygginn á kaup á dvd diskum núna þegar blágeisladiskar eru að verða algengari. Ég veit þó ekki hvort ég kaupi nokkurn tímann þannig diska. Frekar vonast maður til að stafræn kaup verði auðveldari.
Ég er sumsé að losna undan þeirri efnishyggju eða fetisisma að telja að ég þurfi að hafa hlut í höndunum til að sýna eign mína. Slíkt er líka að miklu leyti gert fyrir gesti. Ég er ekkert ónæmur fyrir því að vilja sýna hver(nig) ég er með slíkum hlutum og ég hef þar að auki gaman gramsa í geisladiska og dvd söfnum fólks sem ég heimsæki. Hvað þá bókum. Það er líka leið til að kveikja samræður um þá hluti sem maður hefur áhuga á. Við erum hins vegar farin að nota aðrar leiðir til þessa. Við segjum frá hlutum á Facebook (og hér áður fyrr á bloggum) og setjum þar inn lista yfir hluti sem við erum hrifin af. Við gerum þetta af mörgum þeim sömu hvötum og við setjum ákveðnar bækur eða geisladiska á áberandi staði. Facebook hins vegar notar þetta til að gera okkur að betri söluvöru því útgefendur vilja kortleggja okkur sem neytendur.
Bækurnar mínar eru enn á áberandi stað í stofunni ólíkt geisladiskunum og ólíkt dvddiskunum þá eru þær ekki að fara alveg strax. Það er þó ekki útilokað að ég setji bækur ofan í kassa þegar ég eignast þær á rafbókaformi. Bækur eru ólíkar geisladiskum og sérstaklega dvddiskum af því að þetta er miðill sem fólk sett sig inn í án fyrirhafnar. Þú bara opnar bókina. Þannig hljóta bækur að vera miklu betri hlutur en geisladiskur eða dvddiskur. Bókin getur gengið til næstu kynslóðar án þess að börnin eða barnabörnin lendi í einhverjum tæknilegum erfiðleikum með að njóta hennar. Í versta falli er orðaforðinn breyttur.
Ég held að rafbækur muni á næstu árum hafa töluverð áhrif á kiljuútgáfu. Ég held að flestum þyki allt í lagi að skipta kiljunum út fyrir rafbækur. Þá á ég sérstaklega við „sumarleyfislestur“. Skáldsögur sem komu út um jólin. Þetta er augljóslega háð því að útgefendur hafi áhuga á að selja rafbækur. Þeir sem lesa á ensku munu þó strax finna fyrir þessu og hafa líklega þegar fundið fyrir þessu.
Rafbækur geta og eiga að gjörbylta möguleikum fræðimanna að gefa út efni.
Sérstaða íslenskar bókaútgáfu sem gengur fyrst og fremst á jólagjafamarkaðnum gæti vel þýtt að áhrif á harðspjaldabækur verði seinna en ella. Ég gæti þó stillt Amazon hjá mér þannig að þið gætuð gefið mér bækur sem yrðu senda í Kindilinn minn klukkan sex á aðfangadagskvöld. Eygló fékk inneign hjá Amazon í afmælisgjöf. Ég þori litlu að spá.
Enn ein breyta í þessu samhengi er möguleikinn á „book on demand“ prentun. Ég veit ekki hvort fólki finnst það heillandi en það eru örugglega ekki mörg ár í að (svo lengi sem rafbækurnar hafi ekki tekið yfir) þú getir farið í sjálfsala í Hagkaup þar sem þú velur þér bók og lætur prenta á staðnum.
Ég ætla sumsé ekki að fara að boða dauða pappírsbókarinnar. Það að ég sem er gjörsamlega heillaður af rafbókum sjái ekki fyrir mér að hætta endanlega að kaupa bækur á því formi bendir til þess að bókin lifi áfram. Það verður áhugavert að sjá hvernig þeir halda í prinsipp sín sem eru núna harðir á móti þessari tækni. Verða þeir eins og Vínylnördarnir sem eiga mögulega eftir að koma því til leiðar að plötur munu lifa lengur en geisladiskar? Eða sjá þeir ljósið (sem felst í skorti á baklýsingu)? Ég veit það ekki.
Ég hef annars ekki nefnt eina breyta. Munu spjaldtölvur „sigra“ rafbókalesarana? Ég held ekki – notagildið er svo ólíkt. Satt best að segja tel ég líklegra að snjallsímarnir sigri spjaldtölvurnar. Rafbókalesarar eiga síðan hægt og rólega eftir að batna. Litir koma í hærri upplausn. Hraðinn verður meiri. Þær eiga örugglega eftir að verða nokkuð líkar spjaldtölvum eftir nokkur ár og maður veltir jafnvel fyrir sér hvort þessi tæki eigi eftir að sameinast í eitt. Ég sé það þó ekki gerast strax en rafblek var svo sem vísindaskáldskapur seint á síðustu öld en raunveruleiki í dag.
Ég neita því að koma með annað en óljósa spádóma um framtíðina. Ég ætla þó að fullyrða að heimurinn mun ekki farast á þessu ári.